Ulrike Meinhof
Ulrike Marie Meinhof (7. október 1934 – 9. maí 1976) var þýskur hryðjuverkamaður og einn stofnmeðlima kommúniska hryðjuverkahópsins Rote Armee Fraktion (RAF eða „rauða herdeildin“). Hópurinn var einnig oft kallaður „Baader-Meinhof-hópurinn“ í höfuðið á Meinhof og meðstofnanda hópsins, Andreas Baader. Samtökin frömdu ýmis ódæðisverk í Vestur-Þýskalandi á sjöunda og áttunda áratugnum og voru um hríð stimpluð sem „þjóðfélagsóvinur númer eitt“ af stjórnvöldum og fjölmiðlum.[1]
Áður en hún snerist til hryðjuverka var Meinhof blaðamaður í vinstrisinnaða stúdentablaðinu Konkret og hafði þar vakið athygli fyrir ofstækisfullar og byltingarsinnaðar skoðanir sínar.[2] Meinhof tók árið 1969 þátt í að skipuleggja flótta Andreasar Baader úr fangelsi eftir að hann hafði verið handtekinn fyrir að kveikja í tveimur verslunarhúsum í mótmælaskyni gegn Víetnamstríðinu og stofnaði síðan með honum og kærustu hans, Gudrun Ensslin, samtökin RAF. Samtökin frömdu meðal annars bankarán upp á um eina milljón þýskra marka, komust í skotbardaga við lögreglumenn og sprengdu sprengjur við bandaríska sendiráðið í Frankfurt am Main.[2]
Baader og Meinhof voru handsömuð af vestur-þýskum stjórnvöldum árið 1972; Meinhof nokkuð síðar en Baader.[3] Réttarhöldum yfir Meinhof var enn ekki lokið árið 1976, en þá fannst hún látin í fangaklefa sínum. Opinber skýring var sú að Meinhof hefði framið sjálfsmorð en margir drógu þessa skýringu í efa og dauði hennar vakti því talsverðar deilur í Vestur-Þýskalandi.[4][5]
Tilvísanir
- ↑ „Þjóðaróvinur númer eitt“. Morgunblaðið. 17. júní 1972. Sótt 31. janúar 2018.
- ↑ 2,0 2,1 „Morð og aftökur í nafni hugmyndafræði“. Morgunblaðið. 12. desember 1972. Sótt 31. janúar 2018.
- ↑ „Meinhof tekin föst“. Þjóðviljinn. 17. júní 1972. Sótt 31. janúar 2018.
- ↑ „Var Ulrike Meinhof myrt?“. Þjóðviljinn. 11. maí 1976. Sótt 31. janúar 2018.
- ↑ „Meinhof var myrt“. Dagblaðið. 24. júlí 1976. Sótt 31. janúar 2018.