Sagan af Genji

Elsta varðveitta handrit sögunnar, frá 12. öld.

Sagan af Genji er japanskt bókmenntaverk sem er eignað japönsku yfirstéttarkonunni Murasaki Shikibu og er frá fyrri hluta 11. aldar. Upprunalega handritið, skrifað á Heiantímabilinu sem orihon-bók (í harmonikkubroti), er ekki lengur til. Sagan er einstök heimild um hirðsiði og lífshætti hirðfólks á Heiantímabilinu. Hún er rituð á fornlegu og ljóðrænu máli sem er óskiljanlegt Japönum nútímans án undirbúnings. Genji var fyrst þýdd á nútímajapönsku af skáldinu Akiko Yosano í upphafi 20. aldar.

Sagan snýst um líf hirðmannsins Hikaru Genji sem er sonur Japanskeisara og lágt settrar hjákonu, Kiritsubo. Genji er fjarlægður úr erfðaröðinni af pólitískum ástæðum og lækkaður í tign. Hann fær ættarnafnið Minamoto og hefur störf sem embættismaður. Sagan segir frá ástarlífi Genjis og lýsir um leið siðum japanska aðalsins á þeim tíma. Sagan er stundum nefnd sem fyrsta skáldsaga heims, með því að segja frá innra lífi sögupersónanna.

  Þessi bókmenntagrein sem tengist Japan er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.