Akbar Hashemi Rafsanjani
Akbar Hashemi Rafsanjani | |
---|---|
اکبر هاشمی رفسنجانی | |
![]() Rafsanjani árið 1987. | |
Forseti Írans | |
Í embætti 16. ágúst 1989 – 3. ágúst 1997 | |
Þjóðhöfðingi | Ali Khamenei |
Varaforseti | Hassan Habibi |
Forveri | Ali Khamenei |
Eftirmaður | Mohammad Khatami |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 25. ágúst 1934 Bahreman, Íran |
Látinn | 8. janúar 2017 (82 ára) Tajrish, Shemiranat-sýslu, Íran |
Þjóðerni | Íranskur |
Maki | Effat Marashi (g. 1958) |
Börn | 5 |
Undirskrift | ![]() |
Ali Akbar Hashemi Bahramani Rafsanjani (25. ágúst 1934 – 8. janúar 2017) var íranskur stjórnmálamaður og rithöfundur sem var fjórði forseti Írans frá 1989 til 1997. Rafsanjani var einn af stofnfeðrum klerkastjórnarinnar í Íran og var leiðtogi sérfræðingaráðs landsins frá 2007 til 2011.
Stjórnmálaferill Rafsanjani náði yfir 40 ár og á þeim tíma naut hann mikilla valda og var meðal annars þingforseti, yfirmaður heraflans á tíma stríðs Írans og Íraks og forseti. Rafsanjani var jafnframt sá sem mestu réð um það að Ali Khamenei var valinn sem æðsti leiðtogi Írans.
Æviágrip
Rafsanjani fæddist 24. ágúst 1934 nálægt Rafsanjan, þar sem foreldrar hans höfðu efnast vel á ræktun pistasíuhneta. Rafsanjani fór að heiman þegar hann var fjórtán ára í guðfræðinám til borgarinnar Qom, þar sem hann varð fyrir áhrifum af óánægðum klerkum á borð við Ruhollah Khomeini. Eftir að Khomeini var sendur í útlegð til Íraks af írönsku keisarastjórninni árið 1963 tók Rafsanjani þá áhættu að halda áfram samskiptum við hann. Rafsanjani sat oft í fangelsi um stutta hríð á stjórnarárum keisarans vegna róttækrar hegðunar (árin 1963, 1967, 1970, 1972 og 1975).[1]
Þegar Khomeini sneri aftur til Írans í írönsku byltingunni árið 1979 var Rafsanjani fljótur að rísa til metorða í nýju byltingarstjórninni. Hann varð meðlimur í byltingarráði Khomeini og aðstoðarritari og eftirlitsmaður í innanríkisráðuneytinu. Rafsanjani beitti áhrifum sínum til að fylla fyrsta þingið eftir byltinguna með meðlimum Íslamska lýðveldisflokksins, sem hann hafði tekið þátt í að stofna. Árið 1980 var Rafsanjani svo kjörinn forseti þingsins og beitti þeirri stöðu til að styrkja völd sín frekar. Vinátta Rafsanjani við son leiðtogans, Ahmad Khomeini, hjálpaði honum jafnframt á framabrautinni.[1]
Rafsanjani var einn af valdamestu mönnum Írans á níunda áratugnum. Þann 2. júní 1988 lýsti Khomeini, sem þá var orðinn mjög heilsuveill, Rafsanjani æðsta stjórnanda alls herafla Írans. Rafsanjani fékk þannig yfirumsjón með hernaði Írana í stríði Íraks og Írans. Eftir skipan Rafsanjani boðaði hann aukna herkvaðningu og nýjar baráttuaðferðir á vígvellinum, en hvatti um leið til þess að Íran endurskoðaði afstöðu sína til umheimsins og opnaði sig fyrir mögulegum samningum. Í júlí sama ár sendu Íranir Javier Pérez de Cuéllar, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, tilkynningu um að þeir hygðust samþykkja tillögu SÞ um vopnahlé.[2]
Árið 1987 sakaði Abolhassan Banisadr, fyrrum forseti Írans, Rafsanjani um að hafa átt í leynilegum samskiptum við Ronald Reagan og ráðgjafa hans á tíma gíslatökunnar í Teheran árin 1979 til 1981. Samkvæmt Banisadr gerði Rafsanjani samning við Reagan um að sleppa gíslunum ekki fyrr en eftir bandarísku forsetakosningarnar 1980 til þess að tryggja að Jimmy Carter, þáverandi Bandaríkjaforseti, myndi ekki vinna endurkjör. Í staðinn áttu Íranir að fá seld vopn frá nýrri stjórn Reagans eftir kosningarnar.[3]
Eftir dauða Khomeini árið 1989 var Ali Khamenei valinn nýr æðsti leiðtogi Írans en í byrjun var Rafsanjani þó gjarnan talinn valdamesti maður landsins.[4] Rafsanjani varð forseti Írans árið 1989. Forsetatíð hans einkenndist af uppbyggingu og minniháttar umbótum, þar á meðal í samskiptum Írans við nágrannaríkin. Mannréttindabrot voru þó áfram tíð í landinu og sambandið við Evrópu stirt, einkum vegna dauðadómsins sem Khomeini hafði lýst yfir gegn rithöfundinum Salman Rushdie áður en hann dó.[5]
Rafsanjani bauð sig aftur fram til forseta í forsetakosningum Írans árið 2005 og var almennt talinn sigurstranglegur. Þrátt fyrir tengsl Rafsanjani við valdaöflin í klerkastjórninni naut hann stuðnings umbótasinna sem vildu sjá Íran þróast frekar í frjálsræðisátt.[6] Rafsanjani lenti í fyrsta sæti í fyrri umferð kosninganna þann 17. júní 2005 en mun mjórra var á munum en búist var við. Rafsanjani hlaut 21 prósent en harðlínumaðurinn Mahmoud Ahmadinejad, borgarstjóri Teheran, hlaut 19 prósent.[7] Í seinni umferðinni vann Ahmadinejad svo afgerandi sigur og hlaut 62 prósent atkvæða en Rafsanjani aðeins 35,9.[8]
Eftir kosningar í Íran árið 2009 varð Rafsanjani í auknum mæli gagnrýninn á írönsk stjórnvöld og sakaði þau um að hafa hagrætt kosningunum í þágu endurkjörs Ahmadinejads.[9] Rafsanjani hugðist aftur bjóða sig fram í forsetakosningum Írans árið 2013[10] en framboði hans var hafnað af íranska verndararáðinu.[11]
Rafsanjani lést úr hjartaáfalli á sjúkrahúsi í Teheran þann 8. janúar árið 2017.[5] Hann var lagður til hinstu hvílu í grafhýsi Ruhollah Khomeini og hundruð þúsunda sóttu útför hans.[12]
Tilvísanir
- ↑ 1,0 1,1 „Þykir slóttugur og miskunnarlaus stjórnmálamaður“. Tíminn. 20. júlí 1988. bls. 10–11.
- ↑ Magnús Torfi Ólafsson (23. júlí 1988). „Erkiklerkur fær að geifla á eitrinu“. Dagblaðið Vísir. bls. 14.
- ↑ „Illi andinn í Íran“. Alþýðublaðið. 25. ágúst 1987. bls. 6.
- ↑ Dagur Þorleifsson (8. júní 1989). „Samvirk forusta“. Þjóðviljinn. bls. 6.
- ↑ 5,0 5,1 „Rafsanjani látinn“. mbl.is. 8. janúar 2017. Sótt 3. janúar 2024.
- ↑ Birna Anna Björnsdóttir (13. maí 2005). „Rafsanjani vekur vonir um breytingar í Íran“. Morgunblaðið. bls. 18.
- ↑ „Saka harðlínumenn um kosningasvik“. Morgunblaðið. 20. júní 2005. bls. 14.
- ↑ Davíð Logi Sigurðsson (26. júní 2005). „Óvæntur stórsigur harðlínumannsins“. Morgunblaðið. bls. 1.
- ↑ „Fyrrum forseti Írans vill ógilda úrslit kosninganna“. Vísir. 28. júní 2009. Sótt 11. janúar 2024.
- ↑ „Jalili og Rafsanjani í framboð“. RÚV. 11. maí 2013. Sótt 11. janúar 2024.
- ↑ Bogi Þór Arason (13. júní 2013). „Talið að forsetakjör breyti litlu í Íran“. Morgunblaðið. bls. 18.
- ↑ Kári Gylfason (10. janúar 2017). „Hundruð þúsunda við útför Rafsanjanis“. RÚV. Sótt 11. janúar 2024.
Fyrirrennari: Ali Khamenei |
|
Eftirmaður: Mohammad Khatami |