Annie Besant

Annie Besant

Annie Besant (1. október 184720. september 1933) var breskur sósíalisti, guðspekingur, baráttumaður fyrir kvenfrelsi, rithöfundur og fyrirlesari.

Hún skrifaði bækur og var forseti alþjóðlega guðspekifélagsins Theosophical Society Adyar.

Árið 1877 var Besant og vinur hennar Charles Bradlaugh lögsótt en þau höfðu þá gefið út bók um takmörkun barneigna eftir Charles Knowlton. Dómsmálið og umtal kringum það gerði þau fræg og var Bradlaugh kosinn á þing árið 1880. Annie tók virkan þátt í verkalýðsbaráttu svo sem Bloody Sunday árið 1887 og verkfalli eldspýtnastúlkna árið 1888. Annie var ræðumaður fyrir bæði Fabian félagið og marxíska jafnaðarmenn.

Besant var frímúrari í frímúrarareglu þar sem bæði voru konur og karlar og stofnaði margar frímúraradeildir í ríkjum innan Breska Heimsveldisins.[1]

Árið 1890 kynntist Besant Helenu Blavatsky og gekk í guðspekifélag sem Helena stýrði og helgaði sig eftir það andlegum málum. Hún varð forseti og talsmaður samtakanna og þekktur fyrirlesari. Hún flutti til Indlands 1893 á vegum samtakanna og vann þar að því að koma upp skólum og stofnunum. Hún tók virkan þátt í indverskum stjórnmálum og studdi heimastjórn þar. Hún var kjörin forseti indverska Þjóðarráðsflokksins árið 1917.

Árið 1909, skömmu eftir að Besant tók við forsetaembættinu í Guðspekifélaginnu, "uppgötvaði" hún hinn fjórtán ára suður-indverska dreng Jiddu Krishnamurti (1895–1986) og lýsti því að hann væri „hátt þroskaður“ og væntanlegur "Mannkynsfræðari".[2] „Uppgötvunin“ og markmið hennar fengu víðtæka umfjöllun og vöktu athygli um allan heim, aðallega meðal guðspekisinna.[3] Það byrjaði einnig margra ára umrót og stuðlaði seinna að klofningi í Guðspekifélaginu.

Tuttugu árum eftir „uppgötvun“ hans, árið 1929, afneitaði Krishnamurti hlutverki sínu sem Mannkynsfræðari og yfirgaf að lokum Guðspekifélagið og guðspekikenninguna í heild. [4]

Fjölskylda Besant tilheyrði miðstétt og var af írskum uppruna. Faðir hennar dó þegar hún var fimm ára. Móðir hennar rak heimavist fyrir drengi við Harrow skólann og gat ekki séð um Besant . Besant var send í fóstur til vinkonu móður sinnar Ellen Marryat. Árið 1867 giftist hún prestinum Frank Besant. Þau eignuðust tvö börn. Þau skildu árið 1873.

Tengt efni

Tenglar

  1. Martinson, Jane (2013). ”The freemasons who allow women to join”. The Guardian.
  2. Lutyens, Mary (1975). Krishnamurti: The Years of Awakening. New York: Farrar Straus and Giroux. bls. 20–21. ISBN 0-374-18222-1.
  3. Þórbergur Þórðarson (1987). Bréf til Láru. Mál og menning. bls. 270.
  4. Lutyens, Mary (2017). The Life and Death of Krishnamurti. Bramdean: Krishnamurti Foundation Trust. bls. 81. ISBN 0-900506-22-9.