Frúarkirkjan í Brugge
Frúarkirkjan í Brugge (Onze-Lieve-Vrouwekerk) er gotnesk kirkja í flæmsku borginni Brugge í Belgíu. Elsti hluti hennar er frá öndverðri 13. öld og er því meðal allra elstu tígulsteinabyggingum í Flæmingjalandi. Í grafhvelfingu kirkjunnar eru steinkistur Karls hins djarfa, greifa af Búrgund, og dóttur hans Maríu af Búrgund. Eitt mesta listaverk kirkjunnar er Madonnulíkneski eftir Michelangelo.
Saga kirkjunnar
Langskipið var reist 1210-1230 og er gert úr tígulsteini. Kirkjan er því meðal allra elstu tígulsteinabygginga í Flæmingjalandi. Næsti byggingafasi hófst í upphafi 14. aldar og risu þá þverskipið, kórinn og turninn. Verkinu lauk 1335. Turninn sjálfur er 122 metra hár. Hann er enn í dag hæsta bygging Brugge og næsthæsti kirkjuturn heims úr tígulsteini (á eftir Marteinskirkjunni í Landshut í Þýskalandi). Tvö önnur skip voru reist með gamla langskipinu. Það fyrra 1345 og það síðara 1450-74. 1480 voru verklok kirkjunnar í heild.
Maríulíkneski
Í kirkjunni er undurfagurt Madonnalíkneski úr hvítum marmara. Það var Michelangelo sem smíðaði hana 1503 og telst hún mikill dýrgripur. Styttan átti upphaflega að vera í dómkirkjunni í Siena á Ítalíu, en Michelangelo seldi hana kaupmönnunum Jan og Alexander Mouscron frá Flæmingjalandi, sem fluttu hana til Brugge og gáfu kirkjunni. Þetta reyndist vera eina höggmyndin eftir Michelangelo sem flutt var úr landi (Ítalíu) á líftíma hans. Styttan er hin mesta gersemi. Þar er María mey sitjandi og heldur á Jesúbarninu í kjöltu sinni. Tvisvar hefur styttunni verið rænd. Í fyrra skipti tók franskur byltingarher styttuna 1794 og flutti hana til Parísar. Henni var ekki skilað fyrr en 1815. Í síðara skiptið stálu nasistar styttunni 1944 og fluttu til Altaussee í Austurríki þar sem þeir geymdu ýmis listaverk víða að úr Evrópu. Styttunni var skilað eftir stríðslok 1945. Styttan er í dag bak við skothelt gler og er ekki hægt að nálgast hana nær en 5 metra.
Grafhýsi
Í kirkjunni eru tvær viðamiklar steinkistur, ríkulegar skreyttar. Í þeim hvíla Karl hinn djarfi, hertogi af Búrgund, og dóttir hans María. María hafði gifst Maximilian af Habsborg, sem síðar varð keisari þýska ríkisins og hertogi Búrgund. Kista Maríu var smíðuð 1502 af Renier van Thienen, en kista Karls var smíðuð 1562, 85 árum eftir dauða hans. Ofan á kistunum eru bronsstyttur af Karli og Maríu í eðlilegri stærð. Bæði eru þau með kórónu á höfði og er Karl að auki í fullum herklæðum.
Heimildir
- Fyrirmynd greinarinnar var „Onze-Lieve-Vrouwekerk (Brugge)“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 16. nóvember 2012.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Liebfrauenkirche (Brügge)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt 16. nóvember 2012.