Ludovico Sforza

Ludovico Sforza á altaristöflu Sforza í Pinacoteca di Brera.

Ludovico Maria Sforza, einnig þekktur sem Ludovico il Moro (27. júlí 145227. maí 1508) var hertogi af Mílanó frá 1494 þegar frændi hans, Gian Galeazzo Sforza, lést, til 1499 þegar Loðvík 12. hrakti hann frá völdum og tók hertogatitilinn upp sjálfur. Ludovico Sforza var kennt um að hafa hrundið Ítalíustríðunum af stað.

Ludovico var sonur Francesco 1. Sforza, stofnanda ættarveldisins, og Bianca Maria Visconti. Hann var fjórði sonur þeirra og stóð því ekki til ríkiserfða. Þegar faðir hans lést tók Galeazzo Maria Sforza við hertogadæminu. Galeazzo Maria var myrtur 1476 og tók þá Gian Galeazzo Sforza, sjö ára sonur hans, við völdum. Við tóku átök milli Ludovicos og móður Gian Galeazzo, Bona af Savoja, þar sem Ludovico hafði betur. Hann varð ríkisstjóri í Mílanó 1481. Árið 1491 giftist hann dóttur Ercole 1. d'Este, hertoga af Ferrara. Leonardo da Vinci skipulagði brúðkaupið.

Árið 1494 gerði Alfons 2. af Napólí bandalag við Alexander 6. páfa og varð þannig ógn við Mílanó. Ludovico ákvað því að kalla Frakka sér til fulltingis. Hann hleypti frönskum hersveitum Karls 8. í gegnum Mílanó á leið sinni til Napólí. En Karl lét sér ekki Napólí nægja heldur gerði einnig tilkall til Mílanó. Ludovico gerði þá bandalag við Maximilían 1. keisara með því að bjóða honum frænku sína, Bianca Sforza, sem konu.

Frændi Ludovicos, Gian Galeazzo, lést við grunsamlegar aðstæður sama ár og Ludovico var krýndur hertogi í október. Ludovico sigraði Frakka í orrustunni við Fornovo 1495 með því að gera vopn úr bronsi sem ætlað var í risavaxna riddarastyttu sem hertoginn hafði fengið Leonardo da Vinci til að gera. Þegar Karl 8. lést varð frændi hans, Loðvík af Orléans, konungur. Loðvík átti tilkall til hertogadæmisins í gegnum ömmu sína, Valentina Visconti. Árið 1498 réðist hann á Mílanó. Ekkert af hinum ríkjunum á Ítalíu vildu aðstoða manninn sem hleypt hafði frönskum hersveitum inn í Ítalíu. Ludovico flúði frá Mílanó og leitaði hælis hjá Maximilían. Hann sneri aftur með her málaliða árið 1500. Bæði franski og ítalski herinn voru skipaðir svissneskum málaliðum sem neituðu að berjast hver við annan. Þeir ákváðu þess í stað að svíkja Ludovico í hendur Loðvíks. Loðvík hélt honum föngnum í höllum sínum í Berry og Loches þar sem hann dó.


Fyrirrennari:
Gian Galeazzo Sforza
Hertogi af Mílanó
(1494 – 1499)
Eftirmaður:
Loðvík 12.