Alfred Hermann Fried

Alfred Hermann Fried
Fæddur11. nóvember 1864
Dáinn5. maí 1921 (56 ára)
ÞjóðerniAusturrískur
StörfBlaðamaður
TrúGyðingdómur
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1911)

Alfred Hermann Fried (11. nóvember 1864 – 5. maí 1921) var austurrískur blaðamaður og friðarsinni sem var virkur á árunum fyrir fyrri heimsstyrjöldina.

Fried stofnaði tímaritið Die Friedens-Warte, sem talaði fyrir friðarhyggju í anda stefnuskrár Frieds, Grundlagen des Revolutionären Pazifismus (1908). Fried vann ásamt Berthu von Suttner í Friðarhreyfingu Þýskalands og Austurríkis og stofnaði Friðarbandalag fjölmiðla í apríl árið 1909 í Vín. Fried flúði til Sviss á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Árið 1911 hlaut hann friðarverðlaun Nóbels ásamt Tobias Asser fyrir störf sín í þágu friðar.

Fried var jafnframt talsmaður fyrir esperantó. Hann var höfundur kennslu- og orðabókar í tungumálinu ásamt þýsk-esperantó og esperantó-þýskrar orðabókar sem kom út árið 1903 og aftur 1905.

Æviágrip

Alfred Fried fæddist í Vín og lauk skólagöngu sinni þegar hann var 15 ára. Frá árinu 1883 vann hann sem bóksali í Berlín og hóf síðar eigin útgáfu. Fried varð friðarsinni árið 1881 eftir að hafa sótt ljósmyndasýningu af stríðsvettvangi. Tíu árum síðar fór Fried að beita sér fyrir birtingu friðaráróðurs.

Árið 1892 hóf Fried ásamt Berthu von Suttner útgáfu á friðarsinnaða tímaritinu Die Waffen nieder!, sem nefnt var eftir samnefndri skáldsögu eftir Suttner.[1] Í því tímariti, og síðar í tímaritinu Die Friedens-Warte frá árinu 1899, þróaði Fried friðarhugmyndir sínar.[2] Fried tók þátt í stofnun Þýsku friðarsamtakanna (þ. Deutsche Friedensgesellschaft) árið 1893[1] og talaði síðan fyrir stofnun alþjóðlegra friðarsamtaka. Frá árinu 1894 sótti Fried ýmsar friðarráðstefnur og alþjóðlegar þingráðstefnur í Brussel, Búdapest, Kristjaníu, og Vín. Hann skrifaði skýrslur fyrir þýska fjölmiðla af ráðstefnunum og kom þeim í dreifingu.

Frá 1896 til 1900 ritstýrði Fried tímariti þýsku friðarsamtakanna, Monatliche Friedenskorrespondenz, og árið 1899 varð hann ritstjóri Die Waffen nieder!. Sama ár var hann viðstaddur friðarráðstefnu í Berlín og árið 1902 sótti hann opnun friðar- og stríðsminjasafns í Lucerne. Árið 1903 varð hann meðlimur í Alþjóðlegri friðarstofnun í Genf. Þann 9. febrúar árið 1908 gekk hann í Sókratesarstúku Frímúrarareglunnar í Vín. Ásamt prófessornum Otfried Nippold stofnaði Fried árið 1911 Samband fyrir alþjóðasáttum (þ. Verband für internationale Verständigung)[3] með það að markmiði að fjölga liðsmönnum í alþjóðlegu friðarhreyfingunni. Sambandið varð fljótt vænt um elítisma, sem Fried þótti miður.[4]

Í fyrri heimsstyrjöldinni flúði Fried til Sviss og talaði þar fyrir uppbyggingu Þjóðabandalags. Fried var mjög gagnrýninn í garð Versalasamningsins og var um margt ósáttur með Þjóðabandalagið í þeirri mynd sem það varð til. Fried lést árið 1921, þá 56 ára, í Vín.

Friðarhugmyndir

Friðarstefna Frieds eins og hann lýsti henni í ritverkinu Handbuch der Friedensbewegung var undir áhrifum hugsuða á borð við Jean de Bloch. Hugmyndafræði hans var frábrugðin hugmyndum Berthu von Suttner að því leyti að hann lagði meiri áherslu á siðferði og siðareglur.[5] Fried þróaði það sem hann kallaði „vísindalega friðarstefnu“.[5] Líkt og Marx taldi Fried að samfélagsöfl myndu hafa áhrif á stjórnmálasviðið. Hann taldi að efnahagsleg gagnvirkni myndi leiða til aukinna tengsla milli samfélaga sem myndi síðan leiða til alþjóðastjórna og alþjóðadómstóla sem myndu tryggja áframhaldandi frið.[6]

Ritverk

  • Handbuch der Friedensbewegung, 1905
  • Die Grundlagen des revolutionären Pacifismus, 1908
  • Das internationale Leben der Gegenwart, 1908
  • Handbuch der Friedensbewegung, 2 Bde., 1911-1913
  • Kurze Aufklärungen über Wesen und Ziel des Pacifismus, 1914
  • Der Weltprotest gegen den Versailler Frieden, 1919

Tilvísanir

  1. 1,0 1,1 Karl Holl, Pazifismus, Frankfurt am Main, 1988, bls. 44.
  2. "Die Friedens-Warte"
  3. Karl Holl, Pazifismus in Deutschland, Frankfurt am Main, 1988, bls. 95-96.
  4. Karl Holl, op. cit., bls. 97.
  5. 5,0 5,1 Karl Holl, op. cit., bls. 76.
  6. Karl Holl, op. cit., bls. 77.