Narendra Modi
Narendra Modi | |
---|---|
Forsætisráðherra Indlands | |
Núverandi | |
Tók við embætti 24. maí 2014 | |
Forseti | Pranab Mukherjee Ram Nath Kovind Droupadi Murmu |
Forveri | Manmohan Singh |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 17. september 1950 Vadnagar, Gújarat, Indlandi |
Stjórnmálaflokkur | Bharatiya Janata-flokkurinn (BJP) |
Maki | Jashodaben (g. 1968; aðskilin) |
Trúarbrögð | Hindúismi |
Undirskrift |
Narendra Damodardas Modi (f. 17. september 1950) er fjórtándi og núverandi forsætisráðherra Indlands, í embætti síðan í maí 2014. Hann var yfirráðherra Gújarat-héraðs frá 2001 til 2014 og situr á indverska þinginu fyrir Varanasi-kjördæmi. Modi er meðlimur í hægrisinnaða Bharatiya Janata-flokknum (BJP) og sjálfboðasamtökunum Rashtriya Swayamsevak Sangh (RSS). Hann er hindúskur þjóðernissinni.
Æviágrip
Modi fæddist í Vadnagar og hjálpaði föður sínum við tesölu sem drengur. Hann var kynntur fyrir RSS-hópnum þegar hann var átta ára og hóf langt starf fyrir samtökin. Hann flutti að heiman eftir að hafa lokið skólagöngu, að hluta til vegna þess að hann hafði hafnað kvonfangi sem fjölskylda hans valdi honum. Modi ferðaðist um Indland í tvö ár og lagði för sína til margra helgireita. Hann sneri aftur til Gújarat-héraðs og flutti til Ahmedabad árið 1969 eða 1970. Árið 1971 fékk hann fullt starf hjá RSS. Þegar Indira Gandhi lýsti yfir neyðarlögum árið 1975 neyddist Modi til að fara í felur. RSS veitti honum stöðu í BJP-flokknum árið 1985 og hann gegndi þar ýmsum ábyrgðarstöðum til ársins 2001, þegar hann varð aðalritari flokksins.
Modi var útnefndur forsætisráðherra indverska fylkisins Gújarat árið 2001 vegna vanheilsu Keshubhai Patel og óvinsælda eftir að jarðskjálftar höfðu skekið Bhuj. Stuttu síðar var Modi kjörinn á löggjafarþing fylkisins. Stjórn Modi í fylkinu hefur verið bendluð við uppþot og óeirðir í Gújarat árið 2002[1][2][3][4] þar sem talið er að um 2.000 manns hafi látist í kynþáttadeilum hindúa og múslima.[5][6][7] Stjórn Modi var gagnrýnd fyrir viðbrögð hennar við átökunum, en indverskum dómstólum þótti ekki nægt tilefni til þess að sækja Modi til saka.[8][9] Stefnumálum hans sem yfirráðherra héraðsins hefur verið hrósað vegna áherslu þeirra á hagvöxt og uppbyggingu sterkara efnahagskerfis.[10] Einnig var stjórn hans þó gagnrýnd fyrir að takast ekki að bæta heilsufar, fátækt og menntastig íbúanna.[11]
Modi leiddi BJP til sigurs í indversku þingkosningunum árið 2014. Flokkurinn náði hreinum þingmeirihluta, en þetta er í fyrsta skipti sem nokkrum flokki hefur tekist slíkt frá árinu 1984. Modi sjálfur var kjörinn í þingsæti Varanasi. Síðan Modi tók við embætti hefur ríkisstjórn hans reynt að auka erlendar fjárfestingar í indverska efnahagnum, aukið ríkisútgjöld til innviða landsins en dregið úr útgjöldum til velferðamála. Modi hefur beitt sér fyrir einföldun indverska stjórnsýslukerfisins og fyrir aukinni miðstýringu ríkisins. Modi hefur á stjórnartíð sinni vikið indverskum stjórnmálum talsvert til hægri. Hann er vinsæll en þó nokkuð umdeildur heima fyrir og erlendis vegna hindúskrar þjóðernishyggju sinnar og hlutverks síns í óeirðunum í Gújarat árið 2002.
Modi vann endurkjör með auknum þingmeirihluta árið 2019. Þetta var í fyrsta sinn frá árinu 1971 sem neinum flokki tókst að vinna hreinan þingmeirihluta í tveimur kosningum í röð.[12][13]
Annað kjörtímabil Modi hefur einkennst nokkuð af mótmælum gegn nýjum lögum um ríkisborgararétt sem stjórn hans setti árið 2019. Lögin veita fólki úr trúarlegum minnihlutum frá Afganistan, Pakistan og Bangladess flýtimeðferð til að öðlast indverskan ríkisborgararétt en skilja múslima frá þessum löndum út undan. Andstæðingar laganna telja hana brjóta í bága við veraldlega stjórnarskrá Indlands með því að veita sérréttindi eftir trúarbrögðum.[14]
Frá árinu 2020 mótmæltu indverskir bændur jafnframt Modi af hörku vegna umdeildra landbúnaðarlaga sem stjórn hans setti. Bændur fullyrtu að lögin væru til þess fallin að gera risafyrirtækjum kleift að sölsa undir sig indverskan landbúnað. Frá nóvember 2020 mótmæltu þúsundir bænda, einkum frá Púnjab-fylki, í kringum Nýju Delí og komu sér upp búðum í kringum borgina. Í janúar næsta ár kom til átaka milli lögreglu og mótmælenda sem brutust inn í Rauða virkið og drógu þar mótmælafána að húni.[15] Einn bóndi lést í þeim átökum og fjöldi lögreglumanna særðist. Í október 2021 létust átta mótmælendur í átökum við lögreglu í Uttar Pradesh. Langvarandi mótmæli bændanna leiddu til þess að Modi tilkynnti þann 19. nóvember að lögin umdeildu yrðu felld úr gildi.[16]
Flokkur Modi vann þriðja sigurinn í röð í þingkosningum Indlands árið 2024 en glataði hreinum þingmeirihluta sínum.[17]
Tilvísanir
- ↑ Bobbio, Tommaso (2012). "Making Gujarat Vibrant: Hindutva, development and the rise of subnationalism in India". Third World Quarterly. 33 (4): 657–672.
- ↑ Nussbaum, Martha Craven. The Clash Within: Democracy, Religious Violence, and India's Future. Harvard University Press. bls. 50–51.
- ↑ Shani, Orrit (2007). Communalism, Caste and Hindu Nationalism. Cambridge University Press. pp. 168–173.
- ↑ Buncombe, Andrew (19. september 2011). „A rebirth dogged by controversy“. The Independent. London. Sótt 10. október 2012.
- ↑ Setalvad, Teesta. „Talk by Teesta Setalvad at Ramjas college (March 2017)“. www.youtube.com. You tube. Sótt 4. júlí 2017.
- ↑ Jaffrelot, Christophe (júlí 2003). „Communal Riots in Gujarat: The State at Risk?“ (PDF). Heidelberg Papers in South Asian and Comparative Politics: 16. Sótt 5. nóvember 2013.
- ↑ The Ethics of Terrorism: Innovative Approaches from an International Perspective. Charles C Thomas Publisher. 2009. bls. 28. ISBN 9780398079956.
- ↑ „India Gujarat Chief Minister Modi cleared in riots case“. BBC. 10. apríl 2012. Sótt 17. febrúar 2017.
- ↑ „SIT finds no proof against Modi, says court“. The Hindu. 10. apríl 2012. Sótt 17. febrúar 2017.
- ↑ Joseph, Manu (15. febrúar 2012). „Shaking Off the Horror of the Past in India“. The New York Times. ISSN 0362-4331. Sótt 19. maí 2017.
- ↑ Jaffrelot, Christophe (June 2013). "Gujarat Elections: The Sub-Text of Modi's 'Hattrick'—High Tech Populism and the 'Neo-middle Class'". Studies in Indian Politics. 1 (1): 79–95.
- ↑ Kristján Róbert Kristjánsson (23. maí 2019). „Modi sigurvegari kosninganna á Indlandi“. RÚV. Sótt 2. júní 2019.
- ↑ Andri Eysteinsson (30. maí 2019). „Modi sór embættiseið eftir stórsigur í indversku þingkosningunum“. Vísir. Sótt 2. júní 2019.
- ↑ Kristján Róbert Kristjánsson (16. desember 2019). „Mótmæli breiðast út á Indlandi“. RÚV. Sótt 9. mars 2020.
- ↑ Samúel Karl Ólason (26. janúar 2021). „Mótmæli bænda urðu að óeirðum“. Vísir. Sótt 19. nóvember 2021.
- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (19. nóvember 2021). „Umdeild landbúnaðarlög á Indlandi slegin af“. RÚV. Sótt 19. nóvember 2021.
- ↑ Rafn Ágúst Ragnarsson (4. júní 2024). „Narendra Modi lýsir yfir sigri á Indlandi“. Vísir. Sótt 13. júní 2024.
Fyrirrennari: Manmohan Singh |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |