Ambrogio Spinola
Ambrogio Spinola, 1. markgreifi af Balbesas (um 1569 – 25. september 1630) var herforingi frá Genúa sem barðist í her Spánar í Áttatíu ára stríðinu í Niðurlöndum. Fjölskylda hans varð undir í baráttu um völd í Genúa við Doria-ættina. Genúa var þá í reynd undir vernd Spánar. Árið 1602 gerðu hann og yngri bróðir hans, Federico Spinola, samning við Spánarkonung um að koma upp flota og her til að berjast fyrir konung á Flandri. Hluta flotans, undir stjórn Federicos, var sökkt af enskum og hollenskum skipum og Federico féll í orrustunni um Sluis árið 1603. Ambrogio hélt með málaliðaher sinn landleiðina og tókst að leggja rústir Ostend undir sig eftir 3ja ára umsátur. Eftir þetta hertók Spinola fjölda borga í Niðurlöndum og hlaut fyrir það ýmsar vegtyllur en sóaði um leið öllum auði fjölskyldunnar í stríðsreksturinn. Þegar Þrjátíu ára stríðið hófst hélt hann í herför um Pfalz. Hápunktur ferils hans var hernám Breda 1624.