Lesblinda
Lesblinda (Dyslexía) er skert hæfni til að lesa skrifað eða prentað mál, þó að sjón og greind séu óskert.[1] Röskunin er talin vera sértækur námsörðugleiki af taugalíffræðilegum uppruna.[2] Áætlað er að allt að 10 til 20 prósent fólks eigi í erfiðleikum með lestur og að mikill hluti þeirra sé lesblindur.[3]
Lesblinda tengist ekki greind og er ekki sjúkdómur.[4] Þrátt fyrir að hún lýsi sér fyrst og fremst sem vandkvæði við lestur þá geta aðrir erfiðleikar fylgt, eins og örðugleiki við stafsetningu, lesskilning, stærðfræði o.fl. Röskunin er viðvarandi fram á fullorðinsár og er mjög líklega arfgeng.[5] Lesblinda getur ýmist verið áunnin eða þroskafræðileg.[6]
Orðanotkun
Í daglegu tali er talað um lesblindu en ýmis önnur orð eru einnig við notuð um röskunina. Alþjóðaheiti fyrir lesblindu er dyslexía, sem er komið úr grísku þar sem forskeytið „dys“ þýðir erfiðleikar og „lexía“ þýðir orð.[7]
Til eru ýmis hugtök um lestrarerfiðleika, svo sem lesblinda, dyslexía, leshömlun, sértækir lestrar- og stafsetningarörðugleikar, orðblinda, torlæsi, leshömlun og svo mætti lengi telja. Sumir telja hugtaka lesblinda vera villandi þar sem gefið er til kynna að vandinn sé tengdur sjón, þrátt fyrir að svo sé ekki.[8] Því hafa sumir vilja fremur nota orðið orðblinda eða lestrartregða.[9]
Í seinni tíð hefur verið lögð áhersla á víðtækari skilning á hugtakinu. Vandinn orðavals liggi í því að lesblinda eða leshömlun geti náð yfir margt annað en lestur. Ekki hefur náðst samstaða um annað íslenskt orð sem gæti leyst orðið lesblinda af hólmi.[10]
Dyslexía hefur þótt hlutlausara en orðið lesblinda, sem telst vera algengara. Þannig kennir það félag sem mest hefur unnið að málefnum lesblindra á Íslandi, sig við lesblindu. Félag lesblindra vinnur sem hagsmunafélag fyrir þá sem þjást af dyslexíu og kappkostar að því að auka vitund og þekkingu á röskuninni á Íslandi.[11]
Tveir meginflokkar
Lesblindu er gjarnan skipt í tvo flokka: Áunnin lesblinda (e. acquired dyslexia) og þroskafræðileg lesblinda (e. developmental dyslexia).
Áunnin lesblinda felst í því að einstaklingur sem áður hafði fulla lestrargetu hlýtur heilaskaða sem veldur vandræðum með lestur. Áunninni lesblindu hefur síðan verið skipt upp eftir því hvaða heilasvæði hafa skaddast og áhrif skaðans nákvæmlega á lestrarhæfileika. Þannig getur skaði á ákveðnum hlutum vinstra gagnaugablaðs orsakað lesblindu og getu til að lesa orð í heilu lagi. Vinstra heilahvelið tekur að jafnaði meiri þátt í úrvinnslu tungumáls en það hægra.[12]
Þroskafræðileg lesblinda er röskun hjá einstaklingum sem hafa frá upphafi átt í erfiðleikum með að lesa. Þessi tegund lesblindu virðist ættgeng þar sem hún getur gengið í erfðir.[13] Þroskafræðileg lesblinda telst sértækur námsörðugleiki, sem einkennist fyrst og fremst af vandkvæðum við lestur, en einnig örðugleikum við stafsetningu, stærðfræði og fleira. Uppruni þessarar röskunar er taugalíffræðilegur, en orsakirnar geta verið ólíkar. Erfitt reynist að greina á milli orsakar og afleiðingar lesblindu.[14]
Að baki lesblindu er þannig ýmiskonar röskun sem veldur því að fólk nái ekki lestri eða skrift. Það gerir það verkum að mjög er erfitt að finna eina lausn fyrir alla lesblinda. Fréttir um að einhver hafi fundið lausn á lesblindu eru oftar en ekki fréttir um að viðkomandi hafi aðeins fundið lausn fyrir tiltekinn hóp innan samfélags lesblindra.
Megineinkenni lesblindu
Lesblinda er röskun á hæfni við að lestur úr táknum ritmáls - að breyta bókstöfum í hljóð. Hún lýsir sér í erfiðleikum við að ná sjálfvirkni við lestrarskilning og í slakri ritunargetu. Hún er oft ættgeng og gera má ráð fyrir að rót hennar liggi í genasamsetningum. Ítarlegar rannsóknir á hljóðkerfisfræðilegum hæfileikum hafa sýnt að röskunin fylgir fólki ævilangt.[15] Þó hún hverfi ekki með aldrinum þrátt fyrir að lestrarhæfileiki geti batnað með tímanum.[16]
Börn hafa snemma ríka tjáningarþörf og þeim virðist meðfætt að læra að tala og hlusta. Það á ekki við um lestur. Hann kemur ekki „af sjálfu sér“ heldur verður numinn. Tal er ólíkt prentuðu máli og ekki er beint samband á milli hljóðs í tali og þeirra tákna sem notuð eru við ritun í stafrófsskrift. Lesandi þarf þannig að læra að hlusta með augunum og fyrir suma reynist það erfitt. Flestir lesblindra hafa veika hljóðkerfisvitund, sjá stafi eða heilu orðin stundum á línunni fyrir ofan eða neðan. Þá geta orð virst vera á röngum stað á línunni, eða stafir og tölur verið á hreyfingu, minnkað eða stækkað. Þeir eiga það einnig til að sleppa úr orði, hunsa hástafi og greinarmerki og víxla táknum. Það getur skilað sér í rithömlun eða skrifblindu.[17]
Einkenni lesblindu eru misjöfn eftir einstaklingum og aldri. Að neðan eru nefnd nokkur algeng einkenni. Þau eiga ekki við um alla lesblinda einstaklinga og sumir geta haft einkenni sem ekki eru nefnd hér og því er listinn ekki tæmandi.[18] [19][20][21]
Lestur
- sundurslitinn og hikandi raddlestur þegar lesið er upphátt.
- orð, orðahlutar eða jafnvel setningar eru endurtekin eða farið fram hjá þeim.
- orð eru lesin vitlaust.
- hægur lestur.
- slakur lesskilningur og lesminni.
- lesandi einbeitir sér of mikið eða of lítið að smáatriðum.
- lesandi á erfitt með að gera útdrátt úr löngum textum.
- lesandi reynir að forðast lestur, sérstaklega upplestur.
Stafsetning
- óvenjuslæm stafsetning og sömu villur endurteknar oft eða sama orðið jafnvel skrifað á mismunandi hátt í sama texta.
- einstaklingur sleppir orðum eða orðahlutum.
- einstaklingur forðast að skrifa.
Önnur möguleg einkenni
- einstaklingur getur haft nokkuð takmarkaðan orðaforða.
- einstaklingur getur átt erfitt með að læra erlend tungumál.
- einstaklingur á erfitt með að muna nöfn.
- einstaklingur á erfitt með að skipuleggja sig.
- einstaklingur á erfitt með að greina á milli hægri og vinstri.
- einstaklingur á erfitt með stærðfræðinám.
Félag lesblindra á Íslandi
Félag lesblindra á Íslandi (FLÍ) var stofnað árið 2003 til að vinna markvisst að því að auka vitund og þekkingu á lesblindu á Íslandi.[22] Markmið þess er vinna að málum lesblindra og jafna stöðu þeirra í leik, starfi og menntun, á við aðra í samfélaginu.[23] Félagið hefur meðal annars gefið út kennslu- og fræðsluefni um lesblindu og dreift í skólum og á vinnustöðum. Þá hefur það gefið út hljóðbækur, heimildarmynd um lesblindu og sinnt kynningarstarfi í skólum og á vinnustöðum. Það hefur þar að auki framkvæmt viðhorfskannanir um lesblindu á Íslandi, og haldið ráðstefnur og fræðslufundi.[24]
Félagið heldur úti skrifstofu í Reykjavík og starfsmanni sem situr meðal annars í samráðshóp á vegum menntamálaráðuneytisins um Hljóðbókasafn Íslands, sem og nefndum og ráðum Öryrkjabandalags Íslands. Þá tekur félagið þátt í samstarfi lesblindusamtaka í nágrannalöndum.[25]
Önnur félög, fyrirtæki og þjónustur
Í gegnum tíðina hafa nokkur önnur samtök og fyrirtæki hafa látið sig málefni lesblindra varða. Sum þeirra eru ekki lengur starfandi og hafa verið afskráð.
Íslenska dyslexíufélagið sem stofnað var árið 1994 af nokkrum háskólanemum [26] var starfandi í fjögur ár. Markmið þess var að bæta stöðu fólks með lesblindu og koma í veg fyrir að hún verði einstaklingnum að fötlun.[27] Félagið er ekki lengur starfandi. [28] Það var leyst upp árið 2020 og fjármunir þess látnir renna til Háskóla Íslands til rannsókna.
Betra nám er fyrirtæki sem veitir sérhæfða ráðgjöf og námskeið fyrir nemendur sem eiga erfitt uppdráttar í skóla. Það veitir upplýsingar og ráðgjöf um lesblindu, athyglisbrest og aðra námsörðugleika. Frá árinu 2004 hefur Betra nám boðið uppá námskeið sem leggur til grundvallar Davis-aðferðafræði sem byggir á þeim kenningum að orsök lesblindu geti legið í ímyndunarafli barna og ungmenna.[29]
Skyn var félag nemenda með sértæka námsörðugleika sem stofnað var árið 2007.[30] Það beitti sér fyrir málefnum sem koma upp innan háskólasamfélagsins og málefnum sem hafa áhrif á það. Félagið er ekki lengur starfandi og hefur verið afskráð.[31]
Hljóðbækur nýtast lesblindum einstaklingum t.d. við nám. Hljóðbókasafn Íslands á mikið safn hljóðbóka og er opið lesblindum einstaklingum sem fengið hafa greiningu.[32] Þá eru Karl og Dóra nýir íslenskir talgervlar sem allir sem greindir hafa verið lesblindir eiga rétt á að fá úthlutað. Blindrafélagið sér um dreifingu þeirra, sjá nánar á www.blind.is.
Tenglar
Tilvitnanir
- ↑ Læknablaðið- 2001 Fylgirit 41 - Íðorðapistlar (2001). „Íðorðapistlar 1-130 -065-Dyslexia“. Læknafélag Íslands. Sótt 1. mars 2021.
- ↑ Sigríður Jóhannesdóttir (2010). „Dyslexía“ (PDF). Hug- og félagsvísindasvið, Háskólinn á Akureyri, Kennaradeild. bls. iii. Sótt 1. mars 2021.
- ↑ Félag lesblindra á Íslandi. „Um lesblindu“. Félag lesblindra á Íslandi. Sótt 2. mars 2021.
- ↑ „Hvað er lesblinda? Er hægt að lækna hana?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Kristjana Ingibergsdóttir (Október 2011). „Lesblinda. Helstu einkenni og orsakir“ (PDF). bls. 14-15. Sótt 5. mars 2021.
- ↑ Heiða María Sigurðardóttir (12. október 2006). „„Af hverju er maður lesblindur?" Vísindavefurinn, 12. október 2006“. Vísindavefurinn, Háskóli Íslands. Sótt 3. mars 2021.
- ↑ Læknablaðið- 2001 Fylgirit 41 - Íðorðapistlar (2001). „Íðorðapistlar 1-130 -065-Dyslexia“. Læknafélag Íslands. Sótt 1. mars 2021.
- ↑ Bjarndís Fjóla Jónsdóttir og Svava Björk Ásgeirsdóttir (maí 2006). „Vefur um Dyslexíu“. Sótt 5. mars 2021.
- ↑ Jörgen Pind (1997). Sálfræði ritmáls og talmáls. Háskólaútgáfan. bls. 231.
- ↑ Jörgen Pind og Aldís Guðmundsdóttir (2. maí 2001). „„Hvað er lesblinda? Er hægt að lækna hana?" Vísindavefurinn“. Vísindavefurinn, Háskóli Íslands. Sótt 3. mars 2021.
- ↑ Félag lesblindra. „Um Félag lesblindra“.
- ↑ Heiða María Sigurðardóttir (12. október 2006). „„Af hverju er maður lesblindur?" Vísindavefurinn, 12. október 2006“. Vísindavefurinn, Háskóli Íslands. Sótt 3. mars 2021.
- ↑ Heiða María Sigurðardóttir (12. október 2006). „„Af hverju er maður lesblindur?" Vísindavefurinn, 12. október 2006“. Vísindavefurinn, Háskóli Íslands. Sótt 3. mars 2021.
- ↑ Heiða María Sigurðardóttir (12. október 2006). „„Af hverju er maður lesblindur?" Vísindavefurinn, 12. október 2006“. Vísindavefurinn, Háskóli Íslands. Sótt 3. mars 2021.
- ↑ Íris Hrund Pétursdóttir (Maí 2012). „Þín leið! Hjálparbæklingur fyrir framhaldsskólanemendur með lesblindu eða lestrarörðugleika. Lokaverkefni til B.A.-prófs“ (PDF). Menntavísindasvið, Háskóli Íslands. bls. 10. Sótt 1. mars 2021.
- ↑ Kristjana Ingibergsdóttir (Október 2011). „Lesblinda. Helstu einkenni og orsakir“ (PDF). bls. 3-4. Sótt 5. mars 2021.
- ↑ Kristjana Ingibergsdóttir (Október 2011). „Lesblinda. Helstu einkenni og orsakir“ (PDF). bls. 3-4. Sótt 5. mars 2021.
- ↑ Jónas G. Halldórsson, sálfræðingur. „Sértækir námsörðugleikar í lestri, stafsetningu, skrift og stærðfræði: nokkur áhersluatriði“ (PDF). Sótt 1. mars 2021.
- ↑ „Háskóli Íslands - Námsráðgjöf - Dyslexía/lesblinda“.
- ↑ „Lesblinda og hraðlestur“.
- ↑ „Davis Dyslexia Methods in Iceland“.
- ↑ „Nánar um félag [Félag lesblindra á Íslandi á vef Ríkisskattstjóra“.
- ↑ „fli.is - Heim“.
- ↑ FLÍ. „Um Félag lesblindra á Íslandi“. FLÍ. Sótt 1. mars 2021.
- ↑ FLÍ. „Um Félag lesblindra á Íslandi“. FLÍ. Sótt 1. mars 2021.
- ↑ DV (15. desember 2017). „Félag lesblindra og merkileg starfsemi þess“. DV. Sótt 3. mars 2021.
- ↑ Ólafur Finnbogason. „Íslenska dyslexíufélagið“.
- ↑ „Nánar um félag [Íslenska dyslexíufélagið á vef Ríkisskattstjóra“.
- ↑ Betra nám (Ágúst 2019). „Það besta við lesblinduna“. Sótt 1. mars 2021.
- ↑ „Nánar um félag [Skyn, félag nemenda með sértæka námsörðuleika á vef Ríkisskattstjóra“.
- ↑ „SHÍ - Stúdentaráð Háskóla Íslands [um Skyn, félag nemenda með sértæka námsörðuleika]“.
- ↑ „Hljóðbókasafn Íslands“.