Matskeið
Matskeið er skeið sem er notuð til að matast með og er hluti af hefðbundnum borðbúnaði um allan heim. Matskeiðar eru notaðar til að borða spónamat eins og súpur, grauta og mjólkurmat.
Mælieining
Matskeið (skammstafað msk.) er líka mælieining, einkum notuð í mataruppskriftum. Sé ekki þörf á mikilli nákvæmni nota margir bara þá matskeið sem hendi er næst en einnig eru til staðlaðar mæliskeiðar. Stöðluð matskeið er 15 ml eða þrjár teskeiðar, nema í Ástralíu, þar er matskeiðin 20 ml eða fjórar teskeiðar.
Þegar magn er gefið upp í matskeiðum er yfirleitt átt við sléttfulla nema annað sé tekið fram. Í eldri uppskriftum er magn stundum gefið upp í barnaskeiðum og er þá átt við skeið sem er á milli teskeiðar og matskeiðar og tekur 1,5-2 teskeiðar.