Orrustan við Tours

Orrustan við Tours, málverk eftir Charles de Steuben frá 1834-7

Orrustan við Tours var orrusta milli herja Franka og Ommejada á hæð milli Poitiers og Tours í miðju Frakklandi í október árið 732. Frankaherinn var undir stjórn ástrasíska hallarbrytans Karls hamars en her múslima undir stjórn Abdul Rahman Al Ghafiqi landstjóra í al-Andalus. Frankaherinn var eingöngu skipaður fótgönguliðum en þar sem Abdul Rahman hafði ekki gert ráð fyrir öflugum her úr norðri tókst Karli að skipa her sínum á skógi vaxinni hæð milli innrásarhersins og Tours sem þeir hugðust ræna. Þannig varð illmögulegt fyrir þungvopnað riddaralið múslima að hleypa inn í Frankaherinn. Í einu áhlaupinu var Abdul Rahman drepinn og þegar fréttist að útsendarar Karls væru að ræna ránsfeng riddaranna og frelsa þræla þeirra í tjaldbúðunum flýttu margir þeirra sér úr bardaganum sem fljótt breyttist í allsherjarundanhald. Nóttina eftir flúði Ommejada-herinn með þann ránsfeng sem þeir gátu borið aftur til Spánar. Ekki er vitað hve stórir herirnir voru en flestir nútímasagnfræðingar telja að Ommejada-herinn hafi verið mun stærri en Frankaherinn þótt ekki sé vitað hversu mikið stærri.

Kristnir sagnaritarar frá síðari öldum og allt fram á 20. öld hafa gjarnan viljað túlka orrustuna við Tours sem vatnaskil í sögu Evrópu þar sem framrás íslam inn í Evrópu hafi verið stöðvuð. Víst er að Karl hamar lagði í orrustunni grunninn að veldi Karlunga og Karlungaveldið hafði síðan mikil áhrif á framtíð vesturhluta álfunnar. Viðurnefnið „hamar“ (Martellus) fékk hann fyrst í ritum 9. aldar sagnaritara.

Næstu ár reyndu Ommejadar aftur að gera innrás í Suður-Frakkland en voru ávallt stöðvaðir af herjum Franka. Eftir það kom ósætti og átök milli ráðamanna í al-Andalus í veg fyrir frekari innrásir.

Tenglar

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.