Elizabeth Cady Stanton
Elizabeth Cady Stanton | |
---|---|
Fædd | 12. nóvember 1815 Johnstown, New York, Bandaríkjunum |
Dáin | 26. október 1902 (86 ára) New York, Bandaríkjunum |
Þekkt fyrir | Störf á sviði kvenréttinda. |
Maki | Henry Brewster Stanton (g. 1840) |
Börn | 7 |
Foreldrar | Daniel Cady (1773–1859) & Margaret Livingston Cady (1785–1871) |
Undirskrift | |
Elizabeth Cady Stanton, (12. nóvember 1815 – 26. október 1902) var bandarísk kvenréttindakona og einn af upphafsmönnum kvenfrelsisbaráttunnar á Vesturlöndum. Ólíkt mörgum öðrum í kvenréttindabaráttu 19. aldarinnar barðist Stanton fyrir meiru en bara kosningarétt kvenna. Stanton hafði einnig áhuga að bæta forræðisrétt kvenna, eignarétt þeirra, vinnurétt og stjórn kvenna á barneignum.
Fyrstu árin
Stanton fæddist í Johnstown, New York þann 12. nóvember 1815. Foreldrar hennar voru Margaret Livingston og Daniel Cady, þingmaður og hæstaréttindadómari. Ólíkt mörgum konum á hennar tíma, fékk Stanton klassíska menntun í Johnstown Academy, þar sem hún lærði latínu, grísku og stærðfræði til sextán ára aldurs. Árið 1830 hóf Stanton nám í Troy Female Seminary, kvennaskóla stofnuðum af Emmu Willard.
Árið 1840 giftist Stanton Henry Brewster Stanton, fréttamanni og baráttumanni gegn þrælahaldi. Stanton tók nafn eiginmanns síns við giftinguna, og skráði nafn sitt ávallt sem Elizabeth Cady Stanton eða E. Cady Stanton, en hún neitaði að svara Mrs. Henry B. Stanton. Hún hélt því fram að konur væru einstaklingar og sagði að „sú hefð að kalla konur frú Jón Þetta og frú Tómas Hitt, og blökkumenn Sambó og Zip Coon, er hefð sem byggist á þeirri hugmyndafræði að hvítir menn stjórni öllu“. Einnig neitaði Stanton að bindast manni sínum hefðbundnum kirkjuheitum. Hluti af kirkjulegri giftingu innifól heit brúðarinnar til mannsins að „elska, virða og hlýða“ honum. Stanton neitaði að „hlýða“ honum en í stað sór að koma fram við hann sem jafningja.
Eftir hjónabandið hóf Henry Stanton lögfræðinám hjá föður Stantons. Árið 1843 fluttu hjónin til Boston, þar sem Stanton var virk í baráttunni gegn þrælahaldi, og starfaði með fólki eins og Louisa May Alcott, Frederick Douglass, Ralph Waldo Emerson, William Lloyd Garrison og Robert Lowell.
Stanton og eiginmaður hennar eignuðust sjö börn milli 1842 og 1859. Hjónaband þeirra var ekki auðvelt. Henry Stanton, alveg eins og Daniel Cady, var á móti kvenfrelsi, og vegna vinnuskyldna og ferðalaga bjuggu hjónin lengur frá hvoru öðru heldur en saman. Bæði þóttu þó hjónin hjónabandið vera gott, og þau voru gift í 47 ár, þar til Henry Stanton lést árið 1887.
Upphaf kvennabaráttunnar
Árið 1840 hitti Stanton Lucretiu Mott á alþjóðlegri ráðstefnu gegn þrælahaldi í London. Mott var kvekari, prestur og baráttukona gegn þrælahaldi. Konurnar tvær urðu vinir þegar þeim tveimur var neitað að taka þátt í ráðstefnunni, þrátt fyrir að Mott hafði verið valin opinber erindreki fyrir samfélag sitt í Bandaríkjunum. Eftir miklar umræður var konunum leyft að sitja ráðstefnuna á svæði sem var lokað af frá aðalsalnum, svo að karlarnir þyrftu ekki að horfa á þær. William Lloyd Garrison, sem mætti á ráðstefnuna eftir að atkvæðin voru talin, sat þar með þeim til að mótmæli þessari ákvörðun. Mott og hugmyndir hennar um kvenfrelsi höfðu mikil áhrif á Stanton.
Hugmyndir Stantons um kvenfrelsi styrktust eftir að hjónin fluttu til Seneca Falls, New York árið 1847. Stanton saknaði lífs síns í Boston, og leiddist líf húsmóðurinnar. Hún skrifaði seinna:
„Ég fann fyrir óánægju með hlutverk konunnar sem eiginkona, húsmóðir, fóstra, og andlegur leiðbeinandi heimilisins. Þegar ég sá hvernig heimili leystust upp í skipulagsleysi án stöðugrar umsjónar kvenna, og þegar ég horfði á þreyttan, áhyggjufullan svip þessara kvenna, sá ég að eitthvað þyrfti að gerast til að bæta samfélagið, og þá sérstaklega hlut kvenna í því samfélagi. Reynsla mín úr Alþjóðlegu ráðstefnunni gegn þrælahaldi, allt sem ég hafði lesið um lögrétt kvenna, og kúgunina sem ég sá hvarvetna, allt þetta geystist um sálu mína, styrkt af minni eigin reynslu. Það var eins og öll náttúruöflin hefðu komið saman til að leiða mig áfram. Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera og hvar ég ætti að byrja. Það eina sem ég vissi var að ég þyrfti að halda opinberan fund til að ræða um og mótmæla núverandi ástand.“ [1]
Árið 1848 skipulagði Stanton ásamt Mott og fleiri konum fyrstu bandarísku kvenfrelsisráðstefnuna, sem haldin var 19. og 20. júlí í Seneca Falls. Stanton skrifaði hina svokölluðu Afstöðuyfirlýsingu, sem hún las upp á ráðstefnunni. Þessi yfirlýsing var byggð á sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna, og lýsti því yfir að karlar og konur væru jafningjar. Stanton krafðist í þessari yfirlýsingu að konur fengju kosningarétt. Þessi yfirlýsing var samþykkt af gestum ráðstefnunnar, og átti stuðningur Fredericks Douglass mikinn þátt í þeirri samþykkt.
Árið 1851 hitti Stanton Susan B. Anthony. Þær tvær urðu einn helsti drifkraftur kvenréttindabaráttunnar í Bandaríkjunum. Anthony var einhleyp og hafði tækifæri til að ferðast um Bandaríkin að tala um kvenréttindi, eitthvað sem Stanton var ekki í aðstöðu til að gera á þeim tíma. Stanton var betri rithöfundur og skrifaði margar af ræðum Anthony, en Anthony hélt utan um skipalag þessarar nýju hreyfingar. Smám saman fengu fleiri konur leiðtogahlutverk í hreyfingunni, meðal annars Lucy Stone og Matilda Joslyn Gage.
Klofningur í kvennabaráttunni
Eftir bandarísku borgarastyrjöldina olli Stanton klofningi í kvenréttindabaráttunni, þegar hún og Susan B. Anthony neituðu að styðja breytingu á bandarísku stjórnarskránni til að gefa blökkumönnum kosningarétt. Stanton var mótfallin því að gefa svörtum karlmönnum kosningarétt þegar konum, hvort sem þær voru svartar eða hvítar, var enn neitað að kjósa. Stanton taldi að þar væri aðeins verið að fjölga karlkjósendum sem væru reiðubúnir til að neita konum um kosningarétt. Bæði Stanton og Anthony voru reiðar því að fyrrum stuðningsmenn þeirra og starfsfélagar í baráttunni gegn þrælahaldi neituðu að umorða fyrirhugaðar lagabreytingar svo að konur fengju kosningarétt ásamt blökkumönnum.
Smám saman breyttust skrif Stantons og hún fór að sýna kynþáttafordóma, eitthvað sem hún hafði ekki sýnt áður. Til dæmis hélt hún því fram að Bandaríkin þyrftu á kvenkjósendum að halda, konum sem hefðu þann „auð, menntun og fágun“ til að vega upp á móti nýjum kjósendum, hvort sem þeir væru fyrrverandi þrælar eða innflytjendur, sem kæmu úr „fátækt, fáfræði og niðurlægingu“. Sagnfræðingar hafa reynt að afsaka þessar skoðanir Stantons með því að leggja áherslu á mikil vonbrigði Stantons með áhugaleysi afnámshreyfingarinnar um réttindi kvenna.
En eitt er víst að skrif hennar urðu þess valdandi að margir stuðningsmenn hennar urðu henni afhuga, þar á meðal Frederick Douglass. Douglass taldi að hvítar konur væru þá þegar valdamiklar vegna tengsla þeirra við feður, eiginmenn og bræður, og að fyrrverandi þrælar ættu meiri rétt á kosningarétti til að bæta upp fyrir hræðilega meðferð á þeim á tímum þrælahalds. Douglass hélt því fram að blökkukonur myndu fá nægileg réttindi þegar blökkumenn, feður þeirra, eiginmenn og bræður, fengju kosningarétt. Því taldi Douglass að kosningaréttur blökkumanna væri mikið mikilvægari en kosningaréttur kvenna.
Stanton var ósammála Douglass. Þrátt fyrir þá kynþáttafordóma sem hún sýndi stundum í skrifum sínum, trúði Stanton því að allir ættu að hafa kosningarétt, karlar og konur, hvítir og svartir. Hún taldi að Douglass væri ekki að tala fyrir hönd blökkukvenna, og að ef konur hefðu ekki kosningarétt, myndu blökkukonur vera dæmdar í „þrefaldan þrældóm“ þrælahalds, kyns og kynþáttar.
Anthony, Olympia Brown og Frances Gage studdu Stanton í baráttu hennar fyrir kosningarétti fyrir alla, en aðrar konur yfirgáfu hreyfingu hennar. Lucy Stone, Elizabeth Blackwell og Julia Ward Howe voru mjög andfallnar þessari „allt eða ekkert“ hugmyndafræði Stantons. Árið 1869 hafði þessi umræða klofið kvennahreyfinguna, og tvær nýjar hreyfingar voru stofnaðar. Anthony og Stanton stofnuðu National Woman's Suffrage Association (NWSA) í maí 1869. Þessi hreyfing hafði það að sjónarmiði að berjast fyrir almennum kosningarétti, og studdi ýmsar hugmyndir sem þóttu mjög róttækar, eins og rétt kvenna til að skilja, rétt eiginkvenna til að neita eiginmanni sínum um kynlíf og rétt kvenna til að sitja í kviðdómi. Stone, Blackwell, og Howe stofnuðu American Woman's Suffrage Association (AWSA) í nóvember 1869. Þessi hreyfing studdi lagabreytingarnar sem gáfu blökkumönnum kosningarétt og hafði það að leiðarljósi að smám saman auka þennan rétt þar til konur hefðu rétt til að kjósa.
Sojourner Truth, fyrrverandi þræll og kvenfrelsiskona, vann með Stanton og Anthony, sem og Matilda Gage. Þrátt fyrir tilraunir þeirra til að bæta fyrirhugaðar lagabreytingar var upphaflega lagagreinin samþykkt árið 1870, og blökkumenn fengu kosningarétt, en ekki konur.
Síðustu árin
Á árunum eftir þessa baráttu hóf Stanton ásamt fleiri konum að berjast fyrir breytingum á túlkun laganna. Þær héldu því fram að stjórnarskráin hefði þegar gefið konum kosningarétt í lagagrein sem skilgreindi borgara sem „allar manneskjur sem eru fæddar í Bandaríkjunum eða hafa fengið bandarískan ríkisborgararétt“. Árið 1872 reyndi Anthony að greiða atkvæði, og 1880 reyndi Stanton hið sama. Hundruð annarra kvenna reyndi að kjósa að þessum árum í hinum ýmsu fylkjum Bandaríkjanna, án árangurs.
Stanton skrifaði margar bækur sem voru mikilvægar fyrir kvenréttindabaráttuna í Bandaríkjunum. Árið 1881 kom út fyrsta bindið í verkinu The History of Woman Suffrage. Þetta verk innihélt sögu kvennabaráttunnar ásamt skjölum og bréfum sem henni tengdist. Stanton, Anthony og Gage skrifuðu fyrstu þrjú bindin, en verkinu var ekki lokið fyrr en sjötta bindið, skrifað af Ida Harper, kom út árið 1922. Einnig gaf Stanton út The Women's Bible árið 1895, og sjálfsævisöguna Eighty Years & More: Reminiscences 1815-1897 árið 1898. Árið 1868 stofnaði Stanton ásamt Anthony og Parker Pillsbury tímaritið Revolution.
Skrif Stantons og ferðalög um Bandaríkin á síðari árum hennar voru mikilvæg fyrir þróun kvennabaráttunnar. Hún stuðlaði að því að kosið var um kosningarétt kvenna í New York, Missouri og Kansas árið 1867 og í Michigan árið 1874. Hún reyndi að bjóða sig fram sem þingmaður árið 1868, og ýtti áfram lagagrein í stjórnarskrá New York fylkis sem gaf konum eignarrétt. Hún ferðast einnig mikið um Evrópu og árið 1888 hjálpaði hún til við stofnun International Council of Women.
Árið 1890 sameinuðust loks kvennahreyfingarnar tvær í Bandaríkjunum í National American Woman Suffrage Association (NAWSA). Stanton var mjög mótfallin þessari sameiningu, þar sem hún taldi AWSA vera of íhaldssamt og kristilegt. Ólíkt flestum öðrum kvenfrelsiskonum á þessum tíma taldi Stanton að kristnar trúarsetningar héldu konum niðri og gerðu lítið úr framlagi þeirra til samfélagsins. Þrátt fyrir andstöðu hennar við hugmyndir AWSA varð Stanton fyrsti forseti NAWSA, en varð þó aldrei vinsæl meðal íhaldssamari meðlima samtakanna.
Þann 18. janúar 1892 talaði Stanton, ásamt Anthony, Stone, og Isabellu Beecher Hooker í bandaríska þinginu um kosningarétt kvenna. Þar hélt Stanton eina af frægustu ræðum sínum, Einsemd sálarinnar. Rétt eins og í Afstöðuyfirlýsingu sinni 45 árum fyrr hélt Stanton því fram að kvenfrelsi væri ekki bundið við kosningarétt kvenna heldur væri kvenfrelsi óaðskiljanlegt stöðu kvenna í samfélaginu.
„Einvera mannssálarinnar og nauðsyn þess að hver sem er getur geti treyst á eigin getu hlýtur að veita hverjum einstaklingi þann rétt til að kjósa eigið umhverfi. Besta ástæðan fyrir því að gefa konunni kost á æðri menntun, kost á að þróa hug sinn og líkama, kost á frelsi til að hugsa aðhafast eins og hún kýs helst; besta ástæðan fyrir því að veita henni algera lausn frá ánauð hefðar, ósjálfstæðis, hjátrúar, lausn frá bæklandi áhrifum óttans -- besta ástæðan fyrir kvenfrelsi er einveran og ábyrgð konunnar á eigin lífi. Þetta er tilefni þess að við biðjum um rödd fyrir konuna í stjórn þess lands sem hún býr í; að við biðjum um rödd í kirkjunni sem hún er beðin um að trúa á; að við biðjum um jafnrétti í samfélaginu þar sem hún er aðalþáttakandi; að við biðjum um stað í vinnulífinu, þar sem hún getur unnið fyrir sér. Við biðjum um þessi réttindi því að þetta er frumburðarréttur konunnar til fullveldis, því, sem einstaklingur, þá verður hún að geta reitt á sjálfa sig.“[2]
Stanton dó í New York þann [26. október] [1902], næstum því tuttugu árum áður en konur fengu kosningarétt í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir að Stanton hafi ekki fengið að fara í reglulegan háskóla, fengu dætur hennar háskólamenntun.
Stanton var ávallt mjög umdeild í kvennahreyfingunni vegna hugmyndir hennar um kirkjuna og áherslur hennar á atvinnuþáttöku kvenna og getnaðarvarnir. Kvenréttindakonur 20. aldarinnar litu því oft upp til Anthony sem stofnanda kvenréttindabaráttu Bandaríkjanna. Það var ekki fyrr en á síðustu áratugum 20. aldarinnar að Stanton tók sinn réttmæta stað í sögubókunum.
Bækur
- History of Woman Suffrage, 1.-3. bindi (skrifuð með Susan B. Anthony and Matilda Joslyn Gage). 1881-1922
- Solitude of Self (ræða haldin árið 1892 sem var seinna gefin út í bókarformi.)
- Woman's Bible. 1895
- Eighty Years & More: Reminiscenses 1815-1897. 1898
Verk eftir Stanton á netinu
- Declaration of Rights ásamt lista yfir þá sem skrifuðu undir (Women's Rights National Historical Park; National Park Service)
- Eighty Years and More (University of Pennsylvania digital library)
- The Slave's Appeal Geymt 12 október 2006 í Wayback Machine (Ræða Elizabethar Cady Stantons hjá the Antislavery Literature Project)
- The Woman's Bible (Project Gutenberg)
Heimildir
- Fyrirmynd greinarinnar var „Elizabeth Cady Stanton“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 11. nóvember 2007.
Tenglar
- National Park Service: Elizabeth Cady Stanton House
- PBS: Not for Ourselves Alone: The Story of Elizabeth Cady Stanton and Susan B. Anthony (Ken Burns)
- The New York Times, October 27, 1902: Elizabeth Cady Stanton's Obituary
- Womens eNews: Stanton's Family Memorabilia Geymt 19 apríl 2005 í Wayback Machine
- Women's Rights National Historical Park (National Park Service): Elizabeth Cady Stanton's biography