Elfráður ríki
Elfráður hinn ríki eða Alfreð mikli (fornenska: Ælfrēd eða Ælfrǣd) (f. milli 847 og 849 – d. 26. október 899) var konungur af Wessex frá 871 til um 886 og konungur Engilsaxa frá um 886 til 899. Hann var yngsti sonur Aðalúlfs konungs af Wessex. Faðir Elfráðs lést þegar Elfráður var ungur og þrír bræður hans tóku við konungdómi áður en Elfráður komst að. Elfráður varð konungur eftir dauða bróður síns, Aðalráðs, og eyddi þaðan af nokkrum árum í landvarnir gegn innrásum víkinga.
Elfráður vann mikilvægan sigur gegn víkingum í orrustunni við Edington árið 878 og gerði síðan samning við víkingana sem kom á svokölluðum Danalögum í norðurhluta Englands. Elfráður sannfærði í staðinn víkingahöfðingjann Guttorm til þess að gangast undir kristna trú. Elfráði tókst að verja konungsríki sitt gegn árásum víkinga og varð í kjölfarið voldugasti leiðtogi í Englandi.[1] Hann var jafnframt fyrsti konungur Vestur-Saxa sem tók sér titilinn „konungur Engilsaxa“.
Elfráður var rómaður fyrir að vera bæði lærður og rólyndur maður og fyrir að stuðla að aukinni menntun þegna sinna. Hann sá meðal annars til þess að grunnmenntun engilsaxneskra þegna færi fram á ensku fremur en á latínu. Elfráður gerði jafnframt breytingar á lagakerfi og hernaðarskipulagi konungsríkis síns og bætti lífsskilyrði þegna sinna.
Máli er vikið að Elfráði í nokkrum íslenskum fornheimildum, þar á meðal Egils sögu. Er þar vikið að sameiningu Englands undir stjórn Elfráðs og sagt:
„Elfráður hinn ríki hafði tekið alla skattkonunga af nafni og veldi; hétu þeir þá jarlar, er áður voru konungar eða konungasynir; hélst það allt um hans ævi og Játvarðar, sonar hans, en Aðalsteinn kom ungur til ríkis, og þótti af honum minni ógn standa; gerðust þá margir ótryggir, þeir er áður voru þjónustufullir.“[2]
Tilvísanir
- ↑ B.A.E. Yorke (2001). "Alfred, king of Wessex (871–899)". In Lapidge, Michael; et al. The Blackwell Encyclopaedia of Anglo-Saxon England. Blackwell Publishing. bls. 27–28.
- ↑ „Egils saga“. Snerpa. Sótt 18. desember 2018.
Fyrirrennari: Aðalráður |
|
Eftirmaður: Játvarður |