Tjingveldið

Tjingveldið (kínverska: 清朝, Qīng cháo; mansjúmál: Daicing gurunð; mongólska: Манж Чин Улс) einnig kallað Mansjúveldið var síðasta keisaraættin sem ríkti yfir Kína frá 1644 til 1912. Keisaraættin kom frá mansjúættbálkinum Aisin Gioro í Mansjúríu og hóf að leggja Kína undir sig 1644. Mansjúmenn gerðu uppreisn gegn hinu ríkjandi Mingveldi undir stjórn Nurhacis 1616 og lýstu yfir stofnun Síðara Jinveldisins. 1636 breyttu þeir nafninu í Tjingveldið og 1644 lögðu þeir Peking undir sig. Þeir náðu fullum yfirráðum yfir Kína 1683 en hankínverjar (sem eru meirihluti íbúa Kína) litu alla tíð á Tjingveldið sem erlend yfirráð.
Tjingveldinu tók að hnigna hratt eftir miðja 19. öld, ekki síst vegna þrýstings frá evrópsku nýlenduveldunum og Japan. Keisaraveldið var lagt niður í kjölfar Xinhai-byltingarinnar og keisaraekkjan Longyu sagði af sér fyrir hönd síðasta keisarans Puyi 12. febrúar 1912.
