Borgarastyrjöldin í Kambódíu

Bandarískir skriðdrekar í kambódískum bæ 1970.

Borgarastyrjöldin í Kambódíu var borgarastyrjöld í Kambódíu þar sem áttust við Rauðu kmerarnir (Kommúnistaflokkur Kampútseu) studdir af Norður-Víetnam og Víet Kong, og stjórnarher Kambódíu studdur af Suður-Víetnam og Bandaríkjunum. Styrjöldin hófst með aðgerðum Rauðu kmeranna 17. janúar 1968.

Norodom Sihanouk konungur hafði áður skorið á stjórnmálatengsl við Bandaríkin 1965 og heimilað Alþýðulýðveldinu Kína að nota landið fyrir hergagnaflutninga til Norður-Víetnam. Samskiptin við Kína versnuðu hratt þegar Víet Kong-liðar tóku að nota landið fyrir herflutninga. Sihanouk snerist þá hugur og tók aftur upp samband við Bandaríkin. Hann heimilaði Bandaríkjaher að gera loftárásir á stór svæði í norðurhluta Kambódíu.

Mótmæli gegn Víet Kong urðu til þess að Sihanouk var steypt af stóli 1970 og Lon Nol tók við völdum með herforingjastjórn. Bandaríkin studdu þessa stjórn með umfangsmiklum sprengjuárásum sem bitnuðu bæði á Rauðu kmerunum og almennum borgurum og með efnahagsaðstoð. Eftir fimm ára harða bardaga tókst Rauðu kmerunum að leggja höfuðborgina Phnom Penh undir sig. Lon Nol sagði af sér 1. apríl 1975 og Bandaríkjamenn hörfuðu með lið sitt frá landinu 12. apríl. Þann 17. var gefin út skipun um vopnahlé. Um leið hófst þjóðarmorðið í Kambódíu með fjöldaaftökum á pólitískum andstæðingum Rauðu kmeranna og fjöldamorðum á almennum borgurum.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.