Júlía Tymosjenko

Júlía Tymosjenko
Юлія Тимошенко
Forsætisráðherra Úkraínu
Í embætti
24. janúar 2005 – 8. september 2005
ForsetiVíktor Júsjtsjenko
ForveriMykola Azarov
EftirmaðurJúríj Jekhanúrov
Í embætti
18. desember 2007 – 4. mars 2010
ForsetiVíktor Júsjtsjenko
ForveriVíktor Janúkovytsj
EftirmaðurOleksandr Túrtsjynov (starfandi)
Persónulegar upplýsingar
Fædd27. nóvember 1960 (1960-11-27) (64 ára)
Dnípropetrovsk, úkraínska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum (nú Dnípro, Úkraínu)
ÞjóðerniÚkraínsk
StjórnmálaflokkurFöðurland
MakiOleksandr Tymosjenko
Börn1
HáskóliHinn þjóðlegi námuháskóli Úkraínu
Þjóðarháskólinn í Dnípropetrovsk
Þjóðlegi efnahagsháskólinn í Kænugarði

Júlía Volodymyrívna Tymosjenko (úkraínska: Ю́лія Володи́мирівна Тимоше́нко) (f. 27. nóvember 1960) er úkraínskur stjórnmálamaður. Hún var einn af leiðtogum appelsínugulu byltingarinnar árin 2004 – 2005[1] og var tvisvar forsætisráðherra Úkraínu, frá 24. janúar til 8. september 2005 og aftur frá 18. desember 2007 til 4. mars 2010.

Tymosjenko er leiðtogi stjórnmálaflokksins Föðurlands, sem hefur 19 fulltrúa á úkraínska þinginu um þessar mundir. Árið 2012 hafði Föðurland hlotið flest atkvæði og unnið 101 af 450 þingsætum. Tymosjenko hlaut 12,81% atkvæða í forsetakosningum Úkraínu árið 2014 og lenti í öðru sæti á eftir Petró Porosjenko.[2] Tymosjenko hafði áður boðið sig fram til forseta árið 2010 en tapaði naumlega fyrir Víktor Janúkovytsj í annarri umferð kosninganna.

Eftir forsetakosningarnar 2010 var Tymosjenko ákærð fyrir ýmsa glæpi. Þann 11. október var hún sakfelld fyrir fjárdrátt og misbeitingu valds og dæmd til sjö ára fangelsisvistar og um 21 milljarða króna fjársektar. Margar erlendar ríkisstjórnir og stofnanir, þar á meðal Evrópusambandið, Bandaríkin, Mannréttindavaktin og Amnesty International, töldu réttarhöldin hlutdræg í garð Tymosjenko. Evrópusambandið setti lausn hennar úr fangelsi sem skilyrði fyrir því að samkomulag um nánari tengsl sambandsins við Úkraínu yrði undirritað.

Tymosjenko var leyst úr haldi þann 22. febrúar árið 2014, á lokadögum byltingarinnar gegn Janúkovytsj forseta.[3] Úkraínska þingið kaus að endurskoða úkraínsk glæpalög og fella niður glæpina sem hún hafði verið dæmd fyrir. Eftir byltinguna lokuðu hæstiréttur Úkraínu og Mannréttindadómstóll Evrópu máli hennar og lýstu því yfir að enginn glæpur hefði verið framinn.

Tymosjenko styður inngöngu Úkraínu í Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið en er á móti inngöngu landsins í Evrasíska efnahagssambandið. Í fangelsi hafði hún farið í hungurverkfall til þess að knýja ríkisstjórn Janúkovytsj til þess að staðfesta fyrirhugaðan samning um nánari tengsl við Evrópusambandið.[4]

Tymosjenko bauð sig fram til forseta í þriðja sinn árið 2019 en lenti í þriðja sæti með um 14 prósentum atkvæða í fyrstu umferð kosninganna þann 31. mars, á eftir Porosjenko forseta og leikaranum Volodymyr Zelenskyj.[5]

Tilvísanir

  1. „Lýðskrumari eða byltingarhetja?“. Morgunblaðið. 7. desember 2004. Sótt 2. október 2018.
  2. „Porosjenkó líklega næsti forseti Úkraínu“. Viðskiptablaðið. 26. maí 2014. Sótt 2. október 2018.
  3. „Júlía Tímósj­en­kó leyst úr haldi“. mbl.is. 22. febrúar 2004. Sótt 2. október 2018.
  4. „Júlía Tímósjenkó hætt í mótmælasvelti“. RÚV. 6. október 2013. Sótt 2. október 2018.
  5. „Grín­ist­inn langefst­ur í út­göngu­spám“. mbl.is. 31. mars 2019. Sótt 31. mars 2019.


Fyrirrennari:
Mykola Azarov
(starfandi)
Forsætisráðherra Úkraínu
(24. janúar 20058. september 2005)
Eftirmaður:
Júríj Jekhanúrov
Fyrirrennari:
Víktor Janúkovytsj
Forsætisráðherra Úkraínu
(18. desember 20074. mars 2010)
Eftirmaður:
Oleksandr Túrtsjynov
(starfandi)