Clarence Thomas
Clarence Thomas | |
---|---|
Dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna | |
Núverandi | |
Tók við embætti 23. október 1991 | |
Skipaður af | George H. W. Bush |
Forveri | Thurgood Marshall |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 23. júní 1948 Pin Point, Georgía, Bandaríkjunum |
Þjóðerni | Bandarískur |
Maki | Kathy Ambush (g. 1971; frásk. 1984) Virginia Lamp (g. 1987) |
Börn | 1 |
Háskóli | College of the Holy Cross Yale-háskóli |
Clarence Thomas (23. júní 1948) er dómari við hæstarétt Bandaríkjanna. Hann var tilnefndur í stöðuna af George H. W. Bush árið 1991 og tók hann við sæti Thurgood Marshall. Thomas er annar svarti Bandaríkjamaðurinn til þess að gegna stöðu dómara við hæstarétt og er sá núverandi dómara sem setið hefur lengst í embætti. Thomas er talinn með íhaldssamri dómurum við réttinn, og aðhyllist bókstafstúlkun á stjórnarskrá Bandaríkjanna (e. textualism).
Fjölskylda og ferill
Thomas ólst upp við fátækt í Georgíufylki, en báðir foreldrar hans voru afkomendur svartra þræla. Fjölskyldan talaði Gullah, kreólamállýsku sem töluð er af afkomendum afrískra þræla í Georgíu og Suður Karólínu. Thomas var fyrstur úr fjölskyldunni til að brjótast til mennta. Fjölskyldan var rómversk-kaþólsk og Thomas sótti um skeið nám í prestaskóla en sagði skilið við guðfræði eftir morðið á Martin Luther King Jr. 1968 og skráði sig í College of the Holy Cross þaðan sem hann útskrifaðist með BA gráðu í enskum bókmenntum árið 1971. Hann nam síðan lögfræði við Yale-háskóla þaðan sem hann útskrifaðist með doktorsgráðu árið 1974.
Thomas er tvígiftur. Árið 1981 giftist hann Kathy Grace Ambush og átti með henni eitt barn, Jamal Adeen. Þau skildu árið 1984. Árið 1987 giftist hann Virginia Lamp, sem starfaði fyrir Dick Armey, þingmann Repúblíkanaflokksins. Virginia "Ginny" Thomas hefur verið virk í baráttu fyrir íhaldssömum samfélagsgildum og hægrisinnuðum stefnumálum. Hún var meðal annars virk í Teboðshreyfingunni, róttækri grasrótarhreyfingu á hægrivæng bandarískra stjórnmála á fyrsta kjörtímabili Barack Obama.
Árið 1981 gekk Thomas til liðs við ríkisstjórn Ronald Reagan sem skipaði hann yfirmann Equal Employment Opportunity Commission (EEOC) sem hefur meðal annars eftirlit með framfylgd laga um borgaraleg réttindi (1964 Civil Rights Act), þar á meðal bann við mismunun á grundvelli kynþáttar og kyns. Thomas gegndi embættinu frá 1982 til 1990.
Í október 1989 var Thomas skipaður dómari við Alríkisáfrýjanrdómstól District of Columbia af George H.W. Bush. Thomas tók við sæti Robert Bork sem hafði þá verið tilnefndur sem dómari við hæstarétt.
Skipun í hæstarétt
Eftir að Thurgood Marshall, sem var fyrsti svarti maðurinn til að gegna embætti hæstaréttardómara, settist í helgan stein skipaði George H.W. Bush Thomas sem eftirmann hans. Skipan Thomas vakti miklar deilur þar sem hann var bæði gagnrýndur fyrir íhaldssamar skoðanir og skort á hæfni. Þá komu fram ásakanir um kynferðislega áreitni. Anita Hill, sem starfaði sem undirmaður Thomas meðan hann var yfirmaður EEOC, sakaði hann um kynferðislega áreitni og óeðlilega hegðun og orðfæri í návist kvenna, þar á meðal umræður um efni klámmynda þar sem konum var nauðgað.[1] Öldungadeildin neitaði að kalla vitni sem voru tilbúin til að staðfesta frásögn Hill og samþykkti skipun Thomas með 52 atkvæðum gegn 48.
Sem hæstaréttardómari hefur Thomas getið sér orð fyrir íhaldssemi. Thomas hefur talað gegn því að svörtum sé veitt sérstök hjálp frá ríkinu þar sem hann telur það veikja stöðu svartra í staðinn fyrir að bæta hana og hefur hann verið gagnrýndur og honum verið hrósað vegna þessarar afstöðu sinnar.[2] Þessa afstöðu sína ver hann með því að útskýra hvernig hann túlkar fjórtándu viðauka stjórnarskrárinnar, sem segir að ekki sé heimilt að dæma eftir kynþætti hvort manneskju séu veitt sérstök réttindi eins og ríkishjálp.
Árið 2015 studdi Thomas ekki þá ákvörðun meirihluta hæstaréttar að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra. Rökfærsla hans gegn þessum réttindum var að ekki er hægt að finna fullgild rök til þess að styðja þessa ákvörðun hæstaréttar og er því engin góð ástæða fyrir þessari lögleiðingu.[3] Þegar kemur að afstöðu Thomas að lögleiðingu fóstureyðinga fylgir hann stefnu sinni að fylgja stjórnarskránni. Hann telur þá að ekki sé nein gild rökfærsla fyrir því að, Roe v Wade málið sem var fordæmisgefandi mál til lögleiðingar fóstureyðinga, styðjist við texta stjórnarskrárinnar.[4]
Tilvísanir
- ↑ „Anita Hill testifies at Clarence Thomas confirmation hearings“. Washington Week (enska). 7. apríl 2016. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. desember 2020. Sótt 4. janúar 2021.
- ↑ O’Donnell, Michael (5. ágúst 2019). „Deconstructing Clarence Thomas“. The Atlantic (bandarísk enska). Sótt 3. desember 2020.
- ↑ Liptak, Adam (5. október 2020). „Justices Thomas and Alito Question Same-Sex Marriage Precedent“. The New York Times (bandarísk enska). ISSN 0362-4331. Sótt 3. desember 2020.
- ↑ CNN, Jamie Ehrlich. „Justice Clarence Thomas says Roe decision doesn't have 'shred' of constitutional support“. CNN. Sótt 3. desember 2020.