Skuldabréf

Skuldabréf er skrifleg yfirlýsing þar sem útgefandi viðurkennir einhliða og skilyrðislaust skyldu sína til að greiða ákveðna peningagreiðslu.[1][2] Þeir sem gefa út skuldabréf eru yfirleitt fyrirtæki og opinberir aðilar og eru skilmálar skuldabréfa ætíð ákveðnir fyrirfram með tilliti til endurgreiðslu og vaxta, sem annaðhvort eru fastir eða breytilegir. Ýmsar leiðir eru farnar til að tryggja að skuldari gangi ekki á bak orða sinna og ýmist eru fasteignir lagðar að veði eða ábyrgðarmenn tilgreindir. Skuldabréf eru skuldbinding til endurgreiðslu höfuðstóls ásamt ákveðnum vöxtum á tilgreindum tíma.

Ríkisskuldabréf

Sjá einnig grein: ríkisskuldabréf og verðbréf

Ríkisskuldabréf gefur ríkið út til að fjármagna rekstur sinn að hluta, sem er einn af þeim tekjustofnum sem hægt er að grípa til, auk skattstofna og annara tekjuliða. Þessi verðbréf eru í dag kölluð ríkisbréf, sem ætluð eru til langs tíma og ríkisvíxlar, sem ætlaðir eru til skemmri tíma en eins árs. Þessi bréf eru óverðtryggð og bera ýmist fasta vexti á fyrirfram gefnu tímabili eða breytilega vexti, sem geta breyst á tímabilinu. Fyrirkomulag þessarar útgáfu hefur verið talinn góður kostur fyrir almenning sem sparnaðarleið, enda höfuðstóllinn ríkistryggður, en einnig hafa ríkisskuldabréf verið vænlegur kostur fyrir fjárfesta sem vilja ,,geyma“ fé sitt þar sem áhætta telst minni en á almennum hlutabréfamarkaði, á bankabók osfrv[3].

Helstu tegundir skuldabréfa

Ýmsar tegundir skuldabréfa eru í boði sem kveða á um mismunandi lánstíma og vaxtastig.

Víxlar

Eru skammtímalán, ætluð til skemmri tíma en eins árs. Víxlar eru að jafnaði óverðtryggðir og algengt er að þeir séu til eins eða fárra manaða í senn. Vextir á víxlum eru greiddir í upphafi lánstímans vegna svokallaðra forvaxta, sem víxlar bera. Sú vaxtagreiðsla dregst frá upphaflegum höfuðstól og fær lánþeginn mismuninn. Miðað við 10% forvexti á 90 daga víxli, sem nemur 100.000 kr. yrði kaupverð hans 97.645 kr. [4]

Skuldabréf með vaxtamiðum

Algengustu skuldabréfin í heiminum eru skuldabréf með vaxtamiðum. Vextir þeirra eru greiddir reglulega út lánstímann. Á síðasta vaxtagjalddaga er upphaflega lánsfjárhæð að auki greidd.[4]

Eingreiðslubréf

Eru stundum nefnd kúlulán, greiðast að fullu í lok lánstímans með uppgreiðslu höfuðstóls og vaxta auk vaxtavaxta. Vaxtavextir greiðast af vöxtum, sem hafa lagst við höfuðstól.[4]

Spariskírteini ríkissjóðs

Spariskírteini ríkissjóðs eru dæmi um eingreiðslubréf, sem eru algengustu skuldabréfin á Íslandi.[4]

Skuldabréf með jöfnum afborgunum

Skuldabréf með jöfnum afborgunum eru greidd til baka með jöfnum greiðslum af upphaflegum höfuðstól. Vaxtagreiðslur á þannig skuldabréfi eru hæstar í upphafi endurgreiðslutímabilsins en lækka síðan samhliða lækkandi höfuðstól. Afborganir af þessum skuldabréfum geta bæði verið með reglulegu og óreglulegu tímabili.[4]

Jafngreiðslubréf

Jafngreiðslubréf með reglulegum afborgunum dreifa afborgunum höfuðstóls og vaxta jafnt út lánstímann. Í fyrstu eru vaxtagreiðslur hátt hlutfall endurgreiðslu af slíku bréfi en greiðsla af höfuðstól er lág. Hlutfall höfuðstóls í endurgreiðslu eykst þegar líður á lánstímann og vaxtahlutfall lækkar. Lán Byggingarsjóðs ríkisins eru dæmi um jafngreiðslubréf.[4]

Víkjandi skuldabréf

Víkjandi skuldabréf víkja þegar aðrar kröfur eru gerðar á útgefandann. Endurgreiðsla skuldabréfanna er oftast í formi eingreiðslu, en einnig með öðrum aðferðum.

Slíkar skuldir flokkast með eigin fé en ekki skuldum, þegar þær eru færðar í efnahagsreikning fyrirtækja.[4]

Fasteignatryggð skuldabréf

Fasteignatryggð skuldabréf eru tryggð með veði í fasteign. Nái útgefandinn ekki að greiða skuldina á réttum tíma getur eigandi skuldabréfsinsins gengið að fasteignaveðinu og er fasteignin þá selda á uppboði. Andvirðið gengur síðan upp í skuldina. Margar leiðir eru færar til þess að greiða fasteignatryggð skuldabréf.[4]

Skuldabréf með breytilegum vöxtum

Skuldabréf með breytilegum vöxtum hafa breytilega vexti sem taka mið af ákveðnum viðmiðum, meðalvexti Seðlabanka Íslands ofl. Eigandi skuldabréfsins getur því átt von á að vaxtagreiðslur geti breyst á milli gjalddaga. Flest skuldabréfalán einstaklinga bera breytilega vexti og eru oftast ekki fáanleg á almennum skuldabréfamarkaði.[4]

Breytanleg skuldabréf

Breytanleg skuldabréf eru gefin út af hlutafélögum og þeim má breyta í hlutabréf á ákveðnu gengi. Það gengi er í mörgum tilvikum nokkuð hærra en gengi hlutabréfs við útgáfu skuldabréfsins. Vextir venjulegra skuldabréfa eru aftur á móti oft hærri en vextir breytilegra skuldabréfa. Ef markaðsverð hlutabréfa viðkomandi fyrirtækis hækkar umfram viðmiðunarverð, samkvæmt skilmálum skuldabréfsins, getur eigandi skuldabréfsins ákveðið að breyta því í hlutabréf eða valið að eiga skuldabréfið áfram til gjalddaga.[4]

Eigandi skuldabréfsins fengi þannig hlutabréf á lægra verði en á markaðsvirði, kysi hann svo, og getur innleyst gengishagnað strax, selji hann hlutabréfin í kjölfarið.

Innkallanleg skuldabréf

Slík bréf er hægt að innkalla fyrir endanlega gjalddaga þess. Eigandi bréfsins hefur einnig rétt til þess að krefja skuldarann um greiðslu áður en að endanlegum gjalddaga kemur. Innlausn eða innköllun er heimil einu sinni á ári á ákveðinni dagsetningu. Nokkrir flokkar spariskírteina ríkissjóðs eru dæmi um slíkt.[4]

Verðtryggð skuldabréf

Fyrstu verðtryggðu lánin sem vitað er um, voru gefin út árið 1780 af bandarísku fyrirtæki og útgáfa verðtryggðra ríkisskuldabréfa og fyrirtækjabréfa á sér stað í nánast öllum þróuðum löndum í heiminum.

Höfuðstóll verðtryggðra skuldabréfa breytist í takt við verðlag. Af þeim sökum eru nafnvextir verðtryggðra lána lægri en óverðtryggðra lána, sem nemur verðbólguvæntingum á ári út lánstímann.

Raungreiðslubyrði verðtryggðra lána helst því tiltölulega stöðug út lánstímann, en getur verið mjög sveiflukennd út lánstíma óverðtryggðra lána.[4]

Helstu einkenni skuldabréfa

Til eru allmargar tegundir af skuldabréfum og nýjar eru sífellt að verða til. Gefið yfirlit yfir þær og helstu og einkenni þeirra. All flestar eru þekktar á Íslandi en aðrar minna þekktar, en geta verið algengar erlendis[4].

Tegund skuldabréfs Sérkenni
Víxlar Skammtímaskuldabréf sem bera forvexti.
Skuldabréf með vaxtamiðum Vextir eru greiddir reglulega á lánstíma bréfsins
Eingreiðslubréf / kúlubréf Vextir, vaxtavextir og höfuðstóll greiðast í lok lánstímans.
Skuldabréf með jöfnum afborgunum Höfuðstóll greiðist með jöfnum afborgunum.
Jafngreiðslubréf / annuitetsbréf Endurgreiðsla höfuðstóls og vaxta er jöfn allan

greiðslutímann. Vextir vega því þungt í upphafi.

Víkjandi skuldabréf Skuldabréf sem víkja fyrir öðrum kröfum á hendur

skuldara.

Fasteignatryggð skuldabréf Fasteign er lögð að veði sem trygging fyrir greiðslu.
Skuldabréf með breytilegum vöxtum Vextir taka breytingum í hlutfalli við tiltekna

viðmiðun.

Breytanleg skuldabréf Skuldabréf sem breyta má í hlutabréf á fyrir fram

ákveðnu gengi.

Innkallanleg skuldabréf Útgefandi/eigandi hefur rétt til að innkalla

skuldabréfið fyrir gjalddaga.

Uppboð skuldabréfa

Uppboð á skuldabréfum fór fram á ríkisbréfum, ríkisvíxlum og spariskírteinu í fyrsta skipti á Íslandi árið 1992 og hefur aukist jafnt og þétt síðan þá. Þetta fyrirkomulag er í auknum mæli í takt við uppboðsleið á sölu á skuldabréfa erlendis, sem er þar algengasti sölumátinn þegar skuldabréf eru gefin út. Væntanlegir kaupendur skuldabréfanna leggja inn tilboð um magn og verð á bréfunum. Útgefandinn fer yfir tilboðin, sem þarf að skila á réttum tíma, og ákveður hvaða tilboðum skuli tekið. Það fer bæði eftir heildarupphæð tilboða og því verði, sem boðið er. Uppboð ríkisverðbréfa árið 1993 fór fram á miðvikudögum, fjögur í hverjum mánuði, samkvæmt dagskrá sem ríkissjóður gaf út. Spariskírteini og ríkisskuldabréf voru boðin upp einu sinni í mánuði og ríkisvíxlar tvisvar í mánuði. Árið 1994 breytti ríkissjóður dagskránni. Þriggja, sex og tólf mánaða ríkisvíxlar voru boðnir upp í fyrstu viku hvers mánaðar, fimm og tíu ára spariskírteini í annari viku hvers mánaðar og þriggja mánaða ríkisvíxlar og tveggja ára ríkisbréf í þriðju viku.[4]

Kaupendur skuldabréfa erlendis eru helst tryggingafélög, fjárfestar, lífeyrissjóðir, verðbréfasjóðir og aðrir, sem vilja ávaxta fé til langs tíma.[4] 


Tengt efni

Tilvísanir

  1. Páll Hreinsson: Viðskiptabréf, bls. 30-31
  2. 2. tl. 2. gr. laga nr. 11/2008, um sértryggð skuldabréf.
  3. Landsbanki Íslands um ríkisskuldabréf - http://bankinn.landsbankinn.is/fjarhagur/2011/08/18/Um-Rikisskuldabref/[óvirkur tengill]
  4. 4,00 4,01 4,02 4,03 4,04 4,05 4,06 4,07 4,08 4,09 4,10 4,11 4,12 4,13 4,14 Eignarstýring Íslandsbanka - http://vib.is/library/Files/Baekur/Verdbref-og-ahaetta/VerdbrefOgAhaetta.pdf

Heimildir

VÍB - Eignarstýringarþjónusta Íslandsbanka sótt þann 12.05.2015