Theodor Heuss

Theodor Heuss
Theodor Heuss árið 1953.
Forseti Vestur-Þýskalands
Í embætti
12. september 1949 – 12. september 1959
KanslariKonrad Adenauer
ForveriFyrstur í embætti
EftirmaðurHeinrich Lübke
Persónulegar upplýsingar
Fæddur31. janúar 1884
Brackenheim, Konungsríkinu Württemberg, þýska keisaraveldinu
Látinn12. desember 1963 (79 ára) Stuttgart, Baden-Württemberg, Vestur-Þýskalandi
ÞjóðerniÞýskur
StjórnmálaflokkurFrjálsi demókrataflokkurinn
MakiElly Knapp (g. 1908; d. 1952)
HáskóliLudwig-Maximilian-háskóli
Undirskrift

Theodor Heuss (31. janúar 1884 – 12. desember 1963) var þýskur blaðamaður og stjórnmálamaður sem var fyrsti forseti þýska sambandslýðveldisins (öðru nafni Vestur-Þýskalands) eftir seinni heimsstyrjöldina. Heuss var stofnandi og fyrsti leiðtogi Frjálsa demókrataflokksins, sem er frjálslyndur mið-hægriflokkur. Hann var jafnframt einn af aðalhöfundum stjórnarskrár Vestur-Þýskalands.

Æviágrip

Theodor Heuss fæddist nálægt Heilbronn í Württemberg, sunnarlega í Þýskalandi. Hann rakti ættir sínar til Svía sem höfðu komið til Þýskalands í herferðum Gústafs 2. Adolfs í þrjátíu ára stríðinu. Forfeður hans höfðu sest að í Sváfalandi og gerst bændur, vínyrkjumenn, veitingamenn og handverksmenn í Neckar-dalnum. Afi Theodors Heuss hafði hrifist af frjálslyndishugsjónum byltinganna 1848 og Theodor ólst því upp í frjálslyndu og friðarsinnuðu stjórnmálaumhverfi.[1]

Heuss lauk háskólaprófi í þjóðfélagsfræði við Ludwig-Maximilian-háskólann í München þegar hann var 21 árs og sneri sér síðan að blaðamennsku. Árið 1912 varð Heuss aðalritstjóri dagblaðsins Neckar Zeitung í Heilbronn. Sem ritstjóri blaðsins varð hann kunnur fyrir frjálslynda stefnu og fyrir gagnrýni á einræðisstefnu Vilhjálms 2. Þýskalandskeisara. Auk blaðamennskunnar vann Heuss sem prófessor í þjóðfélagsfræðum í Berlín og Stuttgart.[1]

Stjórnmálaferill

Heuss varð náinn samverkamaður frjálslynda stjórnmálamannsins Friedrichs Naumann og var um skeið ritstjóri flokksdagblaðs Naumanns, Hjálparinnar (þ. Die Hilfe). Heuss sat á þýska ríkisþinginu í Berlín á árunum 1924 til 1928 og 1930 til 1933 fyrir flokk Naumanns, Lýðræðisflokkinn. Hann varð ötull gagnrýnandi Adolfs Hitler og gaf árið 1932 út bókina Vegur Hitlers, þar sem hann varaði við hættunni sem stafaði af nasistum. Bók Heuss var meðal þeirra sem voru brenndar í bókabrennum nasista eftir að Hitler náði völdum.[2] Þegar þýska þingið kaus að veita Hitler alræðisvald til bráðabirgða árið 1933 mælti Heuss gegn því að Lýðræðisflokkurinn kysi með frumvarpinu en hlýddi engu að síður fyrirmælum flokksforystunnar þegar hún ákvað að styðja það og greiddi atkvæði með því.[1]

Heuss hélt áfram að skrifa og birta árásargreinar um Hitler í dagblaði sínu þar til nasistar bönnuðu útgáfu þess árið 1936 og bönnuðu honum að birta skrif sín á prenti.[3] Nasistar sviptu Heuss jafnframt prófessorsembætti og bönnuðu honum að hafa afskipti af stjórnmálum. Heuss var atvinnulaus í um áratug en eiginkona hans, kennarinn Elly Heuss-Knapp, vann fyrir fjölskyldunni. Heuss einbeitti sér að ritstörfum á þessum tíma og skrifaði meðal annars ævisögu vinar síns, Friedrichs Naumann.[1]

Eftir ósigur Þýskalands í seinni heimsstyrjöldinni hóf Heuss blaðamannsstörf að nýju í Heidelberg. Hann stofnaði dagblaðið Rhein-Neckar-Zeitung, sem náði miklum vinsældum, og varð árið 1945 menntamálaráðherra í Baden-Württemberg. Árið 1948 var Heuss kjörinn formaður hins nýstofnaða Frjálsa demókrataflokks og lék lykilhlutverk við samningu nýrrar stjórnarskrár fyrir þýska sambandslýðveldið (Vestur-Þýskaland), þar sem hann miðlaði gjarnan málum milli Kristilegra demókrata og Jafnaðarmanna. Heuss beitti sér meðal annars fyrir því að Þýskalandi yrði skipt í sambandslönd með verulega sjálfsstjórn og að aðrar ráðstafanir yrðu gerðar til að draga úr líkum á því að nýr einræðisherra á borð við Hitler gæti náð völdum.[1]

Forseti Vestur-Þýskalands (1949-1959)

Þegar stjórnarskrá þýska sambandslýðveldisins tók gildi þann 12. september 1949 var Heuss kjörinn fyrsti forseti lýðveldisins af sameinuðu þingi Þýskalands. Heuss hlaut 416 atkvæði gegn 312 sem Kurt Schumacher, leiðtogi Jafnaðarmanna, hlaut.[2] Kjör hans til forseta var liður í stjórnarsamkomulagi Kristilegra demókrata og Frjálsra demókrata sem fól í sér að Konrad Adenauer, formaður Kristilega demókrataflokksins, yrði fyrsti kanslari lýðveldisins, en að Heuss myndi gegna hinu táknræna en valdalitla forsetaembætti.[1]

Heuss varð vinsæll forseti sem lagði áfram áherslu á frjálslyndar stjórnmálahugsjónir en kom fram án þess að hygla einum stjórnmálaflokki og var kunnur fyrir gamansemi og virðuleika. Hann hlaut einróma endurkjör til annars fimm ára kjörtímabils í júlí árið 1954.[1]

Tilvísanir

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 „Heuss forseti 75 ára í dag“. Morgunblaðið. 31. janúar 1959. bls. 6.
  2. 2,0 2,1 „Theodor Heuss: Hann hefir verið kjörinn fyrsti forseti vestur-þýzka lýðveldisins“. Tíminn. 15. september 1949. bls. 5-6.
  3. „Heuss: ný stjarna á himni Þýskalands“. Samvinnan. 1. febrúar 1950. bls. 21; 27.


Fyrirrennari:
Karl Dönitz
(1945, sem forseti Þýskalands)
Forseti Vestur-Þýskalands
(12. september 194912. september 1959)
Eftirmaður:
Heinrich Lübke