Coventry City

Coventry City Football Club
Fullt nafn Coventry City Football Club
Gælunafn/nöfn Himinblámar, e. The Sky Blues
Stofnað 13. ágúst 1883
Leikvöllur Coventry Building Society Arena
Stærð 32.609
Stjórnarformaður Fáni Englands Doug King
Knattspyrnustjóri Fáni Englands Frank Lampard
Deild Enska meistaradeildin
2023/2024 9. sæti
Heimabúningur
Útibúningur

Coventry City er enskt knattspyrnufélag sem spilar í ensku meistaradeildinni. Liðið er frá samnefndri borg, Coventry í Vestur-Miðhéruðum Englands, og var stofnað árið 1883 undir nafninu Singers FC. Heimavöllur þess frá 1899-2005 var Highfield Road, en í dag spilar liðið heimaleiki sína á Coventry Building Society Arena. Félagið átti sæti í efstu deild frá 1967 til 2001 og var eitt af stofnfélögum ensku úrvalsdeildarinnar árið 1992. Stærsti titill í sögu félagsins var þegar það vann bikarkeppnina árið 1987.

Meðal þekktra leikmanna sem spilað hafa með félaginu eru markahrókarnir Dion Dublin, Robbie Keane og Viktor Gyökeres.

Saga

Upphafsárin (1883 - 1919)

Singers FC var stofnað 13. ágúst 1883 af starfsmönnum Singer reiðhjólaverksmiðjunnar í Coventry og George Singer, eigandi verksmiðjunnar, var kjörinn fyrsti formaður félagsins sama ár. Fyrstu fjögur árin spilaði félagið leiki sína á Dowells Field vellinum í Stoke hverfinu í Coventry. Árið 1887 flutti Singers FC á leikvöllinn Stoke Road sem var með frumstæðum áhorfendastúkum sem gerði félaginu kleift að rukka örlítinn aðgangseyri að leikjum.

Singers FC var gert að atvinnumannafélagi árið 1892. Á þessum tíma keppti liðið í héraðsdeild Birmingham og nágrennis, þar sem það atti að mestu kappi við varalið stærri liða í Miðlöndunum, en eining voru spilaðir leikir við önnur misöflug verksmiðjulið.

Árið 1898 var nafni félagsins breytt í Coventry City. Ári síðar var hafist handa við að byggja leikvanginn Highfield Road, rétt norðan við Stoke Road sem hvarf undir nýtt íbúðahverfi. Bygging nýja vallarins leiddi félagið hins vegar út í fjárhagsvanda sem leiddi til þess að árangurinn innan vallar var ekki merkilegur næstu ár. Um og upp úr aldamótum fóru leikmenn félagsins í tíð verkföll þar sem launagreiðslur bárust seint eða alls ekki.

Coventry tók þátt í héraðsdeildum næstu árin. Árið 1908 kom fjárhagsleg innspýting frá kaupsýslu- og stjórnarmanninum David Cooke liðinu í toppbaráttu í Suðurdeild og sama ár komst liðið alla leið í átta liða úrslit bikarkeppninnar. Árið 1914 féll liðið hins vegar niður í 2. deild héraðsdeildarinnar og lenti í kjölfarið aftur í miklum fjárhagsvandræðum. Fyrrnefndur David Cooke tók sig hins vegar til árið 1917, greiddi upp allar skuldir félagsins og bjargaði því frá gjaldþroti.

Brokkótt gengi í deildarkeppni (1919 - 1945)

Tímabilið 1919-20 fékk félagið þátttökurétt í deildarkeppninni og hóf leik í annarri deild (e. Second division). Metnaðurinn var mikill, fjárfest var í mörgum leikmönnum og Highfield Road stækkaður þannig að hann rúmaði 40.000 áhorfendur.

Þrátt fyrir metnaðinn var árangurinn lélegur. Fyrsta tímabilið hélt félagið naumlega sæti sínu með því að sigra Bury 2-1 í lokaumferðinni. Nokkrum árum síðar kom í ljós að félögin höfðu samið um úrslitin fyrirfram og þurfti Coventry í kjölfarið að greiða háa sekt. Næstu ár var liðið stöðugt í fallbaráttu og vorið 1925 féll það í 3. deild (fyrst í norðurhluta, en það spilaði að mestu í suður-riðli deildarinnar næstu ár). Þar var gengið áfram slakt næstu ár og félagið daðraði stöðugt við að missa sæti sitt í deildarkeppninni.

Klúbburinn datt hins vegar í lukkupottinn árið 1931 þegar 33 ára atvinnumaður í krikket, Harry Storer, var ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra. Undir hans stjórn spilaði liðið glimrandi sóknarbolta - á þremur af næstu fimm leiktíðum skoraði liðið meira en 100 mörk. Helsti markaskorarinn á þessum tíma var Clarrie Bourton sem skoraði m.a. 50 mörk leiktíðina 1931-32 sem er enn met í sögu félagsins. Þrátt fyrir gott gengi vann félagið sér þó ekki sæti í 2. deild fyrr en vorið 1935 þegar þeir urðu meistarar í 3. deild suður. Strákarnir hans Storer gerðu áfram góða hluti í næstefstu deild og félagið endaði ofarlega næstu þrjú ár, allt þar til seinni heimsstyrjöldin skall á árið 1939. Deildarkeppnin í Englandi fór ekki af stað aftur fyrr en haustið 1946.

Niður á botninn (1946 - 1958)

Eftir stríð tóku erfiðleikar aftur að banka á dyrnar. Storer tók við stjórnartaumum hjá Birmingham City árið 1946. Dick Bayliss sem tók við af honum kom liðinu í 8. sæti en lést svo ári síðar eftir að hafa lent í hrakningum í snjóbyl á ferðalagi um Jórvíkurskíri. Arftaki hans, Billy Frith, náði ekki að snúa genginu við og Harry Storer sneri aftur árið 1948. Undir hans stjórn gekk liðinu oft vel á fyrri hluta tímabils en verr þegar leið á, enda var meðalaldur leikmanna liðsins orðin 31 ár þegar það féll aftur í suðurhluta 3. deildar vorið 1952. Áhorfendatölur hrundu úr 22.000 í 13.000 að meðaltali, sem leiddi enn og aftur til fjárhagsörðugleika og sölu á bestu leikmönnum liðsins.

Sjö knattspyrnustjórar stýrðu félaginu næstu sex tímabil og liðið var aldrei nálægt því að komast upp um deild. Þeirra á meðal var Jesse Carver sem hafði áður stjórnað stórliðum á borð við Lazio, Juventus og Roma á Ítalíu. Koma hans vakti mikla athygli á landsvísu og ekki minnkaði áhuginn þegar hann fékk til liðs við sig sem aðstoðarþjálfara George Raynor sem hafði komið Svíþjóð í úrslitaleik HM árið 1954. Þetta tvíeyki flutti inn frá meginlandinu ýmsa nýlundu; allt frá sérsniðnum takkaskóm  fyrir hvern leikmann yfir í tréklossa og sloppa sem leikmenn áttu að fara í eftir sturtu til að koma í veg fyrir kvef. Þeir náðu þó engum sérstökum árangri, ekki síst þar sem liðinu var nánast fyrirmunað að ná í úrslit á útivelli.

Árið 1958 var hætt að svæðisskipta þriðju deild í norður og suður og deildunum tveimur var þess í stað skipt upp í 3. og 4. deild. Coventry, sem hafði raunar fyrst félaga lagt fram tillögu um stofnun 4. deildar til enska knattspyrnusambandsins, endaði í neðri hluta 3. deildar suður tímabilið áður og hóf því leik í 4. deild haustið 1958.