Erlangen
Erlangen | |
---|---|
Sambandsland | Bæjaraland |
Flatarmál | |
• Samtals | 76,9 km2 |
Hæð yfir sjávarmáli | 280 m |
Mannfjöldi (2019) | |
• Samtals | 115.000 |
• Þéttleiki | 1.373/km2 |
Vefsíða | www.erlangen.de |
Erlangen er borg í Bæjaralandi í suðurhluta Þýskalands og er með 115 þúsund íbúa (2019). Hún er hluti af stórborgarsvæði Nürnberg og liggur rétt norðan við Nürnberg og Fürth. Erlangen er helst þekkt sem húgenottaborgin í Bæjaralandi.
Skjaldarmerki
Skjaldarmerki Erlangen er þrískipt. Rauður örn með svarthvítan skjöld og snýr til hægri. Svartur örn með bókstafina ES og snýr til vinstri. Loks gullið ljón með tvær rófur. Öll dýrin eru með kórónu á höfði. Ljónið merkir miðborgina í Erlangen. Um er að ræða lúxemborgíska ljónið sem verið hefur í skjaldarmerkinu síðan 1397. Ernirnir eru ernir Brandenborgar og Prússlands, en bæði löndin hafa ráðið Erlangen í styttri tíma. Bókstafirnir ES standa fyrir Elisabeth Sophie, eiginkonu markgreifans Christian Ernst frá Bayreuth, en hann byggði nýjan borgarhluta fyrir innflutta húgenotta.
Orðsifjar
Borgin hét áður Erlangon, sem er dregið af Erl og Wangen. Erl merkir trjátegundina elri. Wangen er vangur, sléttlendi (sbr. víðavangur). [1]
Söguágrip
Bærinn hefur sennilega myndast á 10. öld og kemur fyrst við skjöl 1002 sem Villa Erlangon. Erlangen fékk þó ekki borgarréttindi fyrr en 1398. Á árunum 1402 til 1806 átti Hohenzollern-ættin borgina. Borgin var gjöreyðilögð í 30 ára stríðinu. Eyðileggingin var þvílík að bæði borgin og nærsveitir voru mannlausar í 20 ár á eftir. Þegar Loðvík XIV í Frakklandi afturkallaði Nantes-tilskipunina 1685 um trúfrelsi húgenotta, streymdu þúsundir þeirra í þýska ríkið. Margreifinn Christian Ernst sá sinn hag í því að bjóða húgenottum að setjast að hinni eyðilögðu borg. Fjöldi þeirra var hins vegar þvílíkur, að Christian Ernst ákvað að reisa nýja borg handa þeim við hliðina á Erlangen (Neustadt). Um 7500 fjölskyldur fengu þar nýtt heimili. Einnig var reist verksmiðja og kirkja (La Temple). Árið 1706 brann gamla borgin nær til kaldra kola í eldsvoða. Árið 1792 varð Erlangen prússnesk, 1806 frönsk og 1810 bærísk. Árið 1812 var Erlangen og Neustadt sameinuð í eina borg. 1945 hertók bandarískur her borgina bardagalaust, sem slapp að öllu leyti við loftárásir. En Bandaríkjamenn eyðilögðu þó síðasta forna borgarhliðið, þar sem það var í vegi fyrir þá.
Frægustu börn borgarinnar
- (1789) Georg Ohm eðlisfræðingur
- (1961) Lothar Matthäus knattspyrnumaður
Byggingar og kennileiti
- Húgenottakirkjan var fyrsta kirkjan sem húgenottar utan Frakklands reistu. Þeir fengu að flytjast til Erlangen 1686 og byrjuðu að byggja kirkjuna aðeins tveimur mánuðum seinna. 1693 var hún tilbúin og kölluð “le Temple” af húgenottum (musterið). Kirkjan var turnlaus þá, turninum var ekki bætt við fyrr en 1732-36.
- Kastalinn í Erlangen var reistur 1700-1704 af ítalska byggingameistaranum Antonio della Porta. 1703 keypti markgreifinn Christian Ernst slotið til að gefa það þriðju eiginkonu sinni, Elisabeth Sophie. Kastalanum tilheyrir mikill garður ásamt Húgenottabrunninum, garðhýsi (Orangerie) og Konkordien-kirkjunni. 1814 brann kastalinn til kaldra kola, aðeins múrverkið stóð uppi. 1821-25 var hann endurbyggður og bætt við hann til afnota fyrir háskólann. Í dag er kastalinn eingöngu notaður af háskólanum.
Tilvísanir
- ↑ Geographische Namen in Deutschland, Duden, 1993, bls. 93.