Maracanã (leikvangur)
Maracanã, (portúgalska: Estádio do Maracanã) einnig nefndur Estádio Jornalista Mário Filho er knattspyrnuleikvangur í brasilísku borginni Ríó sem hýst hefur marga af frægari knattspyrnuleikjum sögunnar. Leikvangurinn var tekinn í notkun fyrir Heimsmeistarakeppnina 1950 og var þá stærsti íþróttaleikvangur í heimi, en áætlað er að um 200 þúsund manns hafi troðið sér á úrslitaleikinn í keppninni. Vellinum hefur nokkrum sinnum verið breytt, síðast fyrir Heimsmeistarakeppnina 2014 og tekur hann í dag rúmlega 73 þúsund áhorfendur. Auk þess að hýsa hvers kyns stærri íþróttamót fara toppleikir helstu knattspyrnuliða í Ríó gjarnan fram á Maracanã.
Nafnið
Leikvangurinn gengur í daglegu tali undir heitinu Maracanã sem dregur nafn sitt af samnefndri á sem rennur um Ríó. Upprunalega mun heitið vera fengið úr máli frumbyggja sem höfðu það um páfagaukategund sem algeng er á svæðinu.
Árið 1966 var formlegu nafni vallarins breytt og hann kenndur við blaðamanninn Mário Filho sem var frumkvöðull á sviði íþróttablaðamennsku í Brasilíu, en bróðir hans, Nelson Rodrigues, hafði einnig verið einn helst hvatamaður að byggingu vallarins.
Rætt hefur verið um að breyta nafni leikvangsins enn á ný, að þessu sinni í Estádio Edson Arantes do Nascimento - Rei Pele, til að halda á lofti nafni og minningu knattspyrnugoðsagnarinnar Pelé.
Leikvangur Rauðu stjörnunnar í Belgrað gengur almennt undir heitinu Marakana, með vísun til brasilíska leikvangsins.
Saga
Eftir að Brasiliumenn tryggðu sér gestgjafahlutverkið á HM 1950 var þegar farið að huga að byggingu aðalleikvangs fyrir keppnina. Harðar deilur spunnust um hinn fyrirhugaða Maracanã-völl, m.a. vegna staðsetningar og áætlaðs kostnaðar, en íþróttablaðamaðurinn Mário Filho varði ákvörðunina með kjafti og klóm. Ráðist var í hönnunarsamkeppni á árinu 1947 og hornsteinn lagður að mannvirkinu þann 2. ágúst 1948.
Þar sem fyrsti HM-leikurinn var fyrirhugaður þann 24. júní 1950 var ljóst að lítill tími væri til stefnu. Framkvæmdaáætlunin fór fljótlega út um þúfur og greip FIFA m.a. til þess ráðs að senda Ottorino Barassi, formann ítalska knattspyrnusambandsins til aðstoðar, en hann hafði stjórnað framkvæmdum fyrir HM á Ítalíu 1934. Að lokum tókst að gera leikvanginn nothæfan í tæka tíð, en lokaframkvæmdum lauk þó ekki fyrr en löngu síðar, árið 1965.
Stærsti völlur í heimi
Vígsluleikurinn fór fram 16. júní 1950 milli úrvalsliða frá Rio de Janeiro og São Paulo þar sem Didi skoraði fyrsta markið. Frá upphafi var deilt um hversu marga áhorfendur hinn nýi leikvangur tæki í raun. Brasilísk stjórnvöld sögðu 200 þúsund, heimsmetabók Guinness áætlaði töluna 180 þúsund og aðrar heimildir fóru allt niður í 155 þúsund. Óumdeilt var þó að nýi völlurinn tæki fleiri áhorfendur en Hampden Park í Glasgow sem átti fyrra metið.
81 þúsund manns sáu Brasilíu vinna stórsigur á Mexíkó í fyrsta landsleiknum þann 24. júní og kærðu áhorfendur sig kollótta um það þótt ekki væri búið að ljúka við ýmis smáatriði á borð við salernisaðstöðu. Heimamenn léku við hvern sinn fingur á mótinu og dugði jafntefli í lokaleiknum gegn Úrúgvæ til að verða heimsmeistari. Opinber áhorfendafjöldi á leiknum var 199.854 en líklega náðu margir til viðbótar að troða sér inn án miða. Telst það enn fjölsóttasti knattspyrnuleikur sögunnar og verður líklega aldrei bætt í ljósi nútímaviðmiðana um vallarhönnun og öryggisstaðla. Leikurinn sjálfur varð reiðarslag fyrir Brasilíu sem tapaði mjög óvænt og hefur nafn Maracanã upp frá því verið nokkurs konar samheiti við áfall eða reiðarslag í brasilískri þjóðarvitund.
Vettvangur stórleikja
Í Ríó er fjöldi vinsælla knattspyrnufélaga sem öll eiga sína eigin heimavelli. Fjögur þau stærstu: Vasco da Gama, Botafogo, Flamengo og Fluminense eiga þó til að færa stærstu leiki sína á Maracanã. Völlurinn hefur sömuleiðis hýst fjölda úrslitaleikja í hvers kyns héraðsmótum og brasilísku bikarkeppninnar. Af minnisstæðum atburðum mætti nefna að Pelé skoraði þar 1.000 meistaraflokksmark sitt, að talið er, í leik með Santos gegn Vasco da Gama.
Brasilía var í hlutverki gestgjafa á Copa America 1989, en keppnin hafði ekki verið haldin í landinu í 40 ár. Leikirnir í úrslitariðlinum fóru allir fram á Maracanã. Sama ár setti framherjinn Zico glæsilegt met þegar hann skoraði sitt 333. mark á leikvanginum.
Árið 1992 hrundi stúka á vellinum með þeim afleiðingum að þrír áhorfendur fórust og fimmtíu slösuðust. Beindi það athyglinni að slæmu ásigkomulagi vallarins og brýnni þörf á endurbótum.
Breytingar á 21. öldinni
Hafist var handa við víðtækar endurbætur á Maracanã árið 2000 á hálfrar aldar afmælinu. Var hann loks opnaður á ný árið 2007 og tók þá 87 þúsund manns í sæti, en ekki var lengur gert ráð fyrir áhorfendum í stæðum. Enn þurfti að ráðast í stórfelldar breytingar í aðdraganda HM 2014 og ÓL í Ríó 2016. Áhorfendaaðstaðan, sem verið hafði á tveimur hæðum var sameinuð í eina og steinsteypt þakið yfir stúkunni var fjarlægt og í staðinn kom þak úr trefjaplasti. Eftir breytinguna eru nær öll sætin á vellinum undir þaki ólíkt því sem áður var.
Ekki kom þó til þess að Brasilíumenn fengju að leika á Maracanã á HM í Brasilíu 2014. Lið þeirra beið afhroð í undanúrslitum gegn Þýskalandi og endaði því á að leika alla sína leiki á öðrum leikvöngum.
Fyrst eftir Ríó-Ólympíuleikana 2016 virtist Maracanã ætla að drabbast hratt niður, þar sem deilur um fjármál og rekstarfyrirkomulag gerðu það að verkum að enginn hirti um völlinn og spellvirkjar ollu margháttuðu tjóni á mannvirkjum.
Aðrar uppákomur
Á níunda áratugnum kepptu Brasilía og Sovétríkin landsleiki í blaki á leikvangnum. 95 þúsund manns mættu á eina þessara viðureigna sem telst heimsmet í íþróttinni.
Fjöldi tónlistarmanna hefur troðið upp á Maracanã í gegnum tíðina.
- Frank Sinatra hélt 30 ára afmælistónleika leikvangsins árið 1980 að viðstöddum 175 þúsund áhorfendum.
- Þungarokkshljómssveitin KISS hélt 137 þúsund manna tónleika á vellinum árið 1983, það mesta í sögu sveitarinnar.
- Tina Turner og Paul McCartney rötuðu bæði í heimsmetabók Guinness fyrir tónleika sína á Maracanã árin 1988 og 1992, þar sem þau fengu hvort um sig 180 þúsund áhorfendur.
Jóhannes Páll 2. páfi hélt gríðarfjölmennar messur á Maracanã í þrígang, árin 1980, 1987 og 1997.
Heimildir
- Fyrirmynd greinarinnar var „Maracanã Stadium“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 21. apríl 2024.