Þór (norræn goðafræði)
Þór sem einnig er kallaður Ása-Þór eða Öku-Þór (hann heitir á þýsku Thor/Donar, Þórr á norrænu og Þunor á fornensku) er þrumuguð í norrænni goðafræði. Hann er sterkastur allra ása og sagður verndari ása og manna. Honum er oft lýst sem sterklegum og rauðskeggjuðum með stingandi augnaráð. Þór er mest dýrkaður allra Ása að fornu og nýju.
Þór var samfélagsgoð, verndari þinga og þeirra sem yrkja jörðina en einnig himnagoð og hamar hans er tákn þrumu og eldinga. Himnarnir skulfu við þrumur þær og eldingar sem fylgdu honum er hann reið yfir himinhvolfið og klettar og fjöll brustu. Margar sagnir bæði grimmlegar og skoplegar eru af ferðum hans til Jötunheims að berja á jötnum.
Þór býr í höll sem heitir Bilskirnir í ríki sínu sem kallast Þrúðvangur. Í Bilskirni voru um 540 herbergi (fimm hundruð gólfa og fjórir tigir)[1] og var stærst allra húsa sem menn kunnu skil á.[2]
Fjölskylduhættir
Þór er sonur Óðins og Jarðar og er verndari mannanna og Miðgarðs. Kona hans er Sif og börn þeirra eru Þrúður og Móði en einnig á Þór soninn Magna með jötunmeynni Járnsöxu. Einnig átti Sif son sem var stjúpsonur Þórs. Hann hét Ullur. Í Snorra-Eddu segir: „Ullur heitir einn, sonur Sifjar, stúpsonur Þórs. Hann er bogmaður svo góður og skíðfær svo að enginn má við hann keppast. Hann er fagur álitum og hefur hermanns atgervi. Á hann er og gott að heita í einvígi.“[1]
Einkennisgripir
Þór á nokkra dýrgripi sem einkenna hann. Fyrst má nefna vagn sem hann ferðast á en hann er dreginn af tveimur höfrum sem heita Tanngrisnir og Tanngnjóstur. Á ferðum sínum át Þór oft hafra sína til kvöldverðar, safnaði svo beinum þeirra saman eftir matinn og vígði þá til lífs á ný með hamri sínum. Vagninum ók hann um himininn og það fylgja honum bæði þrumur og eldingar.
Aðrir dýrgripir í eigu Þórs eru megingjörð, járnglófar og stafurinn Gríðarvölur sem hann fékk hjá gýginni Gríði. Merkasti gripurinn er þó hamarinn Mjölnir sem er máttugasta vopn hans í baráttunni við jötna og jafnframt tákn Þórs. Mjölnir eða Þórshamarinn er nú eitt helsta tákn heiðinna manna.
Vikudagur
Þórsdagur var nefndur eftir ásnum og helst það nafn á flestum germönskum málum (til dæmis hósdagur á færeysku) en Jón Ögmundsson biskup afnam hin heiðnu daganöfn á Íslandi.
Fimmtudagur er kenndur við Þór í flestum germönskum tungumálum, svo sem þýsku (Donnerstag), ensku (Thursday) dönsku, sænska og norsku (torsdag).
Dýrkun
Þór var einkum dýrkaður í vesturhluta Noregs og á Íslandi. Hann var mjög vinsælt goð og við kristnitökuna á Íslandi var hann sá ás sem erfiðast var að útrýma. Margs konar athafnir voru tengdar honum. Til dæmis var hamar lagður í kjöltu brúðar við brúðkaup, honum haldið yfir höfði nýfædds barns og mynd af hamri klöppuð á landamerkjasteina eða ristur á grafsteina. Norrænir menn báru oft hamarsmen úr silfri um hálsinn.
Ragnarök
Í Ragnarökum mun Þór berjast við erkióvin sinn Miðgarðsorm og munu þeir drepa hvor annan.
tilvísanir
- ↑ 1,0 1,1 Snorri Sturluson, Gylfaginning 31.
- ↑ Eddukvæði, Grímnismál 24. erindi