Garður (bær)
Garður (áður Gerðahreppur) er bær á nyrsta odda Reykjanesskagans, á innanverðu Miðnesi. Íbúar voru tæplega 1900 talsins árið 2023, en voru um 1200 árið 2001. Bærinn skiptist í tvö hverfi: Útskálahverfi eða Útgarð, og Gerðar eða Inngarð. Á milli þeirra er Garðshöfn (áður Gerðahöfn eða Gerðabryggja) í Gerðavör, þar sem er steyptur bryggjukantur. Í Garðsjó norðaustan við Garð eru gjöful fiskimið. Milli Útgarðs og Inngarðs eru líka Sundlaugin í Garði og íþróttamiðstöð. Bærinn dregur nafn sitt af Skagagarði, miklu mannvirki sem var reist á utanverðum Garðskaga á miðöldum. Garður var áður sérstakt sveitarfélag en sameinaðist Sandgerði þann 10. júní 2018.[1] Sameinaða sveitarfélagið heitir Suðurnesjabær.
Gerðahreppur var stofnaður 15. júní 1908 við seinni uppskiptingu Rosmhvalaneshrepps. Hinn hlutinn, sem tilheyrði Keflavíkurkauptúni, sameinaðist Njarðvíkurhreppi og varð að Keflavíkurhreppi.
Garðskagaviti er eitt helsta kennileiti bæjarins. Á Garðskaga var reist fyrsta leiðarmerki fyrir sæfarendur á Íslandi og var það hlaðin grjótvarða á ströndinni. Síðar var sett á hana ljósmerki. Fyrsti eiginlegi vitinn var hins vegar reistur á Reykjanesi. Eldri Garðaskagavitinn var reistur 1897, og sá yngri 1944. Á Garðskaga var fyrsti flugvöllurinn á Reykjanesskaga, Skagavöllur, gerður af breska hernámsliðinu 1941. Utan við Garðskaga er Garðskagaflös þar sem mörg skip hafa farist.
Gerðaskóli er einn elsti starfandi barnaskóli á landinu, stofnaður 1872 af séra Sigurði B. Sívertsen, sem var prestur á Útskálum í rúmlega hálfa öld. Hann átti einnig frumkvæði að byggingu núverandi Útskálakirkju árið 1861 og tók saman Suðurnesjaannál.
Björgunarsveitin Ægir var stofnuð 1935 og Knattspyrnufélagið Víðir í Garði var stofnað 1936.
Tilvísanir
- ↑ „Sandgerði og Garður sameinast“. Mbl.is. Sótt 17. nóv, 2017.