Ingibjörg af Danmörku, Frakklandsdrottning
Ingibjörg af Danmörku (1175 – 29. júlí 1236) var dönsk konungsdóttir og drottning Frakklands, þar sem hún var kölluð Isambour. Hún var drottning frá 1193 til 1223 en þó ekki viðurkennd sem slík af eiginmanni sínum, konunginum, nema einn dag við upphaf hjónabandsins og svo síðustu tíu árin. Hluta af tímanum var hann giftur annarri konu og taldist hún einnig drottning.
Uppruni
Ingibjörg var dóttir Valdimars mikla Knútssonar Danakonungs og Soffíu af Minsk og systir Danakonunganna Knúts 6. og Valdimars sigursæla og Ríkissu Svíadrottningar. Hún giftist Filippusi 2. Ágústusi Frakkakonungi 15. ágúst 1193 en hann hafði misst fyrstu konu sína, Ísabellu af Hainaut, árið 1190. Stefán biskup af Tournai lýsti henni svo við það tækifæri að hún væri „mjög ljúf, ung að árum en gömul að visku“.
Ógildingartilraunir Filippusar
Daginn eftir brúðkaupið virtist Filippus konungur hafa fengið skyndilega óbeit á brúði sinni og er ekki ljóst hver ástæðan var. Hann vildi ekkert með drottninguna hafa og þremur mánuðum eftir brúðkaupið lét Filippus kalla saman prestastefnu og lagði þar fram falsað ættartré sem sýndi að Ingibjörg hefði verið of skyld fyrri konu hans til að þau mættu eigast. Var því hjónaband þeirra dæmt ógilt.
Ingibjörg skildi varla orð í frönsku og gerði sér ekki strax grein fyrir hvað var að gerast en þegar það rann upp fyrir henni fann hún sér athvarf í klaustri og leitaði síðan liðsinnis hjá Selestínusi III páfa og Knúti bróður sínum. Sendinefnd sem fór frá Danmörku til Rómar tókst að sannfæra páfa um að ættartréð væri falskt og páfinn lýsti ógildingu hjónabandsins ógilda og bannaði Filippusi að ganga í hjónaband að nýju.
Tvíkvæni konungs
Ingibjörg eyddi næstu tuttugu árum í stofufangelsi eða varðhaldi víða um Frakkland. Knútur konungur bróðir hennar hélt áfram að berjast gegn ógildingunni og sama gerði Valdimar sigursæli þegar hann tók við ríkjum. Heimildir benda til þess að margir franskir ráðamenn hafi einnig stutt Ingibjörgu. Páfinn stóð með henni en gat þó lítið gert. Filippus reyndi að fá hann til að fallast á ógildingu á þeirri forsendu að hjónabandið hefði ekki verið fullkomnað, það er að segja að þau hefðu ekki haft samfarir. En Ingibjörg mótmælti og sagði að það hefði víst verið fullkomnað og hún væri þar með lögleg eiginkona hans og drottning Frakklands.
Filippus lét sér ekki segjast og gekk að eiga Agnesi af Meraníu í júní 1196. Hann lét loka Ingibjörgu inn í Étampes-höll, þar sem hún var fangi í turnherbergi, mátti ekki fá heimsóknir og fékk ekki alltaf nóg að borða.
Galdraáburður
Árið 1198 lýsti nýr páfi, Innósentíus III, þetta hjónaband ógilt þar sem Filippus væri þegar giftur. Hann skipaði konungi að senda Agnesi frá sér og taka Ingibjörgu til sín aftur. Hún hafði þá skrifað honum og kvartað yfir illri meðferð og einangrun og sagðist hafa hugleitt að taka líf sitt. Konungur hlýddi ekki páfa, sem setti Frakkland þá í bann árið 1199. Í september 2000 féllst Filippus þó á að fara að tilmælum páfa, sem aflétti þá banninu. Filippus sendi Angesi frá sér og hún dó níu mánuðum síðar, úr harmi að því er sagt var. Ingibjörg var þó áfram fangi.
Árið 1201 bað Filippus páfann um að lýsa börn hans og Agnesar skilgetin og gerði páfi það til að fá stuðning hans í öðrum málum. En síðar sama ár fór Filippus aftur fram á ógildingu hjónabands þeirra Ingibjargar á þeirri forsendu að hún leggði stund á galdraiðkan, hefði reynt að leggja á hann álög á brúðkaupsnóttina og því hefði hann ekki getað fullkomnað hjónabandið. Páfi varð ekki við óskum hans.
Sættir og ævilok
Filippus sættist svo við Ingibjörgu árið 1213, ekki vegna þess að hann iðraðist meðferðarinnar á henni, heldur vegna þrýstings frá páfanum og Valdimar Danakonungi og af því að hann vildi styrkja tilkall það sem hann taldi sig eiga til ensku krúnunnar með bættum tengslum við Danmörku.
Ekki fer miklum sögum af sambandi þeirra eftir það en Ingibjörg dvaldi ekki við hirðina, heldur fór víða um Frakkland og helgaði sig góðverkum og guðrækilegum lifnaði. Þó er sagt að þegar Filippus lá banaleguna 1223 hafi hann sagt Loðvík 8. syni sínum að gera vel við Ingibjörgu og svo mikið er víst að bæði Loðvík 8. og Loðvík 9. viðurkenndu hana sem lögmæta ekkjudrottningu. Eftir lát Filippusar dvaldi hún löngum í klaustrinu Saint-Jean-de-l’Ile, sem hún hafði stofnað.
Heimildir
- „Dansk biografisk lexikon. Ingeborg“.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Ingeborg of Denmark, Queen of France“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 24. september 2010.