Peter Raben

Peter Raben (um 166129. september 1727) var danskur sjóliðsforingi sem var stiftamtmaður á Íslandi frá 1719 til dauðadags og var eini stiftamtmaðurinn sem nokkru sinni kom til landsins, allt þar til Thodal tók við embættinu árið 1770. Dvöl hans var þó ekki löng.

Raben var líklega fæddur í Haderslev í Danmörku. Hann gekk í danska flotann 1681, þjónaði svo í hollenska flotanum og fór eina ferð til Miðjarðarhafs. Um tíma var hann á frönskum kaupskipum en fór síðan aftur í hollenska flotann og tók þátt í ýmsum sjóorrustum. Í árslok 1687 var hann um tíma á spænskum galeiðum í austanverðu Miðjarðarhafi, brá sér svo heim til Danmerkur en var innan tíðar farinn að þjóna í franska flotanum. Hann hafði því aflað sér mikillar reynslu og var gerður að skipstjóra á dönsku vaktskipi á Eyrarsundi 1691.

Hann fór sem aðstoðarmaður Ulrik Christian Gyldenløve, hálfbróður Friðriks 4., í námsferð hans til Spánar með franska flotanum og þegar Gyldenløve tók við stjórn danska sjóhersins árið 1700, eftir að Jens Juel yfiraðmíráll veiktist, stóð til að Raben yrði skipstjóri forystuskips hans en hinn dauðvona Juel réði Friðriki 4. konungi frá því og sagði Raben mjög óvinsælan. Fékk hann þá skipstjórn á einu herskipanna og gat sér gott orð í stríðsátökum sem í hönd fóru. Hann var aðlaður í kjölfarið, árið 1701.

Næstu ár gegndi hann ýmsum embættum og trúnaðarstörfum og þótti standa sig vel; hann var sagður metnaðargjarn en mjög duglegur og drífandi maður. Seinna er þó sagt að tilhneiging hans til baktjaldamakks hafi yfirskyggt kosti hans.

Þegar Norðurlandaófriðurinn mikli hófst fékk Raben nóg að starfa og hækkaði brátt í tign. Hann var gerður að varaaðmírál 1710, stýrði níu skipum á Eystrasalti og hrakti sænsk herskip á flótta. Hann var gerður að aðmírál 1714 og tók við yfirstjórn alls flotans af Gyldenløve en veiktist nokkru síðar og tók Gyldenløve þá aftur við. Raben varð aftur æðsti foringi flotans þegar Gyldenløve lést af sárum sem hann hlaut í sjóorrustu 8. desember 1719 og þann 6. mars 1720 fékk hann embætti stiftamtmanns á Íslandi og í Færeyjum, sem Gyldenløve hafði haft.

Hann sigldi til Íslands um vorið á freigátunni Søridderen og kom til Hafnarfjarðar en dvöl hans var stutt og hann fór ekki á Alþingi. Hann kynnti sér meðal annars húsakynni á Bessastöðum og þótti lítið til koma og þegar hann kom aftur til Danmerkur skrifaði hann konungi og fór fram á að byggður yrði nýr embættisbústaður þar, sendi teikingu af hinum bágbornu húsakynnum og teikningu af tillögu sinni um úrbætur. Þegar heim var komið hóf Raben líka gerð Íslandskorts. Því verki lauk þó ekki en Raben kom því til leiðar að hafnar voru reglulegar landmælingar á Íslandi og skyldi gert „land- og sjókort hans hátign til ánægju“.

Raben kom ekki aftur til Íslands og lést 29. september 1727. Kona hans var Elline Marie Robring (d. 1735).

Heimildir