Winnipeg Falcons
Winnipeg Falcons (eða Falcons) (á íslensku aðeins nefndir Fálkarnir) var ísknattleikslið Vestur-Íslendinga sem var stofnað árið 1908.[1][2] Stofnendur voru bæði norðan- og sunnanmenn í Winnipeg. Lið Fálkanna fóru á Ólympíuleikana í Antwerpen fyrir hönd Kanada árið 1920 og urðu ólympíumeistarar það árið. Allir meðlimir í sigurliði Fálkana voru af íslenskum ættum nema einn, en sá hét „Huck“ Woodman, og var varamaður. Af Fálkunum í ólympíuliðinu þótti Frank Fredrickson einna bestur. Mikið var einnig látið af snilld Mike Goodmans. Liðið leystist upp nokkrum árum eftir sigurinn, þar eð sumum var boðið að spila í liðum í Bandaríkjunum.[3]
Meðlimir Fálkana ólympíuárið
- Jacob Walter "Wally" Byron, markvörður.
- Halli (Slim) Halderson, hægri sóknarmaður.
- Frank Fredrickson, miðju sóknarmaður og fyrirliði
- Konráð Jónasson "Konnie" Jóhannesson, bakvörður.
- Magnús "Mike" Goodman, vinstri vængmaður.
- Robert John Benson, bakvörður.
- Kristmundur "Chris" Númi Friðfinnson, varamaður.
- Allan Charles "Huck" Woodman, varamaður.
- Óli Björnsson, aðstoðamaður.
Forseti liðsins var Hebbie Axford, en þjálfari Fálkanna var Guðmundur Sigurjónsson Hofdal, þá þekktur sem Guðmundur "Gordon" Sigurjonsson.[4][5]
Heimildir
- ↑ „Íslendingar vinna sér frægð!“. Voröld. 30. desember 2019. bls. 1. Sótt 28. nóvember 2022 – gegnum Tímarit.is.
- ↑ Óskar Ófeigur Jónsson (9. febrúar 2018). „„Íslenska" liðið sem vann Ólympíugull fyrir næstum því hundrað árum“. Vísir.is. Sótt 29. nóvember 2022.
- ↑ Steinþór Guðbjartsson (3. febrúar 2002). „Fálkarnir um alla framtíð“. Morgunblaðið. bls. 1B–5B. Sótt 29. nóvember 2022 – gegnum Tímarit.is.
- ↑ Óskar Ófeigur Jónsson (27. apríl 2020). „Hundrað ár síðan að „Ísland" vann Ólympíugull“. Vísir.is. Sótt 29. nóvember 2022.
- ↑ „Íshokkílið Fálkanna og forsvarsmenn“. Morgunblaðið. 3. febrúar 2002. bls. B4. Sótt 2. febrúar 2020.
Frekari lesning
- Tryggvi Oleson (ritstj.), Saga Íslendinga í Vesturheimi, V. bindi, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1953, bls. 228-229.