Fyrsta krossferðin
Fyrsta krossferðin (1096-1099) var herferð kaþólskra Evrópumanna til miðausturlanda, á hendur múslimum, sem leiddi til þess að borgin helga, Jerúsalem, var hertekin af krossförunum árið 1099. Auk þess stofnuðu þeir fjögur ný ríki í miðausturlöndum, svokölluð krossfararíki.
Bakgrunnur
Á 7. öld tapaði Austrómverska keisaradæmið mestöllum landsvæðum sínum í Norður-Afríku og miðausturlöndum í hendur aröbum, þar á meðal borginni helgu, og landinu helga. Næstu aldir áttu austrómverjar og arabar oft í átökum en Austrómverjum tókst að mestu að halda yfirráðum sínum yfir Anatólíu. Á 11. öld kom fram ný ógn við veldi Austrómverja, en það voru Seljúktyrkir sem tekið höfðu Íslamstrú á 10. öld og stofnað ríki í Persíu og Mesópótamíu. Austrómverjar og Sejúkar mættust í bardaganum við Manzikert árið 1071 þar sem Seljúkar unnu stórsigur og lögðu á næstu árum undir sig mestalla Anatólíu.
Aðdragandi
Krossferðin átti rætur sínar að rekja til þess að Alexíos 1. keisari Austrómverska ríkisins biðlaði til Vestur-Evrópubúa um hernaðaraðstoð í stríði Austrómverja við seljúktyrki. Úrbanus 2. páfi brást við með því að predika herferð gegn múslimum víða í Vestur-Evrópu, en fljótlega varð aðal markmiðið í boðskap hans að ná borginni helgu, Jerúsalem, og landinu helga á vald kristinna manna. Frægasta ræða Úrbanusar á ferðum hans var ræða sem hann hélt í Clermont í Frakklandi þann 27. nóvember árið 1095, en ræðan er gjarnan talin marka upphaf krossferðanna. Nákvæmt innihald ræðunnar er nokkuð á reiki því fimm mismunandi útgáfur af henni hafa varðveist, allar skrifaðar eftir að Jerúsalem hafði verið hertekin af krossförunum árið 1099.
Einn þeirra fyrstu til að svara kallinu var Pétur einsetumaður, prestur frá Amiens. Hann lagði af stað strax í mars 1096, en Úrbanus hafði miðað við að lagt yrði af stað 15. ágúst 1096. Í för með Pétri voru, að talið er, um 40 þúsund manns, flestir illa búnir og óvanir vopnuðum átökum, m.a. konur og börn. Þó voru einnig vel búnir riddarar með í för. Þessi ferð endaði með ósköpum nálægt Nikeu í Anatólíu þegar her Seljúktyrkja stráfelldi liðsmenn Péturs og aðeins nokkur þúsund komust undan. Pétur sjálfur slapp við hörmungarnar því hann var staddur í Konstantínópel, höfuðborg Austrómverska keisaradæmisins, að biðja Alexíos keisara um aðstoð. Pétur og þeir fáu vopnfæru menn sem komust af sameinuðust svo herjum krossfaranna sem komu síðar.
Boðskapur Úrbanusar hafði einnig þau áhrif að ofsóknir á hendur gyðingum jukust talsvert víðsvegar um Evrópu. Úrbanus hvatti aldrei beinlínis til þessara ofsókna en mörgum fannst óþarfi að ferðast langar leiðir til þess að berjast við ókristna menn þegar hægt var ráðast gegn gyðingum í Evrópu, sem margir álitu vera óvini Krists. Einnig er líklegt að margir hafi haft talsverðan fjárhagslegan ávinning af því að ræna eða fjárkúga efnaða gyðinga.
Krossferðin
Fjölmargir aðalsmenn brugðust við predikunum Úrbanusar og héldu af stað með heri sína, áleiðis til Jerúsalem, um haustið 1096 og má þá segja að hin eiginlega krossferð hafi hafist. Á meðal helstu leiðtoga fyrstu krossferðarinnar voru Guðfreður af Bouillon, bróðir hans, Baldvin af Boulogne, Raymond af Touluse og Bohemond af Taranto. Leiðtogarnir fóru mismunandi leiðir í gegnum Evrópu en sameinuðu heri sína við Konstantínópel, þar sem Alexíos keisari tók á móti þeim. Sameinaður her krossfaranna er talinn hafa verið um 30-35 þúsund manns. Herinn hélt af stað frá Konstantínópel, áleiðis til Jerúsalem, á fyrri hluta ársins 1097. Alexíos lét um 2.000 manna austrómverskan her fylgja krossförunum. Eitt af fyrstu verkum þeirra var að hertaka Níkeu af Seljúktyrkjum, fyrir Alexíos. Fyrsta krossfararíkið, Greifadæmið Edessa, var stofnað árið 1098 undir forystu Baldvins af Boulogne. Næst var Furstadæmið í Antiokkíu stofnað, einnig árið 1098, undir forystu Bohemonds af Taranto, en Antiokkía féll í hendur krossfaranna eftir sjö mánaða langt umsátur. Umsátrið um Antiokkíu reyndist krossförunum dýrkeypt og varð til þess að margir yfirgáfu krossferðina. Einnig sneri Austrómverski herinn, sem hafði fylgt krossferðinni frá Konstantínópel, til baka inn á austrómverskt landsvæði. Þetta átti eftir að hafa mjög neikvæð áhrif á samskipti krossfara og Austrómverja um alla framtíð.
Krossfararnir komu til Jerúsalem þann 7. júní árið 1099 og hófu þegar í stað umsátur um borgina. Jerúsalem var þá undir stjórn Fatimíd veldisins sem ríkti yfir Egyptalandi. Umsátrinu lauk rúmum mánuði síðar, þann 15. júlí, þegar krossförunum tókst að brjótast innfyrir borgarmúrana. Í kjölfarið fór fram mikið blóðbað þar sem krossfararnir myrtu þúsundir múslima og einnig fjölmarga gyðinga. Þann 22. júlí árið 1099 var Konungsríkið Jerúsalem stofnað undir forystu Guðfreðs af Bouillon, þó hann hafi reyndar neitað að taka konungstitil en tók þess í stað titilinn „Verndari Grafarkirkjunnar“. Fatimídar sendu herafla strax í ágúst 1099 gegn hinu nýstofnaða ríki, og hélt Guðfreður þá af stað með það sem eftir var af krossfarahernum til að mæta þeim. Herirnir mættust í bardaga við Ascalon þar sem krossfararnir unnu afgerandi sigur þrátt fyrir að vera mun fámennari. Guðfreður lést svo árið 1100 og var bróðir hans, Baldvin af Boulogne, þá krýndur sem fyrsti konungur Jerúsalem.
Greifadæmið Trípoli var svo stofnað árið 1104, undir forystu Raymonds af Touluse.