Hohhot
Hohhot (mongólska: ᠬᠥᠬᠡᠬᠣᠲᠠ; kínverska: 呼和浩特; rómönskun: Hūhéhàotè), áður þekkt sem Kweisui, er höfuðborg sjálfstjórnarhéraðs Innri-Mongólíu í Alþýðulýðveldinu Kína. Hún er stjórnsýslu-, efnahags- og menningarmiðstöð héraðsins. Nafn hennar er dregið úr mongólsku og þýðir „Bláa borgin“. Borgin er staðsett við Dahei-fljót sem rennur til Gulafljóts. Hún er við jaðar mongólsku grassléttunnar, mikilvægasta kvikfjárræktarsvæðis Kína. Borgin er stundum kölluð „kínverska mjólkurborgin“ þar sem höfuðstöðvar tveggja stærstu mjólkurframleiðanda Kína. Hohhot er einnig mikil iðnaðarborg. Árið 2018 var borgin með um 3,1 milljónir íbúa.
Staðsetning
Hohhot er staðsett í dal við efri hluta Dahei-fljóts (sem er ein þveráa Gulafljóts) og er sunnan við skarð í gegnum Yin-fjöll. Hún liggur að borgunum Baotou og Ordos í vestri, Ulanqab í austri og Shansi héraði í suðri.
Saga
Byggð þar sem Hohhot borg stendur nú, á sér yfir 2.300 ára sögu. Á tímabili stríðsríkja (476 f.Kr. - 221 f.Kr.) fylgdi Wuling konungur (340–295 f.Kr.) Zhao-veldisins (í núverandi héruðum Hebei og Shanxi) útþenslustefnu gagnvart nágrönnum sínum. Eftir hernaðarsigra kom hann á fót Yunzhong sýslu með höfuðstað þar sem nú er Hohhot. Svæði sýslunnar náði á milli Kínamúrsins og Yin-fjalla í suðri.
Á tímum Qin-veldisins (221 f.Kr.– 206 f.Kr.) og Hanveldisins (202 f.Kr.– 220) varð Yunzhong sýsla á landamærum hirðingjaflokka í norðri. Svæðið var jafnan í jaðri þess sem Han kínverjar settu að og Yunzhong varð viðskiptamiðstöð landamæra.
Á svokölluðu Norður-Wei tímabilinu (386 - 557) stofnuðu Xianbei þjóðhópar hirðingja höfuðborgina Shile á graslendinu við Horinger (nú hluti Hohhot). Borgin fékk síðan nafnið Fegzhou á Liao tímabilinu (916 - 1125).
Árið 1581, á tímum Mingveldisins (1368 - 1644) reisti Altan Khan, leiðtogi Tolmud mongóla borg sem fékk nafnið Hohhot á mongólsku og var síðan breytt í Guihua. Árið 1737 á valdatíma Tjingveldisins (1644 - 1911), var komið á sýslunni Suiyuan, með borgina Guisui sem höfuðstað. Þá höfðu Han kínverjar sest að svæðinu í auknum mæli til að rækta frjósama sléttuna. Um miðja 18. öld varð síðan til ný kínversk borg, Suiyuan, um 4 kílómetrum norður af þeirri gömlu. Borgirnar tvær voru síðan sameinaðar undir nafninu Guisui. Varð hin sameinaða borg að markaðsmiðstöð á landmærum gagnvart norðri með stóru samfélagi múslima.
Árið 1928, þegar Suiyuan hérað var stofnað til að auka yfirráð Kínverja yfir Innri-Mongólíu, varð borgin að héraðshöfuðborg. Á hernámstíma Japana (1937–45) varð hún síðan höfuðborg japanska leppríkisins Mengjiang.
Fyrir síðari heimsstyrjöldina var Hohhot fyrst og fremst verslunarmiðstöð. En mikilvægi hennar jókst mjög árið 1922 með lagningu járnbrautar til borganna Beijing og Tianjin í suðaustur og Baotou borg í vestri. Afurðum hirðingja Mongóla sem og kínverskra bænda var betur komið á markað. Handavinnuiðnaður efldist með leðurvinnslu, teppa- og fataframleiðslu.
Eftir seinni heimsstyrjöldina óx borgin hratt og íbúum fjölgaði hratt. En það var ekki fyrr en árið 1954 að borgin var gerð að höfuðborg Innri-Mongólíu undir fyrra nafni Hohhot.
Heiti borgarinnar Hohhot á mongólsku þýðir „bláa borgin“, en blár litur í mongólskri menningu stendur fyrir himni, eilífð og hreinleika.
Lýðfræði
Borgarbúum Hohhot hefur fjölgað talsvert frá tíunda áratug síðustu aldar. Samkvæmt manntali sem gert var árið 2010 voru íbúar borgarinnar um 2,9 milljónir og hafði fjölgað um 430 þúsund frá árinu 2000. Árið 2018 var borgin með um 3,1 milljónir íbúa.
Meirihluti íbúa Hohhot eru Han-Kínverjar. Í manntalinu 2010 voru þeir um 87 prósent íbúa. Séu ættir þeirra raktar nokkra áratugi aftur í tímann eiga flestir forfeður frá Shansi héraði eða Hebei héraði. Mongólar telja um 9 prósent borgarbúa. Flestir þeirra tala kínversku.
Efnahagslíf
Hohhot er borg landbúnaðar og matvælaframleiðslu. Hún er við jaðar hinnar víðáttumikla mongólska grassléttu, mikilvægasta kvikfjárræktarsvæðis Kína. Í borginni er kornmölun, sútun, olíupressun og sykurhreinsun úr rófum, sem og ullarvefnaður. Þá eru tveir stærstu mjólkurframleiðendur Kína, Yili Industrial Group og Mengniu Dairy Co, með höfuðstöðvar í borginni. Því er hún stundum nefnd „kínverska mjólkurborgin“.
Borgin er efnahagsmiðja og iðnaðarmiðstöð Innri-Mongólíu, en er þó einungis þriðja stærsta hagkerfi héraðsins, á eftir Baotou og Ordos. Hún stendur ásamt borgunum Baotou og Ordos undir meira en 60 prósent af heildar iðnaðarframleiðslu héraðsins.
Í borginni eru framleiddir múrsteinar og flísar og meðalstór járn- og stáliðnaður hefur verið stofnaður. Stækkun ræktarlands norður af Hohhot hefur dregið til sín stórar dráttarvéla- og dísilvélaverksmiðjur. Í borginni er líka stór efnaverksmiðja.
Í borginni er umfangsmikil raforkuframleiðsla sem telur tæpan þriðjung hagkerfis Hohhot.
Háskólar
Árið 1957 varð Hohhot aðsetur Háskóla Innri-Mongólíu sem er með um 36.000 nemendur á fjórum háskólasvæðum. Hann er rannsóknarháskóli og er meðal annars með mikilvægan lækninga- og dýralæknaháskóla. Hann er talinn vera einn lykilháskóla Kína.
Meðal annarra háskóla má nefna Viðskipta-og hagfræðiháskóla Innri-Mongólíu, Landbúnaðarháskóla Innri-Mongólíu, Kennaraháskóla Innri-Mongólíu og Tækniháskóla Innri-Mongólíu.
Tenglar
- Jiangxi hérað.
- Kínversk vefsíða borgarstjórnar Hohhot Geymt 27 ágúst 2009 í Wayback Machine.
- Ensk vefsíða Encyclopaedia Britannica um Hohhot.
- Vefsíða Travel China Guide um Hohhot borg.. Ferðahandbók fyrir borgina: Almennar upplýsingar, samgöngur, helstu ferðamannastaði, veður o.fl.