Barkabólga

Barkabólga eða krúpp er algengur sjúkdómur sem hrjáir aðallega börn á aldrinum eins til sex ára. Hæst er nýgengið á öðru aldursári en þá fá um 5% barna barkabólgu. Sjúkdómurinn lýsir sér með hæsi, geltandi hósta og háværri innöndun sem kemur oftast skyndilega og í tengslum við veirusýkingu í efri öndunarvegum. Sjúkdómurinn er venjulega mildur og gengur nær alltaf yfir á þremur til sjö dögum. Einkennin skýra ef til vill alþjóðlega nafngift sjúkdómsins en orðið krúpp er dregið af engilsaxneska orðinu „kropan“ sem er vafalaust skylt íslenska orðinu „hrópa“.

Barkabólga er nánast alltaf orsökuð af veirum en bakteríur geta þó einstaka sinnum valdið svæsnum sýkingum á þessu svæði, þá vanalega í kjölfar veirusýkinga. Sú veira sem langoftast, eða í um 70% tilfella, veldur barkabólgu er parainflúensur af gerð 1, 2 og 3. Aðrar veirur eru inflúensur A og B veirur, adenoveirur, RS veira (respiratory syncytical virus), metapneumóvírus og mislingar. Áður var talið að herpes simplex veira ylli ekki barkabólgu hjá hraustum börnum en í nýlegum heimildum er lýst örfáum tilfellum af langvarandi barkabólgu vegna herpes simplex veiru.