Sílenar
Sílenar eru náskyldir satýrum í grískri goðafræði.
Þeir eru drykkfeldir, hafa hestseyru og tögl. Í fyrstu hugsuðu menn sér aðeins einn Sílenos: sköllóttan öldung og loðbrjóstaðan, feitan og ávalan eins og vínbelg. Hann ól upp Díonýsos. Er fæturnir fengu ekki framar borið hann, reið hann á asna í fylgdarliði guðsins, og studdu hann Satýrar. Guðinn hafði á honum hinar mestu mætur. Einu sinni villtist Sílenos í ölæði inn í garða Mídasar konung í Frygíu. Konungur færði Díonýsosi hinn vínelska öldung, og hlaut hann að launum eina ósk. Mídas var vellauðugur, en eftir því ágjarn. Óskaði hann sér þess, að allt sem hann snerti við, yrði að gulli. Óskin rættist og það svo hatrammlega, að brauðið, vatnið og allt, sem hann ætlaði að neyta, varð að gulli. Í angist sinni bað hann Díonýsos að losa sig undan þessu böli. Skipaði guðinn honum að baða sig í fljótinu Paktolos. Síðan ber fljót það fram gullsand.
Marsyas, einn af Sílenum, fann upp hljóðpípuna. Að vísu segja attískar sagnir, að Aþena hafi fundið hana upp, en kastað henni brott, af því að hljóðpípuleikurinn afskræmdi á henni munninn. Hafi þá Marsyas fundið hljóðfæri þetta og þreytt kappi við Apollon um sönglegar íþróttir. Í refsingarskyni fyrir fífldirfskuna hefði guðinn svo flegið hann lifandi.
Heimildir
- Jón Gíslason, Goðafræði Grikkja og Rómverja