Li Qiang
- Þetta er kínverskt nafn: kenni- eða fjölskyldunafnið er Li, eiginnafnið er Qiang.
Li Qiang | |
---|---|
李强 | |
Forsætisráðherra Alþýðulýðveldisins Kína | |
Núverandi | |
Tók við embætti 11. mars 2023 | |
Forseti | Xi Jinping |
Forveri | Li Keqiang |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 23. júlí 1959 Rui'an, Zhejiang, Kína |
Stjórnmálaflokkur | Kommúnistaflokkur Kína |
Háskóli | Zhejiang Wanli-háskóli Zhejiang-háskóli Flokksskóli kínverska kommúnistaflokksins Fjöltækniháskólinn í Hong Kong |
Starf | Stjórnmálamaður |
Li Qiang (kínverska: 李强; pinyin: Lǐ Qiáng; f. 23. júlí 1959) er kínverskur stjórnmálamaður og áttundi og núverandi forsætisráðherra Alþýðulýðveldisins Kína frá mars 2023. Hann hefur verið næstæðsti meðlimurinn í fastanefnd stjórnmálanefndar kínverska kommúnistaflokksins frá október 2022. Hann var áður flokksritari Kommúnistaflokksins í Sjanghæ frá 2017 til 2022, flokksritari í Jiangsu-héraði frá 2016 til 2017 og héraðsstjóri Zhejiang frá 2012 til 2016.
Li gekk í Kommúnistaflokkinn árið 1983 og varð ritari ungliðahreyfingar flokksins í Rui'an, Zhejiang. Hann vann síðar hjá borgaramáladeild héraðsins og varð flokksritari í Yong Kang í Wenzhou, ritari stjórnmála- og lagamálefna í Zhejiang og síðan aðstoðarflokksritari héraðsins. Hann varð héraðsstjóri Zhejiang árið 2012, flokksritari Jiangsu-héraðs árið 2016 og loksins flokksritari í Sjanghæ árið 2017. Sama ár hlaut Li sæti í stjórnmálanefnd kommúnistaflokksins.
Á stjórnartíð sinni í Sjanghæ lét Li opna STAR Market-kauphöllina, hafði umsjón með erlendum fjárfestingum í borginni eins og byggingu risaverksmiðju Tesla, Inc., auðveldaði innlendum innflytjendum að öðlast dvalarleyfi í borginni og lét byggja fimm nýja bæi til að bæta úr skorti á byggðarlandi. Hann skipaði jafnframt tveggja mánaða útgöngubann í Sjanghæ árið 2022 vegna kórónuveirufaraldursins, sem hafði mjög neikvæð áhrif á efnahag borgarinnar og hefur sætt gagnrýni.[1] Li hlaut engu að síður stöðuhækkun til fastanefndar stjórnmálanefndarinnar síðar á árinu 2022 og varð forsætisráðherra Kína árið 2023. Li hlaut nánast öll 2.900 atkvæðin á flokksþingi Kommúnistaflokksins.[2]
Li hefur unnið ásamt núverandi aðalritara Kommúnistaflokksins, Xi Jinping, í Zhejiang og er álitinn náinn bandamaður Xis.[3] Þrátt fyrir að vera náinn Xi er Li almennt talinn hlynntur viðskiptafrelsi.
Tilvísanir
- ↑ Hugrún Hannesdóttir Diego (11. mars 2023). „Bandamaður Xi Jinping útnefndur forsætisráðherra Kína“. RÚV. Sótt 14. mars 2023.
- ↑ „Náinn bandamaður Xi verður forsætisráðherra“. mbl.is. 11. mars 2023. Sótt 14. mars 2023.
- ↑ Munroe, Tony; Tian, Yew Lun (12. október 2022). „After COVID lockdown, eyes on Shanghai chief at party congress“. Reuters (enska). Sótt 20. október 2022.
Fyrirrennari: Li Keqiang |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |