Sáttmálahreyfingin
Sáttmálahreyfingin var mikilvæg pólitísk og trúarleg hreyfing í Skotlandi á 17. öld. Uppruni hreyfingarinnar lá í andstöðu skoska þingsins við tilraunir Englandskonunga til að koma á biskupakirkju í Skotlandi þar sem flestir aðhylltust öldungakirkju í samræmi við boðun Kalvíns. Þessi átök áttu sér rætur í skosku siðbótinni.
Þjóðarsáttmálinn
Sáttmálahreyfingin dregur nafn sitt af nokkrum sáttmálum eða bandalögum skoskra mótmælenda frá tímum skosku siðbótarinnar þar sem hópar bundust fastmælum að halda hinn nýja sið og vinna að siðbót Skotlands. Presturinn John Craig samdi síðan „þjóðarsáttmálann“ 1581 sem byggðist á trúarjátningunni frá 1560 þar sem valdi páfa og kenningum kaþólsku kirkjunnar var hafnað. Þessi sáttmáli var tekinn upp af kirkjuþingi skosku kirkjunnar og undirritaður af Jakobi 6.. Vaxandi einveldistilburðir Jakobs urðu til þess að fram komu tveir andstæðir flokkar á skoska þinginu; „kirkjuflokkur“ Andrews Mellville og „hirðflokkur“ Jakobs konungs. Eftir að Jakob tók við ensku krúnunni náði hann loks yfirhöndinni. Hann fullmannaði alla biskupsstóla í Skotlandi og lét handtaka Melville.
Nýi þjóðarsáttmálinn
Þegar Karl 1. gerði aðalráðgjafa sinn, William Laud, að erkibiskupi í Kantaraborg 1633 hóf hann röð umbóta innan ensku kirkjunnar og hugðist gera hið sama í Skotlandi. Hann gerði skosku biskupana að meðlimum í stjórnum og ráðum sem fóru með framkvæmdavaldið í Skotlandi og ræddi auk þess um að endurheimta það land sem skoskir aðalsmenn höfðu rænt kirkjuna meðan á siðbreytingunni stóð. Þetta varð til þess að skoskir aðalsmenn gerðu með sér „aðalsmannasáttmálann“ árið 1637. Presturinn Alexander Henderson og lögfræðingurinn Archibald Johnston of Warriston voru fengnir til að semja texta fyrir nýjan þjóðarsáttmála sama ár.
Sáttmálinn var tilbúinn í upphafi árs 1638. Hann hafnaði öllum breytingum sem gerðar höfðu verið á skosku kirkjunni frá fyrri þjóðarsáttmálanum 1581 og hafnaði auk þess með öllu pápískum og hjátrúarfullum helgisiðum, á sama hátt og skoska þingið hafði áður gert. Sáttmálinn var undirritaður í kirkjugarði Grábræðrakirkjunnar í Edinborg 28. febrúar 1638 og eintök af honum síðan send út til undirskriftar. Í nóvember sama ár ráku sáttmálamenn alla biskupana á kirkjuþingi í Glasgow. Þetta varð til þess að Karl hélt með herlið gegn Skotum og hóf fyrra Biskupastríðið án þess að kalla saman enska þingið. Það reyndist honum ómögulegt og hann neyddist til að undirrita friðarsamkomulag þar sem hann samþykkti að boða nýtt kirkjuþing um kirkjuskipanina í Skotlandi.
Nýja kirkjuþingið staðfesti allar ákvarðanir þingsins í Glasgow. Árið 1640 löggilti skoska þingið auk þess sáttmálann og gerði undirritun hans að skyldu fyrir alla skoska þegna. Í reynd hafði skoska þingið þannig gert skosku kirkjuna að öldungakirkju og lagt niður kirkjuskipan biskupakirkjunnar. Við þetta gat konungur ekki unað og Karl hóf því að undirbúa síðara Biskupastríðið. Skotar gersigruðu hins vegar hersveitir konungs í orrustunni við Newburn og friðarviðræður hófust í kjölfarið milli skoska þingsins og langa þingsins sem Skotar neyddu Karl til að boða. Þetta sama þing átti síðan eftir að samþykkja dauðadóm yfir Karli og stofnun Enska samveldisins.
Þríríkjastríðin
Næstu árin voru borgarastyrjaldir í öllum þremur konungsríkjunum. Í Skotlandi höfðu sáttmálamenn yfirhöndina og voru í reynd ríkisstjórn landsins. Árið 1642 sendu þeir herlið til að vernda skoska landnema í Ulster fyrir írskum uppreisnarmönnum í Írsku uppreisninni 1641. Árið 1643 sendi skoska þingið herlið til Englands til að berjast með enska þinghernum gegn konungssinnum í kjölfar gerðar nýs sáttmála (Solemn League and Covenant) milli þinganna sem líka kvað á um kirkjuskipan en var hæfilega loðinn til að bæði þingin gátu samþykkt hann. Þetta leiddi hins vegar til upphafs borgarastyrjaldar í Skotlandi þar sem konungssinnar tóku til vopna gegn sáttmálamönnum. Borgarastyrjöldin stóð frá 1644 til 1647 og dró fram í dagsljósið þann klofning sem var milli skoskra öldungakirkjumanna, biskupakirkjumanna og kaþólikka, og þá pólitísku og menningarlegu gjá sem var milli hálandanna og láglandanna.
Árið 1646 gafst Karl 1. upp fyrir Skotum en þrátt fyrir miklar tilraunir neitaði hann staðfastlega að samþykkja sáttmálann sem Skotar höfðu gert við enska þingið. Skotar seldu hann því í hendur enska þingsins. Vaxandi tortryggni milli Skota og enska þingsins leiddi að lokum til styrjaldar milli þeirra og samkomulags Skota við Karl 2. 1650 gegn því að hann samþykkti báða sáttmálana. Karl var krýndur Skotakonungur við Scone í janúar 1651. Afleiðingin varð sú að Cromwell leiddi New Model Army inn í skosku láglöndin, gersigraði Skota í orrustunni við Dunbar og neyddi þá til að samþykkja inngöngu í Enska samveldið. Með þessu voru pólitísk völd sáttmálahreyfingarinnar brotin á bak aftur.
Endurreisn konungdæmis og „Drápstíminn“
Þegar konungdæmi var endurreist í Englandi og Karl 2. settist í valdastól hafnaði hann sáttmálunum og lýsti þá ólögmæta fyrir hvern þann sem héldi opinbert embætti. Biskupar voru skipaðir að nýju í Skotlandi og prestar sem neituðu að hlýða þeim voru reknir. Uppreisnarprestar hófu þá að predika á laun undir berum himni og tilraunir yfirvalda til að sporna gegn slíkum söfnuðum leiddu til vopnaðrar uppreisnar 1666 en hópur illa vopnaðra sáttmálamanna var gersigraður í orrustunni við Rullion Green 28. nóvember. Stjórnin notaði hermenn úr hálöndunum til að hafa stjórn á sáttmálamönnum.
Önnur uppreisn braust út árið 1679 en stjórnin sigraði uppreisnarmenn í orrustunni við Bothwell Brig 22. júní. Ósigrar og ofsóknir stjórnarinnar á hendur sáttmálamönnum urðu til þess að herða marga þeirra í afstöðu sinni. Árið eftir uppreisnina samdi hópur þeirra Sanguhar-yfirlýsinguna að frumkvæði prestsins Richard Cameron. Í yfirlýsingunni sögðu þeir upp trúnaði við konung, öfugt við fyrri sáttmálana sem höfðu lýst konungshollustu í orði þótt þeim væri stefnt gegn kirkjuskipun konungs. Konungur ákvað nú að þurrka þessa hreyfingu út með valdi. Í kjölfarið fylgdi „Drápstíminn“ þegar viðurlög við því að mæta ekki í messu, útipredikunum og að neita að sverja konungi hollustueið, urðu strangari og aftökur og pyntingar urðu algengar. Þúsundir voru líflátnar á þessum tíma.
Öldungakirkjan staðfest
Drápstímanum lauk með Dýrlegu byltingunni 1688. Stéttaþing í Edinborg studdi þá Vilhjálm til valda (eftir að stór hópur Cameronista mætti til að sýna honum stuðning) og Vilhjálmur gerði öldungakirkju að opinberri kirkjuskipan í Skotlandi með Act of Settlement árið eftir. Lítill hópur sáttmálamanna neitaði þó enn að viðurkenna Vilhjálm þar sem hann var höfuð ensku biskupakirkjunnar (sem konungur Englands) og litu svo á að skoska kirkjan hefði verið gerð að ríkiskirkju. Skoska kirkjan hefur síðan þá verið öldungakirkja en deilur hafa oft risið um sjálfstæði hennar gagnvart ríkisvaldinu.