Milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar
Milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar Intergovernmental Panel on Climate Change | |
---|---|
Skammstöfun | IPCC |
Stofnun | 1988 |
Höfuðstöðvar | Genf, Sviss |
Forstöðumaður | Jim Skea |
Móðurfélag | Alþjóðaveðurfræðistofnunin Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna |
Vefsíða | www.ipcc.ch |
Milliríkjanefndin um loftslagsbreytingar (e. Intergovernmental Panel on Climate Change eða IPCC) er stofnun innan Sameinuðu þjóðanna sem ætlað er að safna saman vísindalegum, tæknilegum, félags- og efnahagslegum upplýsingum um grundvöll þekkingar á loftslagsbreytingum af mannavöldum.[1]
Milliríkjanefndin var stofnuð árið 1988 af Alþjóðaveðurfræðistofnuninni og hlaut formlega viðurkenningu Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna með yfirlýsingu þann 6. desember sama ár.[2] Nefndin hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2007 ásamt Al Gore, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna.
Stjórn
Núverandi formaður IPCC er breski orkuvísindamaðurinn Jim Skea.[3] Fyrri formenn stofnunarinnar voru sænski veðurfræðingurinn Bert Bolin (1988-1997), breski efnafræðingurinn Robert Watson (1997-2002), indverski hagfræðingurinn Rajendra Pachauri (2002-2015) og suður-kóreski hagfræðingurinn Hoesung Lee (2015-2023).[4]
Skipulag og starfsemi
IPCC gerir ekki eigin frumrannsóknir, heldur vinnur það úttektir á vísindalegri þekkingu á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Úttektirnar eru aðallega byggðar á faglegri ritrýni og greinum sem hafa verið birtar í ritrýndum tímaritum.[1] Þrír mismunandi vinnuhópar gera úttektirnar: Sá fyrsti fjallar um vísindalega þekkingu á veðurfari og loftslagsbreytingum, annar vinnuhópurinn leggur mat á tjónnæmi félags-, efnahags- og náttúrulegra kerfa, neikvæðar og jákvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga og möguleika á aðlögun og sá þriðji metur leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðrar leiðir til að sporna við loftslagsbreytingum.[1]
Nefndin lagði fyrstu skýrslu sína fram árið 1990 á annarri Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Genf. Skýrslan leiddi meðal annars til samþykktar Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna árið 1992. Í kjölfar samningsins hefur Milliríkjanefndin birt stöðuskýrslur sínar um loftslagsmál og hnattræna hlýnun með reglulegu millibili. Í fimmtu stöðuskýrslunni, sem kom út árið 2014, var komist óyggjandi að þeirri niðurstöðu að áhrif manna á loftslagið væru greinileg og að losun gróðurhúsalofttegunda hefði þá aldrei verið meiri í seinni tíð.[2] Þá var komist ótvírætt að þeirri niðurstöðu að hlýnun loftslags væri óumdeilanleg og að hlýnun loftslagsins frá árinu 1950 væri fordæmalaus þótt leitað væri aftur um árþúsundir í loftslagssögunni.[5] Milliríkjanefndin lagði fram sérstaka skýrslu árið 2018 þar sem hún lagði áherslu á aðeins væri hægt að koma í veg fyrir meiriháttar raskanir á helstu lífkerfum jarðarinnar með því að halda hnattrænni hlýnun innan við 1,5 gráður fyrir árið 2100.[6]
Gagnrýni og deilumál
Í janúar árið 2010 var bent á rangfærslu í úttekt IPCC frá árinu 2007 þar sem því var haldið fram að jöklar Himalajafjalla gætu bráðnað fyrir árið 2035. Nefndin viðurkenndi mistök sín og að þessi staðhæfing hefði verið byggð á vangaveltum úr óritrýndu viðtali en ekki ritrýndri rannsókn.[7]
Tenglar
Tilvísanir
- ↑ 1,0 1,1 1,2 Halldór Björnsson (8. maí 2007). „Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC)“. Veðurstofa Íslands. Sótt 3. janúar 2020.
- ↑ 2,0 2,1 Júlíus Sólnes (25. febrúar 2016). „Um loftslagsrannsóknir og reiknilíkön“. Morgunblaðið. Sótt 7. janúar 2020.
- ↑ „IPCC elects Jim Skea as the new Chair — IPCC“. Sótt 29. júlí 2023.
- ↑ Atli Ísleifsson (24. febrúar 2015). „Loftslagstoppur hættir eftir ásakanir um kynferðislega áreitni“. Vísir. Sótt 7. janúar 2020.
- ↑ „Úttektarskýrsla IPCC: Áhrif mannkyns á loftslag eru skýr“. Veðurstofa Íslands. 27. september 2013. Sótt 7. janúar 2020.
- ↑ Kjartan Hreinn Njálsson (2018). „Brýnt að halda hlýnun Jarðar undir 1,5 gráðum“. Fréttablaðið. Sótt 7. janúar 2020.
- ↑ Damian Carrington (2010). „IPCC officials admit mistake over melting Himalayan glaciers“ (enska). The Guardian. Sótt 7. janúar 2020.