Þríþraut
Þríþraut er íþrótt þar sem keppt er í sundi, hjólreiðum og kapphlaupi tiltekna vegalengd án hlés, þannig að tíminn á milli greina telst með í heildartímanum. Þríþraut er íþrótt sem reynir sérstaklega mikið á þol keppenda.
Þríþraut varð til í Frakklandi á 3. áratug 20. aldar. Hin staðlaða „ólympíuvegalengd“ (1500 metra sund, 40 km hjólreiðar og 10 km hlaup), var búin til af bandaríska keppnisstjóranum Jim Curl um miðjan 9. áratuginn. Alþjóða þríþrautarsambandið var stofnað árið 1989 til að reyna að koma íþróttinni að sem ólympíugrein. Fyrst var keppt í þríþraut á Ólympíuleikunum í Sidney árið 2000.
Þekktasta langþríþrautarkeppnin er Járnkarlinn sem hófst á Hawaii árið 1977. Hann felur í sér 3,9 km sund, 180 km hjólreiðakeppni og maraþonhlaup (42,195 km).
Í sprettþraut eru syntir 750 m, hjólaðir 20 km, og svo hlaupnir 5 km.