Bereníke 4.

Bereníke 4. Epifaneia (gríska: Βερενίκη; 77 f.Kr. – 55 f.Kr.) var drottning Egyptalands á tímum Ptólemajaríkisins. Hún var dóttir Ptólemajosar 12. og Kleópötru 5. og systir hinnar frægu Kleópötru 7., Arsinóe 4., Ptólemajosar 13. og Ptólemajosar 14. Þegar systir hennar flúði, ásamt föður þeirra, til Rómar gerðist hún ríkjandi drottning Egyptalands ásamt Kleópötru 6. Trýfaínu sem sumir telja vera systur hennar, en aðrir þá sömu og Kleópötru 5. Eftir lát Kleópötru Trýfaínu 57 f.Kr. gerðist Bereníke einráð.

Þar sem konur máttu ekki ríkja einar yfir Egyptalandi þurfti hún að taka sér eiginmann. Þegar hún gerði það ekki sjálfviljug neyddu ræðismenn hennar hana til að giftast Selevkosi 7. sem var útlægur konungur Sýrlands. Skömmu síðar lét hún kyrkja hann þar sem hún var ósátt við mannasiði hans. Hún giftist síðar gríska aðalsmanninum Arkelási en hann ríkti ekki með henni.

Árið 55 f.Kr. skipaði Pompeius herforingja sínum í Sýrlandi, Aulusi Gabiniusi, að koma Ptólemajosi 12. aftur til valda gegn 10.000 talenta greiðslu. Gabinius gerði það og Bereníke var hálshöggvin ásamt stuðningsmönnum sínum.