Fornlífsöld

Trílóbítar frá fornlífsöld.

Fornlífsöld er fyrsta og lengsta öldin á aldabilinu tímabil sýnilegs lífs sem í jarðsögunni tekur við af frumlífsöld. Fornlífsöld hófst fyrir um 542 milljón árum og lauk fyrir 252,2 milljón árum síðan (ICS, 2004). Hún skiptist í sex tímabil: kambríumtímabilið, ordóvisíumtímabilið, sílúrtímabilið, devontímabilið, kolatímabilið og permtímabilið. Miðlífsöld tók síðan við af fornlífsöld.

Á þessum tíma urðu gríðarlegar breytingar á jarðfræði, loftslagi og lífríki jarðar. Á kambríumtímabilinu átti kambríumsprengingin sér stað þar sem flestar núverandi fylkingar dýra komu fram. Fiskar, liðdýr, froskdýr og skriðdýr komu öll fyrst fram á fornlífsöld. Þróunin hófst í hafinu en barst síðan upp á land. Stórir skógar þöktu löndin og urðu síðar að kolalögum í Evrópu og austurhluta Norður-Ameríku. Undir lok tímabilsins voru skriðdýr ráðandi dýrategund og fyrstu nútímajurtirnar (barrtré) komu fram á sjónarsviðið.

Lok fornlífsaldar miðast við stærsta fjöldaútdauða sögunnar, aldauðann í lok perm. Þær náttúruhamfarir höfðu svo mikil áhrif á lífríkið að það var 30 milljón ár að ná aftur fyrri styrk.