Pierre fæddist í París og var í heimanámi hjá föður sínum fyrstu ár ævi sinnar. Snemma sýndi hann mikla hæfileika í stærðfræði og rúmfræði og á 18. ári hafði hann lokið námi sem samsvaraði háskólaprófi en fór ekki beint áfram í doktorsnám vegna skorts á fjármagni. Þess í stað fór hann að vinna sem aðstoðarmaður í rannsóknarstofu í Sorbonne.
1880 tókst Pierre og eldri bróður hans Jacques að sýna fram á að ákveðnar gerðir kristalla mynduðu rafspennu ef þrýstingi var beitt á þá, og nefnast þessi áhrif þrýstirahrif. Ári seinna sýndu þeir fram á hið gagnstæða, að kristallar gætu afmyndast þegar þeir væru settir í rafsvið. Næstum öll nútímatækni byggist á þessum hrifum því hægt er að gera góða sveifla með nokkuð nákvæmnri tíðni með því að nota þessi efni.
Áður en Pierre lauk rannsóknum sínum á sviði segulfræði, sem hann fékk doktorsgráðu fyrir, hannaði hann mjög nákvæmna snúningsvog sem hann notaði til að mæla fasta í segulfræði. Mismunandi útgáfur af þessu tæki urðu vinsæl mælitæki innan segulfræðinnar. Hann rannsakaði járnseglun, meðseglun og mótseglun fyrir doktorsnám sitt og uppgötvaði áhrif hitastigs á meðseglun sem í dag er þekkt sem lögmál Curies. Hann uppgötvaði einnig að járnseglandi efni breyttu seguleiginleikum sínum við ákveðið hitastig og er þetta hitastig nefnt eftir honum, Curie-markið.
Pierre giftist Marie Sklodowska25. júlí árið 1895 og hófst þar með vísindasamstarf sem átti eftir að gerbylta heiminum. Fyrsta sameiginlega afrek þeirra var að einangra bæði pólón og radín.
Önnur afrek Pierres voru uppgötvun á stöðugri útgeislun varma frá radíni og rannsóknir á eiginleikum geislavirkni. Með notkun segulsviðs komst hann að því að sum útgeislun var jákvætt hlaðin, sum neikvætt hlaðin og restin með enga hleðslu. Rutherford nefndi þessar agnir síðar alpha, beta og gamma.
Einingin curie fyrir geislavirkni er nefnd eftir hjónunum og samsvarar 3,7 1010 hrörnunum á sekúndu.
Pierre var orðinn veiklulegur um þetta leyti af völdum geislaveiki, en áhrif geislavirkni á líkamann voru ekki þekkt á þessum tíma. Hann þurfti þó ekki að veslast upp og deyja af þeim sökum, því að hann lenti í slysi árið 1906 sem varð honum að aldurtila. Marie Curie, kona hans, lést hinsvegar af geislaveiki.
Pierre og Marie eignuðust tvær dætur og varð önnur þeirra, Irène Joliot-Curie merkur eðlisfræðingur. Hin dóttirin, Eva, giftist H. R. Labouisse sem tók við friðarverðlaunum Nóbels fyrir hönd BarnahjálparSameinuðu þjóðanna árið 1965 sem hann var forstöðumaður fyrir. Eva ritaði ævisögu móður sinnar. Sagan var þýdd á íslensku af Kristínu Ólafsdóttur lækni, heitir Frú Curie, og kom út hjá Ísafoldarprentsmiðju árið 1939.