Ricimer

Einkennismerki Ricimers á bakhlið myntar sem slegin var í keisaratíð Libíusar Severusar

Flavíus Ricimer (um 418 - ágúst 472) var germanskur herforingi og einn valdamesti maður Vestrómverska keisaradæmisins uppúr miðri 5. öld. Ricimer varð æðsti yfirmaður herafla keisaradæmisins árið 457 og í rúman áratug, frá 461 til 472, var hann hinn raunverulegi stjórnandi ríkisins. Á þessum tíma ákvað hann hvaða menn yrðu keisarar en hann settist ekki sjálfur á keisarastól þar sem hann var ekki Rómverji heldur „barbari“. Valdatimi Ricimers einkenndist af stöðugri hnignun Vestrómverska keisaradæmisins og landamæri ríkisins drógust saman á þessum tíma. Herstyrkur fyrrum heimsveldisins fór sífellt þverrandi og germanskar þjóðir stofnuðu ríki innan fyrrum landamæra þess. Ricimer lést árið 472 og nokkrum árum síðar, árið 476, var Vestrómverska keisaradæmið leyst upp.

Ævi

Ekki er vitað hvenær Ricimer var fæddur en áætlað hefur verið að það hafi verið í kring um árið 418. Ricimer var af svefískum og vestgotneskum ættum og talið er að gifting foreldra hans hafi verið liður í valdatafli þessara tveggja þjóðflokka. Fjölskylda Ricimers er talin hafa verið í þjónustu Vestrómverska ríkisins og Ricimer náði frama í her ríkisins undir stjórn herforingjans Flavíusar Aetíusar. Árið 454 myrti keisarinn Valentiníanus 3. Flavíus Aetíus, sem þá var æðsti yfirmaður herafla ríkisins, og árið eftir var Valentiníanus sjálfur myrtur af stuðningsmönnum Aetíusar. Síðar sama ár hertóku Vandalar Rómaborg í tvær vikur og rændu miklum verðmætum og ollu mikilli eyðileggingu.

Eftir þessa atburði var töluverð ringulreið i valdakerfi ríkisins, sem endaði með því að herforinginn Majoríanus var hylltur sem keisari árið 457. Ricimer studdi Majoríanus og varð sjálfur yfirmaður herafla ríkisins (magister militum), auk þess sem hann hlaut titilinn patricius (aðalsmaður). Ricimer virðist hafa reynt að stjórna ríkinu á bak við tjöldin í keisaratíð Majoríanusar en sá síðarnefndi sýndi fljótlega að hann var hæfur keisari og leiddi sjálfur her ríkisins til sigurs í nokkrum orrustum gegn germönskum þjóðflokkum. Eftir að áætlanir Majoríanusar um innrás í ríki Vandala í norður-Afríku urðu að engu, þegar floti hans var lagður í rúst, greip Ricimer tækifærið og handtók keisarann og lét taka hann af lífi, árið 461. Stuttu eftir dauða Majoríanusar misstu Vestrómverjar völd sín í Hispaníu og Septimaníu í hendur Vestgota.

Eftir dauða Majoríanusar skipaði Ricimer öldungaráðsmanninn Libíus Severus sem keisara, en stjórnaði þó i raun sjálfur ríkinu. Herforingjarnir Aegidíus (í norður-Gallíu) og Marcellínus (í Dalmatíu) neituðu að viðurkenna vald nýja keisarans og stjórnuðu sínum svæðum í raun sjálfstætt. Keisari Austrómverska ríkisins, Leó 1., neitaði einnig að viðurkenna Severus og það olli Ricimer ákveðnum vandræðum þar sem Austrómverjar neituðu að aðstoða Vestrómverja í baráttu gegn stöðugum árásum Vandala á strandsvæði Ítalíu. Libíus Severus lést árið 465 og að sögn fornra sagnaritara lét Ricimer eitra fyrir honum. Í tvö ár eftir dauða Severusar stjórnaði Ricimer ríkinu, frá Rómaborg, án þess að skipa nýjan keisara, en árið 467 samþykkti hann, sem nýjan keisara, Anþemíus sem Leó 1. hafði tilnefnt. Í kjölfarið var sameiginleg árás Austrómverja og Vestrómverja í ríki Vandala skipulögð og gríðarstór floti sigldi frá Konstantínópel til norður-Afríku, árið 468, með það að markmiði að hertaka Karþagó. Við lendingu í norður-Afríku mættu Vandalar með sinn flota og í orrustunni við Bon höfða náðu Vandalar að sökkva stórum hluta rómverska flotans og árásin dó út. Þessi útkoma var gríðarlegt áfall fyrir bæði keisaradæmin og er gjarnan álitin hafa gert út um allar vonir um að bjarga Vestrómverska keisaradæminu. Anþemíus reyndist Ricimer ekki jafn leiðitamur og Libíus Severus og deilur þeirra á milli urðu til þess að Ricimer yfirgaf Rómaborg, árið 470, með stóran herafla með sér, og hélt til Mediolanum (núverandi Mílanó), á meðan Anþemíus var um kyrrt í Róm. Árið 472 snéri Ricimer aftur til Rómar og gerði umsátur um borgina. Umsátrið stóð yfir í nokkra mánuði en að lokum komst Ricimer með hermenn sína inn í borgina og Anþemíus var drepinn, þann 11. júlí, er hann reyndi að flýja. Í kjölfarið skipaði Ricimer Olybríus sem keisara en aðeins rúmum mánuði seinna lést Ricimer eftir miklar blæðingar.