Þriðja enska borgarastríðið

Cromwell við Dunbar, málverk eftir Andrew Carrick Gow.

Þriðja enska borgarastríðið (1649 – 1651) var þriðji hluti þeirra átaka sem þekkt eru sem Enska borgarastyrjöldin. Eftir aftöku Karls 1. hylltu Skotar son hans, Karl 2. konung Englands, Írlands og Skotlands. Þann 15. ágúst 1649 hélt Oliver Cromwell með lið sitt til Írlands meðan Robert Blake hélt flota Róberts Rínarfursta föstum í Kinsale. Cromwell barði niður uppreisn konungssinna af mikilli hörku um veturinn. Í maí 1650 fól hann Henry Ireton stjórn hersins á Írlandi og hélt aftur til Englands þar sem þingið óttaðist innrás frá Skotlandi. Karl 2. hafði þá náð samkomulagi við skoska sáttmálamenn eftir langar samningaviðræður. Hann steig á land í Skotlandi 23. júní. Fimm dögum síðar hélt Cromwell norður til að taka við stjórn hersins á landamærum ríkjanna.

Eftir að hafa beðið eftir flota með birgðir handa hernum hélt Cromwell norður eftir ströndinni til Edinborgar. Þar mætti honum miklu stærri skoskur her undir stjórn David Leslie 29. júlí svo hann neyddist til að hörfa aftur til Dunbar. Óagaður og illa búinn her Leslies tók þegar að leysast upp og þegar orrustan við Dunbar hófst voru herirnir nær jafnstórir. Herstjórnarlist Cromwells varð til þess að enski herinn vann yfirburðasigur og gerði her konungssinna að engu. Herinn lagði suðurhéruð Skotlands undir sig í kjölfarið en komust ekki lengra um veturinn. Leslie hörfaði og þjálfaði upp nýjan her norðan við Forth-fjörð. Cromwell náði Edinborgarkastala á sitt vald á aðfangadag. Sumarið eftir hélt Cromwell með allt lið sitt norður yfir Forth-fjörð. Við þetta voru allir vegir til Englands óvarðir og Karl 2. greip tækifærið. Þann 31. júlí hélt her konungssinna inn í England þar sem Karl vonaðist til að gamlir konungssinnar og öldungakirkjumenn myndu fylkja sér undir merki hans. Cromwell og ríkisráðið í Westminster höfðu hins vegar séð þetta fyrir og hafið undirbúning. Cromwell sendi John Lambert með riddaralið til að elta innrásarherinn, konungssinnar í Englandi voru undir ströngu eftirliti og vopnabirgðir færðar í öruggt skjól. Karl kom til Worcester 22. ágúst. Orrustan um Worcester 3. september var vandlega undirbúin af Cromwells hálfu og konungssinnar biðu algjöran ósigur. Karl slapp naumlega og eftir sex vikur á flótta í dulargervi tókst honum loks að komast til Frakklands. George Monck fékk það hlutverk að kveða niður leifar uppreisnarinnar í Skotlandi og síðasta vígi konungssinna, Dunnottar-kastali, féll eftir langt umsátur 26. maí 1652.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.