Rothenburg ob der Tauber

Rothenburg
Skjaldarmerki Rothenburg
Staðsetning Rothenburg
SambandslandBæjaraland
Flatarmál
 • Samtals41,45 km2
Hæð yfir sjávarmáli
430 m
Mannfjöldi
 • Samtals10.926 (31 des 2.013)
 • Þéttleiki264/km2
Vefsíðawww.rothenburg.de
Húsið Plönlein milli tveggja borgarhliða
Heilaga blóð altaristaflan
Hægt er að ganga á borgarmúrunum hringínn í kringum bæinn
Ráðhúsið

Rothenburg ob der Tauber er frægasti og þekktasti miðaldarbær Þýskalands. Sökum hins gamla miðbæjarkjarna og borgarmúra, sem enn ganga umhverfis bæinn allan, er bærinn einn mest sótti ferðamannastaður Þýskalands. Íbúar eru aðeins rúm 10.926 (31. des 2013).

Lega

Rothenburg liggur við ána Tauber nær norðvestast í Bæjaralandi, við fylkismörkin að Baden-Württemberg. Næstu borgir eru Nürnberg fyrir austan (50 km), Würzburg fyrir norðvestan (40 km) og Ulm fyrir sunnan (70 km).

Saga Rothenburg

Í upphafi var reist greifavirki á staðnum á 10. öld. Þegar greifalínan dó út 1108, erfðu greifarnir af Comburg-Rothenburg virkið og nefndu þeir það Rothenburg ob der Tauber, enda stóð virkið fyrir ofan ána Tauber. Virkið sjálft eyðilagðist í jarðskjálfta 1356. Þá eignaðist keisari virkið, sem léði það frænda sínum Konráði III. Hann varð konungur þýska ríkisins 1137 og bjó til skamms tíma í Rothenburg. Árið 1274 gerði konungurinn Rúdolf af Habsborg Rothenburg að fríborg í ríkinu og hélt borgin þann status allt til 1803. Árið 1631 hertók Tilly borgina í 30 ára stríðinu. Til er þjóðsaga um ástæðu þess að Tilly þyrmdi borginni. Þegar hann dæmdi borgarráðið til dauða og fyrirskipaði að ræna skyldi borgina og brenna hana, var honum gefið vín í stóru, lituðu glasi (3¼ lítra). Þetta mildaði herstjórann svo að hann tilkynnti að ef einhver treysti sér til að drekka glasið í botn í einum teig, skyldi borginni (og borgarráðinu) þyrmt. Gamli borgarstjórinn, Georg Nusch, steig þá fram og bauðst til þess að reyna. Öllum til mikillar undrunar drakk hann glasið í botn í einum teig og bjargaði hann þar með borginni og lífi sínu. Síðan þá hefur árlega farið fram hátíð í bænum til að minnast þess (kölluð Meistertrunk). Árið 1803 missti Rothenburg fríborgarstatus sinn og var innlimað í konungsríkið Bæjaraland. Um aldamótin 1900 lá ferðamannastraumur til bæjarins og hefur gert síðan. Þótt Rothenburg hafði enga hernaðarlega þýðingu í seinna stríðinu, var bærinn samt sem áður fyrir loftárásum Bandaríkjamanna 31. mars 1945. Skotspónn þeirra var reyndar annar bær, en sökum þoku var ekki hægt að gera loftárásir þar. Því var Rothenburg valið sem varaskotmark. 40% bæjarins eyðilagðist, þó aðallega nýrri hlutar hans. Miðbærinn slapp að mestu. Löngu eftir stríð sögðu flugmennirnir að þeir hefðu ekki haft hugmynd um hvaða menningarleg verðmæti þeir gerðu árás á. Bandaríkin studdu viðgerðir og enduruppreisn bæjarins með örlátum fjárstyrkjum.

Byggingar og kennileiti

Í Rothenburg eru tugir gamalla bygginga frá liðnum öldum, bæði íbúðarhús og önnur mannvirki. Sökum þess að Rothenburg er mikill ferðamannastaður, hefur mörgum húsum verið breytt í veitingastaði og verslanir. Eitt þekktasta íbúðarhúsið kallast Plönlein en tvenn borgarhlið eru hvort sínu megin.

Jakobskirkjan

Stærsta staka byggingin í miðbænum er Jakobskirkjan (á þýsku:St. Jakob). Hún var reist 13111484 og vígð 1485. Í upphafi var kirkjan kaþólsk en við siðaskiptin varð hún lútersk og svo er enn. Í kirkjunni eru mýmörg listaverk. Þeirra helst er altaristaflan Heilaga blóðið (Heiligblut) í kórnum. Hún var smíðuð af þýska myndhöggvaranum Tilman Riemenschneider 15001505 og sýnir síðustu kvöldmáltíðina. Í krossi altaristöflunnar er helgigripur, stakur blóðdropi, sem sagður er vera úr víninu sem Jesús gaf postulum sínum og breyttist í blóð hans (skv. kaþólskri trú). Óvenjulegt við útskurðinn af kvöldmáltíðinni er að þar er Júdas í forgrunni, ekki Jesús. Hægt er að taka Júdas út og þá kemur Jóhannes í ljós, sem og helgiskrínið þar sem blóðdropinn er geymdur.

Borgarmúrar

Hinir gömlu miðaldaborgarmúrar standa enn í kringum allan miðbæinn. Þeir hafa hvorki verið rifnir né færðir til að skapa byggingapláss. Á vissum stöðum skaga varðturnar hátt í loftið og mýmörg borgarhlið eru hringinn í kringum miðbæinn. Þrátt fyrir það komast bílar í miðbæinn en aðeins flutningabílar eru leyfðir (ásamt lögreglu, sjúkra- og slökkvibíla). Hægt er að ganga uppi á borgarmúrunum hringinn í kringum miðbæinn. Hringurinn er tæpur 8 km langur.

Ráðhúsið

Ráðhúsið í Rothenburg eru tvær sambyggðar byggingar. Eldri hlutinn er hvít bygging í gotneskum stíl frá 1250. Hún skartar 60 metra háum turni. Fyrir framan er nýrri bygging frá 16. öld í endurreisnarstíl. Á framhliðinni er súlnagangur og svalir í barokkstíl.

Kvikmyndir

Miðaldarbærinn Rothenburg er gjarnan notaður í kvikmyndir, bæði þýskar og erlendar. Ein sú þekktasta er ævintýra- og söngvamyndin Kittý Kittý Bang Bang (með Dick van Dyke).

Myndasafn

Heimildir

Fyrirmynd greinarinnar var „Rothenburg ob der Tauber“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt janúar 2010.