Jiangnan
Jiangnan eða Jiang Nan (kínverska:南|南; rómönskun: Jiāngnán; (Chiang-nan) áður kallað Kiang-nan) sem þýðir „sunnan fljótsins“, í merkingunni „sunnan Jangtse fljóts“; er landsvæði á austurströnd Alþýðulýðveldisins Kína.
Jiangnan vísar til landsvæðis rétt sunnan við neðri hluta Jangtse-fljóts, þar á meðal suðurhluta óshólma þess. Það afmarkast af Gulahafi í austri, Sjanghæ borghéraði í suðaustri og af héruðum Zhejiang í suðri, Anhui í vestri og Shandong í norðri.
Jiangnan hefur lengi verið eitt af velmegandi landsvæðum Kína vegna mikils mannfjölda og auðs frá viðskiptum.
Orðsifjar
Orðið „Jiangnan“ er byggt á hinu kínverska nafni Jangtse, „Cháng Jiāng“, og „nán“ sem þýðir „suður“: („suður af fljótinu“). Á 19. öld kölluðu enskumælandi svæðið einnig Keang-nan.
Landafræði
Héraðið samanstendur nánast eingöngu af ársléttu, flatlendu láglendu landsvæði, sem árset hefur fyllt upp og jafnað.
Við neðri hluta svæðisins eru ár og fljót sem falla til Austur-Kínahafs. Það er ríkt af vötnum, og uppistöðulónum, það stærsta er Tai-vatn. Fjölmargir skurðir og skipgengar vatnaleiðir eru á svæðinu, þar er mikilvægastur Mikliskurður (frá borginni Zhengjiang við Jangtse til borgarinnar Hangzhou við Qiantangjiang fljótið).
Jiangnan er afar frjósamt landsvæði. Það er frægt fyrir silki, handverk, hrísgrjónarækt og er gríðarlega þéttbýlt og iðnvætt.
Í nútíma stjórnsýslu- og héraðsskiptingu Kína, nær það til suðurhluta Jiangsu héraðs (með borgunum Nanjing, Suzhou og Wuxi); og Anhui héraðs; borginni Sjanghæ borgríkis; og norðurhluta Zhejiang héraðs (með borgunum Hangzhou og Ningbo). Svæðið fellur að mestu við svæði sem nú er þekkt sem Jangtse óshólmasvæðið.
Saga
Þrátt fyrir að talið sé að kínversk siðmenning eigi uppruna sinn á Norður-Kína-sléttunni í kringum Gulafljót, drógu náttúrulegar loftslagsbreytingar og stöðugur ófriður við óvinveitta hirðingja nágrannasvæða, úr landbúnaðarframleiðni Norður-Kína allt fyrsta árþúsundið e.Kr.
Margir settust því að í Suður-Kína, þar sem hlýtt og rakt loftslag Jiangnan svæðisins var kjörið fyrir landbúnaðarframleiðslu og það ýtti undir mikla þéttbýlis- og borgarmyndun.
Strax á tíma Austur Hanveldisins (2. öld e.Kr.) var Jiangnan svæðið eitt af efnahagslega sterkustu svæðum Kína. Auk hrísgrjóna var framleitt í Jiangnan arðbærar vörur á borð við te, silki og postulín. Þægilegar samgöngur með Miklaskurð í norðri, Jangtse-fljótið í vestri og sjávarhafnir eins og Yangzhou – ýttu undir staðbundin viðskipti sem og viðskipti við aðrar þjóðir.
Uppgangur svæðisins var auðveldaður með flutningi höfuðborgar Songveldisins til Hangzhou eftir að það missti stjórn norðurhluta landsins í hendur Jinveldisins með falli Kaifeng borgar árið 1127.[1][2] Gullöld Jiangnan byggði á innstreymis hæfileikaríkra stjórnenda, áherslu á menntir og menningu sem og miklum landkostum svæðisins. Af þessum sökum greiddi Jiangnan um miðbik Tjingveldisins (1636–1912) þriðjung allra skatta í keisaraveldinu.[3]
Sögulega var Jiangnan sérstakt stjórnsýslusvæði í Kína, sem tók á syðri bakka neðri hluta Jangtse-árinnar. Höfuðborg héraðsins var Nanjing, sem var suðurhöfuðborg Kína á tímum Mingveldisins (1368–1644) og einnig höfuðborg undir stjórn þjóðernissinna (1928–49).
Borgin hefur einnig verið efnahags- og menningarmiðstöð suður- og suðausturhluta Kína frá fornu fari. Í dag er Jiangnan skipt í nokkur stjórnsýslusvæði og héruð.
Heimildir
Tilvísanir
- ↑ „Цзяннань“, Википедия (rússneska), 25. desember 2021, sótt 27. ágúst 2022
- ↑ von Glahn, Richard, ritstjóri (2016), „The heyday of the Jiangnan economy (1127 to 1550)“, The Economic History of China: From Antiquity to the Nineteenth Century, Cambridge University Press, bls. 255–294, ISBN 978-1-107-03056-5, sótt 27. ágúst 2022
- ↑ Aaron Hsueh (22. febrúar 2020). „Jiangnan Journey: How the Yangtze River region became China's premier cultural hub“. TWOC: The World of Chinese. Sótt 26. agúst 2022.