Konstantín 2. Grikkjakonungur
| ||||
Konstantín 2.
| ||||
Ríkisár | 6. mars 1964 – 1. júní 1973 | |||
Skírnarnafn | Κωνσταντίνος | |||
Kjörorð | ΙΣΧΥΣ ΜΟY Η ΑΓΑΠΗ ΤΟΥ ΛΑΟΥ | |||
Fæddur | 2. júní 1940 | |||
Aþenu, Grikklandi | ||||
Dáinn | 10. janúar 2023 (82 ára) | |||
Aþenu, Grikklandi | ||||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Páll Grikkjakonungur | |||
Móðir | Friðrika af Hannover | |||
Drottning | Anna María Grikkjadrottning | |||
Börn | 5 |
Konstantín 2. (gríska: Κωνσταντίνος Βʹ,; 2. júní 1940 – 10. janúar 2023) var síðasti konungur Grikklands. Hann ríkti frá andláti föður síns, Páls Grikkjakonungs, árið 1964 þar til gríska konungdæmið var lagt niður og lýðveldi stofnað í Grikklandi árið 1973. Konstantín var af konungsætt Lukkuborgara og var því skyldur konungsfjölskyldum Danmerkur og Noregs. Eiginkona hans var Anna María Danaprinsessa, systir Margrétar Þórhildar Danadrottningar.
Æviágrip
Konstantín fæddist þann 2. júní árið 1940, aðeins nokkrum mánuðum áður en Ítalir réðust inn í Grikkland í seinni heimsstyrjöldinni. Þegar Ítalir réðust inn í landið flúði gríska konungsfjölskyldan til Krítar á meðan gríski herinn varðist innrásarliðinu á meginlandinu. Árið 1941 sendu Þjóðverjar her til að aðstoða Ítali við innrás þeirra í Ítalíu og tókst að sigra Grikki. Faðir Konstantíns, Páll krónprins, flúði ásamt konu sinni og börnum, fyrst til Kaíró en síðan til Pretoríu í Suður-Afríku.[1] Konstantín kom aftur til Grikklands ásamt fjölskyldu sinni eftir stríðslok árið 1946.[2]
Faðir Konstantíns varð konungur Grikklands eftir að Georg 2. Grikkjakonungur lést skyndilega árið 1947 og Konstantín varð þá ríkisarfi.[1] Krónprinsinn var settur til mennta í skóla sem faðir hans hafði sett á fót í útjaðri Aþenu. Konstantín hóf síðan herþjálfun þegar hann var fimmtán ára og fór í gegnum allar deildir gríska hersins. Hann útskrifaðist sem liðsforingi frá þeim öllum og varð æðsti foringi alls herafla Grikklands á meðan hann var enn krónprins.[2]
Konstantín varð kunnur íþróttamaður á alþjóðavettvangi. Þegar hann var tuttugu ára gamall keppti hann í kappsiglingum á Sumarólympíuleikunum 1960 í Róm og vann til gullverðlauna. Grikkir höfðu þá ekki unnið til gullverðlauna í hálfa öld og því var sigrinum fagnað ákaft.[2]
Konstantín varð konungur Grikklands aðeins 23 ára gamall þegar faðir hans lést eftir langvinn veikindi árið 1964.[2] Þegar Konstantín tók við krúnunni var hann yngsti sitjandi þjóðhöfðingi í heimi.[3] Konstantín var ekki talinn vinsæll þjóðhöfðingi sem hefði meirihluta almennings að baki sér. Þetta skýrðist meðal annars af verulegri spillingu innan konungshirðarinnar og mikils kostnaðar við uppihald hennar þrátt fyrir að Grikkland væri með fátækari ríkjum Evrópu.[4]
Árið 1967 framdi gríski herinn valdarán gegn borgaralegum stjórnvöldum og stofnaði herforingjastjórn í landinu. Konstantín reyndi að leiða gagnbyltingu á móti herforingjunum til að endurreisa lýðræðislega stjórnarhætti en hún fór út um þúfur og í kjölfarið neyddist Konstantín til að flýja land ásamt drottningu sinni og börnum þeirra. Þau hlutu fyrst hæli í Danmörku hjá tengdaföður Konstantíns, Friðrik Danakonungi.[5]
Eftir að Konstantín flúði frá Grikklandi var hann fyrst um sinn enn viðurkenndur af stjórninni sem konungur landsins að forminu til. Þetta breyttist árið 1973, en þá tilkynnti Georgíos Papaðopúlos, leiðtogi herforingjastjórnarinnar, að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu til að ákvarða framtíð konungdæmisins.[5] Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar varð sú að tæplega 70% Grikkja kusu með því að afnema konungsveldið og stofna lýðveldi í Grikklandi.[6]
Eftir stofnun lýðveldisins gaf Papaðopúlos út að landeignir Konstantíns yrðu gerðar upptækar en herforingjastjórninni var steypt af stóli áður en þetta varð gert. Árið 1974 tók á ný við lýðræðisleg stjórn í Grikklandi sem viðurkenndi rétt Konstantíns til fasteigna og jarðeigna sinna en afnam skattfríðindi hans.[7]
Konstantín átti í deilum við gríska ríkið í mörg ár þar sem hann reyndi að fá bætur dæmdar fyrir konungseignir og jarðir sem gerðar hefðu verið upptækar. Árið 1991 fékk hann leyfi til að fjarlægja tíu gáma af munum úr gömlum konungsbústað sínum í grennd við Aþenu. Flestir þessir munir voru síðar seldir á uppboði. Árið 2002 dæmdi Mannréttindadómstóll Evrópu gríska ríkið til að greiða fjölskyldu Konstantíns tæpar fjórtán milljónir evra í bætur.[6]
Konstantín lést þann 10. janúar árið 2023.[8]
Tilvísanir
- ↑ 1,0 1,1 „Konungsefnið Konstantín“. Fálkinn. 18. maí 1956. bls. 4-5.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 „Konstantin krónprins er vel undir valdatökuna búinn“. Morgunblaðið. 7. mars 1964. bls. 1; 23.
- ↑ „Af skólabekk í hásæti“. Fálkinn. 22. júní 1964. bls. 12-13; 31.
- ↑ „Hann er enn með í spilinu“. Vikan. 9. ágúst 1973. bls. 46-47.
- ↑ 5,0 5,1 „Konstantin settur af“. Vikan. 19. apríl 1974. bls. 54-55; 51.
- ↑ 6,0 6,1 „Síðasti konungur Grikklands látinn“. mbl.is. 11. janúar 2023. Sótt 17. janúar 2023.
- ↑ „Konstantín í fjárkröggum“. Alþýðublaðið. 27. apríl 1986. bls. 4.
- ↑ Atli Ísleifsson (11. janúar 2023). „Síðasti konungur Grikklands fallinn frá“. Vísir. Sótt 15. janúar 2023.
Fyrirrennari: Páll |
|
Eftirmaður: Enginn |