Elinóra af Kastilíu
Elinóra af Kastilíu (1241 – 28. nóvember 1290) var drottning Englands frá 1272 til dauðadags, fyrri kona Játvarðar 1. Englandskonungs.
Elinóra var dóttir Ferdínands helga, konungs Kastilíu og León og seinni konu hans, Jóhönnu greifynju af Ponthieu. Alfons 10. Kastilíukonungur var hálfbróðir hennar, tuttugu árum eldri. Faðir Elinóru og bróðir höfðu upphaflega í hyggju að gifta hana Teóbald 2., hinum unga konungi Navarra, til að reyna að tryggja sér yfirráð yfir landinu en Margrét af Bourbon, móðir Teóbalds, gerði þess í stað bandalag við Jakob 1. Aragóníukonung og gaf honum hátíðlegt loforð um að aldrei yrði af hjónabandi Teóbalds og Elinóru.
Eiginkona krónprinsins
Árið 1252 reyndi Alfons 10. svo að gera tilkall til hertogadæmisins Gaskóníu, sem þá var eitt eftir af lendum Englandskonunga í Frakklandi. Hinrik 3. Englandskonungur brást við með því að semja við Alfons um að Elinóra systir hans og Játvarður sonur Hinriks skyldu ganga í hjónaband og Alfons afsalaði um leið til Eðvarðs því erfðatilkalli sem hann kynni að eiga til Gaskóníu. Þau Játvarður og Elinóra giftust í Burgos í Kastilíu 1. nóvember 1254.
Ráðahagurinn var ekki vinsæll í Englandi því að landsmenn óttuðust að margir ættingjar brúðarinnar eltu hana til Englands og kæmust til metorða þar eins og ættmenn tengdamóður hennar, Elinóru af Provence, höfðu gert. Sú varð líka raunin, þó ekki í sama mæli. Í borgarastyrjöldinni á árunum 1264-1267 studdi Elinóra eiginmann sinn og tengdaföður og lét meðal annars flytja bogaskyttur frá greifadæmi móður sinnar, Ponthieu, til Englands. Þegar Hinrik og Játvarði var varpað í fangelsi eftir orrustuna við Lewes var Elinóra sett í stofufangelsi í Westminsterhöll vegna orðróms um að hún væri að senda eftir herliði til Kastilíu. Játvarður slapp svo úr haldi og vann sigur á uppreisnarmönnum.
Krossferðin
Þegar þar var komið sögu hafði Elinóra alið þrjár dætur sem allar dóu í vöggu en árið 1266 eignaðist hún son, 1268 annan og árið 1269 dóttur, svo að ríkiserfðirnar virtust tryggðar. Árið 1270 hélt Játvarður af stað í krossferð og Elinóra fór með, enda fylgdi hún manni sínum jafnan hvert sem hann fór, en börnin voru skilin eftir. Þau dvöldu um veturinn á Sikiley en fóru síðan til Akkó í Landinu helga. Krossferðin var misheppnuð og þau héldu áleiðis heim haustið 1272.
Þau komu til Sikileyjar í desember og þangað bárust þeim þær fregnir að Hinrik 3. væri látinn og Játvarður orðinn konungur. Þau héldu heim eftir ýmsum krókaleiðum, komu til Englands sumarið 1274 og voru krýnd 19. ágúst. Annar sonurinn sem þau skildu eftir hafði dáið á meðan þau voru í krossferðinni, hinn dó nokkrum mánuðum eftir heimkomuna. Á ferðalaginu höfðu þau raunar eignast soninn Alfons, sem varð þá ríkisarfi.
Drottning Englands
Játvarður og Elinóra virðast hafa verið hamingjusamlega gift. Hún var vel gefin og menntuð en tók engan þátt í stjórn ríkisins. Hún var hins vegar mjög bókhneigð og lét rita fyrir sig bækur af ýmsu tagi. Játvarður var henni trúr, sem var óvenjulegt hjá evrópskum þjóðhöfðingjum þessara tíma, og þau voru alltaf saman, hún fylgdi honum jafnvel í herferðir.
Vorið 1284 var Játvarður í leiðangri í Wales, sem hann hafði lagt undir sig skömmu áður; Elinóra var með honum og var þunguð, að öllum líkindum í sextánda sinn. Þá var Játvarður að láta reisa Caernarfon-kastala. Elinóra lagðist á sæng í bráðabirgðarskýli og ól þar soninn Játvarð. Alfons sonur hennar dó um sumarið og varð Játvarður þá ríkisarfi. Af öllum börnum Elinóru var hann eini sonurinn sem komst upp en einnig náðu fimm dætur fullorðinsaldri.
Elinóra dó í þorpinu Harby í Nottinghamskíri 28. nóvember 1290 en þar höfðu þau Játvarður verið á ferðalagi. Hann flutti lík hennar til greftrunar í Westminster Abbey og lét reisa voldugan róðukross á hverjum og einum af tólf áningarstöðum á leiðinni, frá Lincoln í Nottinghamskíri til Charing við London. Af krossinum í Charing dregur Charing Cross nafn.
Heimildir
- Fyrirmynd greinarinnar var „Eleanor of Castile“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 21. ágúst 2010.