Parísarkommúnan

Götuvígi í París 18. mars 1871.

Parísarkommúnan einnig verið kölluð Fjórða franska byltingin, var stjórn sem ríkti í París tímabilið 18. mars (formlega 26. mars) til 28. maí 1871. Hún ríkti áður en klofningur varð milli stjórnleysingja og marxista og henni var hampað af báðum hreyfingunum sem fyrstu tilrauninni til þess að koma á stjórn almennings á tíma iðnbyltingarinnar. Ágreiningur um pólitískar áherslur og túlkun á því hvernig til tókst með stjórn Parísarkommúnunnar voru ein af ástæðum þess að leiðir þessarra tveggja hreyfinga skildu.

Forsagan

Eftir stríð Frakklands, undir stjórn Napóleons 3., við Prússa var mikill órói í Frakklandi. Bilið milli ríkra og fátækra hafði aukist og um leið óánægja og uppreisnarhugur þeirra fátækustu. Í anda stjórnleysisstefnu og sósíalisma setti almúgi Parísarborgar fram kröfur um að borgin stýrði sér sjálf með kommúnu, valinni af íbúunum sjálfum.

Heimavarnarliðið yfirtekur borgina

Tugþúsundir Parísarbúa voru þegar vopnum búnir sem heimavarnarlið sem hafði varið borgina fyrir prússneska hernum. Eftir að Prússar fóru hélt heimavarnarliðið ennþá vopnum sínum þar á meðal þungavopnum eins og fallbyssunum. Ríkisstjórn Frakklands sendi þá herflokka til að afvopna Parísarbúa. Herinn sem sendur var á vettvang var þó hliðhollur Parísarbúum og gerði uppreisn gegn yfirboðurum sínum og gekk til liðs við heimavarnarliðið.

Stjórn kommúnunnar

Í kjölfarið skipulagði kommúnan kosningar þar sem almenningur valdi fulltrúa úr sínum eigin röðum. Ýmis nýmæli voru sett í reglur um fulltrúana svo sem að embætti fulltrúa væri afturkallanlegt færu þeir að misnota stöðu sína. Innan kommúnunnar voru fulltrúar róttækra afla þess tíma, eins og stjórnleysingja, sósíalista og frjálslyndra lýðræðissinna, en þrátt fyrir ólíkar áherslur náðist samkomulag um viðhald félagslegrar þjónustu fyrir þær tvær milljónir sem bjuggu í borginni.

Umbætur

Stjórn kommúnunnar kom á ýmsum umbótum eins og bættum aðstæðum vinnandi fólks með minna vinnuálagi og bótum til þeirra sem áttu um sárt að binda vegna fátæktar og stríðshörmunga. Trúarbrögð voru gerð útlæg úr skólum og einu kirkjurnar sem fengu að starfa voru þær sem einnig voru opnar sem miðstöðvar fyrir íbúafundi og gegndu þær þannig mikilvægu hlutverki. Margskyns aðrar félagslegar umbætur og breytingar voru gerðar eins og til dæmis að almennir verkamenn tóku yfir verk framkvæmdastjóra og sérfræðinga sem hraktir höfðu verið á brott eða flúið borgina.

Endalokin

Parísarkommúnan ríkti aðeins í nokkrar vikur en þá sendi franska ríkistjórnin her til borgarinnar og eftir um það bil mánaðar bardaga vann hann bug á heimavarnarliðinu og tók yfir stjórn borgarinnar aftur og stjórn Parísarkommúnunar leið undir lok.

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.