Justin Timberlake

Justin Timberlake
Timberlake árið 2016
Fæddur
Justin Randall Timberlake

31. janúar 1981 (1981-01-31) (43 ára)
Störf
  • Söngvari
  • lagahöfundur
  • upptökustjóri
  • leikari
Ár virkur1992–í dag
MakiJessica Biel (g. 2012)
Börn2
Tónlistarferill
Stefnur
Hljóðfæri
  • Rödd
  • gítar
  • hljómborð
Útgefandi
Meðlimur í
  • NSYNC
  • Jawbreakers
  • The Y's
Vefsíðajustintimberlake.com
Undirskrift

Justin Randall Timberlake (f. 31. janúar 1981) er bandarískur söngvari, tónlistarhöfundur, leikari, plötuframleiðandi og viðskiptamaður. Hann fæddist í Memphis, Tennessee og birtist í sjónvarpsþáttum á borð við Star Search og The All-New Mickey Mouse Club sem barn. Á síðari hluta 10. áratugarins fór frægðarstjarna hans að rísa þegar hann varð annar aðalsöngvara og yngsti meðlimur strákasveitarinnar NSYNC.

Á meðan hljómsveitin tók hlé frá störfum gaf Timberlake út sólóplöturnar Justified (2002) og FutureSex/LoveSounds (2006). Sú fyrri gaf meðal annars af sér smellina „Cry Me a River“ og „Rock Your Body“, en sú síðari náði á topp bandaríska vinsældarlistans og innihélt smellina „SexyBack“, „My Love“ og „What Goes Around... Comes Around“. Báðar plöturnar seldust í meira en sjö milljónum eintaka um allan heim og gerðu hann að einum vinsælasta söngvara áratugarins. Á árunum 2007 til 2012 einbeitti Timberlake sér að leiklistarferlinum og setti tónlistarferilinn til hliðar um stundarsakir. Á þessum árum lék hann í myndunum The Social Network, Bad Teacher, In Time og Friends with Benefits.

Árið 2013 sneri Timberlake sér aftur að tónlistarferlinum og gaf út þriðju og fjórðu sólóplöturnar, The 20/20 Experience og The 20/20 Experience - 2 of 2. Fyrrnefnda platan innihélt smelli á borð við „Suit & Tie“ og „Mirrors“, en sú síðari smáskífurnar „Take Back the Night“ og „Not a Bad Thing“.

Ferill Timberlakes hefur landað honum níu Grammy verðlaunum og fjórum Emmy verðlaunum. Hann á einnig plötufyrirtækið Tennman Records, tískumerkið William Rast og veitingastaðina Destino og Southern Hospitality.

Æska

Justin fæddist 31. janúar 1981 í Memphis í Tennessee-fylki í Bandaríkjunum. Foreldrar hans eru Randall Timberlake og Lynn (Bomar) Harless, og var afi hans í föðurætt prestur. Hann ólst upp í bænum Shelby Forest, sem er lítill bær á milli Memphis og Milington. Justin á tvo hálf bræður, Jonathan (f. 1993) og Steven Robert (f. 1998), úr síðara hjónabandi föður hans með Lisu Perry. Hálfsystir hans, Laura Katherine, dó stuttu eftir fæðingu þann 12. maí 1997, og minnist Justin hennar á plötunni *NSYNC og í laginu „My Angel in Heaven“.

Janet Jackson var innblástur Timberlake til að verða söngvari og koma fram. Hann sagði um hana: „Hún stóð ekki bara og söng lagið sem hún flutti“ en hann var heillaður af orku hennar. Þegar Timberlake var 11 ára birtist hann í sjónvarpsþættinum Star Search og söng þar kántrílög eins og „Justin Randall“. Árin 1993 og 1994 var hann meðlimur í The Mickey Mouse Club, en á meðal leikanda þar voru m.a. Britney Spears, Christina Aguilera, seinni tíma hljómsveitarfélaginn JC Chasez og verðandi kvikmyndastjörnurnar Ryan Gosling og Keri Russell. Árið 1995 fékk Timberalke Chasez til að vera með sér í strákasöngsveit sem var skipulög af umboðsmanninum Lou Pearlman sem fékk að lokum nafnið 'N Sync.

Ferill

1995–2004: NSYNC, Justified og Ofurskálin

Strákasveitin NSYNC var stofnuð árið 1995 og hófu feril sinn árið 1996 í Evrópu, þar sem Timberlake og Chasez voru aðalsöngvararnir. Árið 1998 varð sveitin fræg í Bandaríkjunum þegar hún gaf út fyrstu plötu sína, NSYNC, sem seldist í 11 milljónum eintaka og innihélt meðal annars smáskífuna „Tearin' Up My Heart“. Önnur platan þeirra, No Strings Attached (2000), seldist í 2.4 milljónum eintaka fyrstu vikuna og innihélt smellinn „It's Gonna Be Me“. Þriðja plata sveitarinar, Celebrity (2001), varð einnig vinsæl. Þegar tónleikaferðalaginu í kjölfar þriðju plötunnar lauk árið 2002, ákvað hópurinn að taka sér frí frá störfum. Á meðan hljómsveitin starfaði varð hún fræg um allan heim og kom fram á Óskarsverðlaunahátíðinni, Ólympíuleikum og Ofurskálinni, seldi meira en 50 milljónir platna um allan heim og varð þriðja tekjuhæsta strákasveit allra tíma.

Síðari hluta ársins 1999 reyndi Timberalake í fyrsta sinn við leiklist í Disney-myndinni Model Behavior. Þar fór hann með hlutverk Jason Sharpe, fyrirsætu sem verður ástfanginn af þjónustustúlku þegar hann heldur að hún sé einnig fyrirsæta. Myndin kom út í mars árið 2000. Rísandi frægð hans og minnkandi vinsældir strákahljómsveita urðu til þess að 'N Sync lagði upp laupana. Hljómsveitarmeðlimurinn Lance Bass var mjög gagnrýninn á gjörðir Timberlakes í bók sinni Out of Sync.

Í ágúst 2002 kom Justin fram á MTV tónlistarverðlaununum, þar sem hann söng í fyrsta skipti smáskífuna „Like I Love You“, sem náði 11. sæti á bandaríska vinsældarlistanum. Fyrsta sólóplatan hans, Justified, kom út í nóvember sama ár og náði 2. sæti á bandaríska vinsældarlistanum þar sem hún seldist í 440.000 eintökum fyrstu vikuna, sem er reyndar lakari árangur en plötur 'N Sync. Justified náði þó að seljast í meira en þremur milljónum eintaka í Bandaríkjunum og auk þess seldust fjórar milljónir eintaka utan við Bandaríkin. Platan fékk mikið lof gagnrýnenda fyrir R&B áhrif hennar sem framleiðendurnir The Neptunes og Timbaland náðu að framkalla. Platan gaf af sér smellina „Cry Me a River“ og „Rock Your Body“. Sumarið 2003 héldu Timberlake og Christina Aguilera í tónleikaferðalagið Justified/Stripped. Seinna sama ár tók hann um lagið „I'm Lovin' It“ sem McDonald's notaði í herferð sinni. Samningurinn við McDonald's þénaði sex milljónir dollara fyrir Timberlake, en inni í samningnum var tónleikaferðalag sem bar nafnið „Justified and Lovin' It“. Justin söng einnig með tónlistarmanninum Nelly í lagi hans, „Work It“ sem var endurhljóðblandað og sett á endurhljóðblandaða plötu Nelly árið 2003.

Í febrúar 2004 kom Justin fram í leikhléi Ofurskálarinnar (e. Super Bowl) á CBS ásamt Janet Jackson fyrir framan meira en 140 milljón áhorfendur. Við lok atriðisins, þegar lagið var að enda, reif Timberlake hluta af leðurbúningi Jackson og átti þetta að tengjast texta lagsins. Talsmaður Jackson sagði að Timberlake hafi ætlað að rífa leðrið af og afhjúpa rauðan blúndubrjóstarhaldara. Galli í búningnum hafi hins vegar valdið því að brjóst hennar kom óvart í ljós í stutta stund. Timberlake baðst afsökunar á atvikinu og sagðist biðjast afsökunar við alla þá sem hafi móðgast vegna þessara galla í búningnum. Frasinn „bilanir í búning“ hafa síðan verið notaðar af bandarískum fjölmiðlum til að lýsa atvikum sem verða í tengslum við búninga. Timberlake og Jackson var hótað frávísun af Grammy verðlaununum árið 2004 í kjölfar atviksins nema þau samþykktu að biðjast afsökunar á því fyrir framan myndavélar á verðlaununum sjálfum. Timberlake mætti og gaf út ritaða afsökunarbeiðni þegar hann tók við fyrri verðlaununum það kvöldið. Þetta kvöld hlaut hann verðlaun fyrir bestu popp-plötuna og bestu frammistöðu söngvara í laginu „Cry Me a River“. Hann var einnig tilnefndur fyrir plötu ársins, upptöku ársins fyrir „Cry Me a River“ og besta rapp samstarf fyrir „Where Is the Love?“ með The Black Eyed Peas.

2004–2007: Leikari og FutureSex/LoveSounds

Justin Timberlake á tónleikum í St. Paul, Minnesota í janúar 2007 á meðan tónleikaferðinni FutureSex/LoveSounds stóð

Eftir atvikið á Ofurskálinni setti Timberlake tónlistarferilinn á bið og lék í nokkrum kvikmyndum. Fyrsta hlutverkið á þessu tímabili var sem blaðamaður í Edison Force sem var tekin upp árið 2004 og fór beint á leigur í júlí 2006. Hann lék einnig í kvikmyndunum Alpha Dog, Black Snake Moan, Southland Tales og talaði fyrir Artie Pendragon prins í Shrek the Third sem kom út í maí 2007. Hann lék einnig ungan Elton John í tónlistarmyndbandi við lagið „The Train Don't Stop There Anymore“. Timberlake kom til greina í hlutverk Roger Davis í kvikmynd byggðri á rokksöngleiknum Rent, en leikstjórinn Chris Colombus lagði áherslu á að upprunalegu Broadway leikararnir gætu lagt meira í hlutverkin, svo Adam Pascal endurtók hlutverkið fyrir myndina.

Justin hélt þó áfram að taka upp tónlist með öðrum listamönnum. Eftir „Where Is the Love?“ tók hann upp annað lag með the Black Eyed Peas sem hét „My Style“ og kom út á plötu þeirra Monkey Business árið 2005. Þegar Timberlake tók upp lagið „Signs“ árið 2005 með Snoop Dogg uppgötvaði hann sjúkdóm í hálsinum, hnúða, sem voru teknir með aðgerð þann 5. maí 2005, og var honum ráðlagt að syngja ekki í nokkra mánuði á eftir. Árið 2005 kom hann á fót sínu eigin upptökufyrirtæki, JayTee Records.

Timberlake gaf út aðra hljóðversplötu sína, FutureSex/LoveSounds þann 12. september 2006. Justin tók upp plötuna á árunum 2005–2006 og náði hún efsta sæti bandaríska vinsældarlistans og seldist í 684.000 eintökum fyrstu vikuna. Platan er mest forpantaða platan á iTunes og sló met Coldplay fyrir söluhæstu tölvutæku plötuna á einni viku. Platan var framleidd af Timbaland og Danja, will.i.am, Rick Rubin og Timberlake sjálfum. Einnig sungu listamenn líkt og Snoop Dogg, Three 6 Mafia, T.I og will.i.am á plötunni með Timberlake. Talsmaður útgáfufyrirtækisins sagði plötuna „einblína á kynþokka“ og miðaði að „fullorðinslegri tilfinningu“.

Fyrsta smáskífa plötunnar, „SexyBack“, var flutt af Justin á opnun MTV tónlistarverðlaunanna árið 2006 og náði efsta sæti bandaríska vinsældarlistans, þar sem hún sat næstu sjö vikurnar. „My Love“ er önnur smáskífa plötunnar og syngur rapparinn T.I. með Timberlake í laginu. Þriðja smáskífan var „What Goes Around... Comes Around“. Sagt er að lagið hafi verið samið um sambandsslit vinar hans, Trace Ayala, og leikkonunnar Elisha Cuthbert. Í október 2006 sagðist Timberlake ætla að einblína frekar á tónlistarferilinn en leiklistina og tók sérstaklega fram að það væri heimskulegt fyrir hann að yfirgefa tónlistarheiminn á þessum tímapunkti. Hann var sérstakur gestur á tískusýningu Victoria's Secret árið 2006 þar sem hann flutti „SexyBack“. Í janúar 2007 lagði Timberlake af stað í FutureSex/LoveSounds hljómleikaferðina. Í febrúar 2008 fékk Timberlake tvenn Grammy verðlaun.

2007–2012: Hlé frá tónlistinni og leiklistin

Lagið „4 Minutes“ var fyrst spilað af Timbaland á Jingle dansleik Fíladelfíu þann 17. desember 2007. Lagið kom hins vegar ekki út fyrr en 17. mars 2008 og var þá dúett með Timberlake og Madonna þar sem Timbaland söng bakraddir. „4 Minutes“ var fyrsta smáskífan af elleftu hljóðversplötu Madonnu, Hard Candy, sem innihélt fjögur önnur lög í samstarfi við Timberlake. Smáskífan varð vinsæl um allan heim og náði efsta sæti vinsældarlista í 21 landi. Justin leikur einnig í tónlistarmyndbandi lagsins, sem var leikstýrt af Jonas & Francois.

Í júní 2007 samdi Justin (ásamt öðrum), framleiddi og söng inn á lögin „Nite Runner“ og „Falling Down“ fyrir plötu Duran Duran, Red Carpet Massacre sem kom út í nóvember 2007. Sama ár söng Justin inn á þriðju plötu 50 Cent, Curtis. Timberlake, ásamt Timbaland, syngur í lagi sem heitir „Ayo Technology“ og er fjórða smáskífa plötunnar. Eftir að FutureSex/LoveSounds tónleikaferðinni lauk hóf Justin kvikmyndaferilinn á ný. Snemma árs 2008 lék hann í The Love Guru með Mike Myers í aðalhlutverki og kvikmyndinni The Open Road.

Árið 2008 hljómaði samstarf Timberlake og rapparans T.I., „Dead and Gone“, á sjöttu hljóðversplötu rapparans, Paper Trail, og var lagið fjórða smáskífa plötunnar. Í nóvember 2008 var það staðfest að Timberlake myndi vera gestur og framleiða hluta laga á nýrri plötu söngkonunnar Ciara, Fantasy Ride, sem átti að koma út 9. maí 2009. Timberlake syngur með Ciara á annarri smáskífu plötunnar, „Love Sex Magic“, og var myndband við lagið tekið upp í febrúar 2009. Smáskífan varð vinsæl um allan heim og náði inn á vinsældarlista í fjölmörgum löndum og náði m.a. toppi listanna í Taívan, Indlandi og Tyrklandi. Einnig var lagið tilnefnt til Grammy verðlauna fyrir besta popp samstarf. Timberlake og teymi hans framleiddu og sömdu lagið „Don't Let Me Down“ fyrir aðra hljóðversplötu bresku söngkonunnar Leona Lewis, Echo, sem kom út í Bandaríkjunum í nóvember 2009. Justin var einnig meðhöfundur og söng lagið „Carry Out“ sem er að finna á plötu Timbaland, Shock Value II sem kom út 1. desember 2009.

Justin var útnefndur kynþokkafyllsti karlmaðurinn af tímaritunum Teen People og Cosmopolitan. Þann 17. febrúar 2009 var hann titlaður best klæddi maður Bandaríkjanna af GQ-tímaritinu. Árið 2011 varð hann í 46. sæti yfir 49 áhrifamestu karlmennina á lista AskMen. Frá árinu 2010 hefur Justin fjölgað kvikmyndahlutverkunum talsvert. Hann lék Sean Parker, upphafsmann Napster, í kvikmyndinni The Social Network (2010) og árið 2011 lék hann á móti Cameron Diaz í Bad Teacher og Mila Kunis í Friends with Benefits. Hann lék einnig Will Salas, sögumannin í In Time.

Síðan 2013: The 20/20 Experience og 2 of 2

Justin hóf vinnu við þriðju hljóðversplötu sína, The 20/20 Experience, í júní 2012 og hafði hann „engar reglur og/eða lokamarkmið í huga“. Hann tilkynnti opinberlega að hann hefði snúið aftur í tónlistarbransann í janúar 2013 þegar hann gaf út fyrstu smáskífu plötunnar, „Suit & Tie“ ásamt Jay-Z. Lagið náði þriðja sæti bandaríska vinsældarlistans. Eftir fjögurra ára tónleikahlé steig Timberlake á svið kvöldið fyrir Ofurskálina árið 2013 í New Orleans. Þann 10. febrúar 2013 flutti hann „Suit & Tie“ ásamt Jay-Z á 55. Grammy verðlaununum. Þann 11. febrúar 2013 kom lagið „Mirrors“ út og var því önnur smáskífa plötunnar The 20/20 Experience. Lagið náði hæst öðru sæti á bandaríska vinsældarlistanum. Platan sjálf kom svo út þann 19. mars 2013 í gegnum RCA Records útgáfufyrirtækið. Platan náði strax efsta sæti bandaríska vinsældarlistans og seldist í 980.000 eintökum fyrstu vikuna. Timberlake söng einnig inn á tólftu hljóðversplötu Jay-Z, Magna Carta... Holy Grail og syngur hann í þremur lögum, „Holy Grail“, „BBC“ og „Heaven“.

Fjórða hljóðversplata Justins, The 20/20 Experience - 2 of 2 kom út 30. september 2014 og náði strax á topp vinsældarlista. Fyrsta smáskífan, „Take Back the Night“, kom út þann 12. júlí 2013, en næsta smáskífa var „TKO“. Timberlake á framleiðslu- og höfundarrétt á sex lögum á fimmtu plötu Beyoncé, sem kom óvænt út á iTunes þann 13. desember 2013. 25. febrúar 2014 kom lagið „Not a Bad Thing“ út og var þriðja smáskífa plötunnar. Árið 2014 söng Timberlake inn á aðra plötu Michael Jackson eftir dauða hans, Xscape, þar sem hann söng með Michael í laginu „Love Never Felt So Good“, sem var framleitt af Timbaland, Jerome „J-Roc“ Harmon og Timberlake. Þann 14. maí 2014 kom út myndband við lagið sem inniheldur myndbrot af Jackson og Timberlake og aðdáendum þeirra að framkvæma þekktustu dansspor Jackson.

Tónleikar á Íslandi

Timberlake hélt tónleika í Kórnum í Kópavogi árið 2014 og voru þeir einir fjölmennustu tónleikar sem haldnir hafa verið á Íslandi en 17 þúsund manns sóttu þá.[1]

Einkalíf

Snemma árs 1999 byrjaði Timberlake með meðleikara sínum í The New Mickey Mouse Club og söngkonunni Britney Spears en samband þeirra endaði snögglega í mars 2002. Sambandsslitin höfðu áhrif á texta og þema lagsins „Cry Me a River“. Í apríl 2003 byrjaði hann samband með leikkonunni Cameron Diaz stuttu eftir að þau hittust á Nickelodeon Kids verðlaunahátíðinni. Eftir miklar getgátur um sambandsslit hætti parið loksins saman í desember 2006, stuttu eftir að hún kynnti hann sem sérstakan tónlistargest í þættinum Saturday Night Live. Í janúar 2007 var meintum sögusögnum um samband hans og leikkonunnar Scarlett Johansson neitað, en þau hittust við tökur á myndbandi við lag hans, „What Goes Around... Comes Around“.

Í janúar 2007 hóf Timberlake samband með leikkonunni Jessica Biel sem hann hafði verið myndaður með við nokkur tilefni. Parið trúlofaðist í fjöllum Montana í desember 2011. Þau giftu sig þann 19. október 2012 á Fasano á Ítalíu.

Justin hefur sagtst vera með áráttu- og þráhyggjuröskun (OCD) ásamt ofvirkni með athyglisbresti (ADHD).

Útgefið efni

Breiðskífur

  • Justified (2002)
  • FutureSex/LoveSounds (2006)
  • The 20/20 Experience (2013)
  • The 20/20 Experience – 2 of 2 (2013)
  • Man of the Woods (2018)
  • Everything I Thought It Was (2024)

Tilvísanir

Heimildir

Tenglar