Arlon

Skjaldarmerki Lega
Upplýsingar
Hérað: Hainaut
Flatarmál: 118,64 km²
Mannfjöldi: 27.986 (1. janúar 2011)
Þéttleiki byggðar: 236/km²
Vefsíða: [1]
Borgarmynd
Miðborg Liege með Maas

Arlon (Arel á lúxemborgísku; Aarlen á hollensku) er höfuðborg belgíska héraðsins Lúxemborgar. Hún er ein elsta borg Belgíu. Íbúar eru aðeins 28 þúsund en þar með er Arlon langminnsta héraðshöfuðborg Belgíu.

Lega og lýsing

Arlon liggur nær suðaustast í héraðinu og nema eystri bæjarmörkin að furstadæminu Lúxemborg. Næstu stærri borgir eru Lúxemborg til austurs og Sedan í Frakklandi til vesturs. Til Brussel eru 200 km til norðvesturs. Arlon liggur í 404 metra hæð milli tveggja hæðarhryggja í Ardennafjöllum. Mikill landbúnaður er í kringum bæinn. Þar renna engar ár.

Söguágrip

Rómverjar reistu bæ á staðnum árið 52 f.Kr. sem þeir nefndu Orolaunum. Því gerir Arlon tilkall til þess að vera elsta borg Belgíu. Reyndar gera Tongeren og Tournai það líka. Arlon lá við krossgötur. Norður/suðurleiðin lá frá Tongeren til Metz, en austur/vesturleiðin frá Reims til Trier. Vel fyrir fall Rómaveldis flæddu germanir yfir svæðið. Arlon varð að greifadæmi. 1214 varð borgin hluti af hertogadæminu Lúxemborg. Arlon varð síðan eign Búrgúndar, Habsborgara og síðan Spánverja á 16. öld. Borgin kom lítið við sögu í frelsisstríði Niðurlanda, en 1558 réðist Frans frá Lorraine þó á hana og eyddi henni að miklum hluta. Arlon var endurreist en brann á ný 1785. Árið 1793 og 94 fóru fram nokkrar orrustur milli fransks byltingarhers og Austurríkismanna, sem endaði með því að Austurríkismenn drógu sig til baka úr héraðinu. Í kjölfarið hertóku Frakkar borgina, sem innlimu hana Frakklandi. Frakkar drógu sig ekki í hlé fyrr en við fyrra tap Napoleons 1814. 1830 var konungsríki Niðurlanda stofnað, sem Arlon varð hluti af, eins og allt furstadæmið Lúxemborg. En þegar Belgar gerðu uppreisn gegn Hollandi 1839, ákváðu frönskumælandi menn í Lúxemborg að taka þátt í uppreisninni. Borgin Arlon var ekki á meðal þeirra. Þegar uppreisninni lauk með sjálfstæði Belgíu, var samt ákveðið að Arlon skyldi tilheyra belgíska hluta Lúxemborgar, þar sem engar borgir væru þar í grennd sem gætu tekið að sér hlutverk héraðshöfuðborgar. Því varð Arlon belgísk, þrátt fyrir að þar væri töluð lúxemborgíska, en ekki franska. Næstu áratugi fjölgaði þar hins vegar frönskumælandi íbúum og nú er svo komið að flestir borgarbúar tala frönsku. Arlon var fyrsti belgíski bærinn sem þjóðverjar hertóku í upphafi heimstyrjaldarinnar fyrri 1914. Hann var einnig meðal fyrstu bæja sem Þjóðverjar náðu í innrás þeirra í Belgíu 1940. Borgarstjórinn var Þjóðverjum hliðhollur og starfaði með þeim allt stríðið. Hann var skotinn til bana 1946. Síðustu áratugi hefur Arlon vaxið talsvert, því margir sem starfa í furstadæminu Lúxemborg kjósa að búa þar. Árið 2004 komst borgin aftur í heimsfréttirnar vegna dómsmáls barnaníðingsins Marc Dutroux en réttað var yfir honum þar í borg.

Viðburðir

Karneval er haldið í Arlon á hverju vori fyrir páska. Það sver sig í ætt við karneval í Sviss, þ.e. fólk fer í skrúðgöngur klætt skrúðklæðum. Á hátínni tíðkast að afhenda karnevalsprinsinum borgarlyklana á formlegan hátt.

Vinabæir

Arlon viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir eða bæi:

Byggingar og kennileiti

  • Marteinskirkjan, reist 1914.
  • Lúxemborgarsafnið (sögusafnið) er eitt ríkulegasta í Belgíu, en þar má finna rómverska listmuni og grafarlist frankaríkisins.
  • Hlutar gamla rómverska borgarmúrsins frá 3. öld eru enn sýnilegir á nokkrum stöðum.
  • Í Arlon er bænahús gyðinga og þar er elsti kirkjugarður gyðinga í Belgíu.

Gallerí

Heimildir