Jóannes Patursson
Jóannes Patursson (6. maí 1866 – 2. ágúst 1946) var færeyskur kóngsbóndi, rithöfundur, skáld og lögþingsmaður í Færeyjum, einn öflugasti baráttumaðurinn fyrir sjálfsstjórn eyjanna og einn þeirra sem mest áhrif hefur haft á sögu þeirra. Í Færeyjum var hann oft einfaldlega kallaður Bóndinn.
Ætt og menntun
Jóannes fæddist í Kirkjubæ, stærstu konungsjörð Færeyja, þar sem forfeður hans höfðu búið í margar kynslóðir, allt frá 1537. Þjóðhetjan Nolseyjar-Páll var langafi hans í móðurætt. Systkini hans fimm urðu öll áberandi í færeysku þjóðlífi. Foreldrar hans vildu veita börnum sínum góða menntun og Jóannes gekk í gagnfræðaskóla í Þórshöfn og síðan í bændaskóla í Noregi að ráði Hannesar Finsen amtmanns. Þar hreifst hann af norskri þjóðernisvitund og baráttu Norðmanna gegn dönskum áhrifum á tungumálið.
Hann tók við búi í Kirkjubæ 1892 af föður sínum. Hann innleiddi ýmsar nýjungar í færeyskum landbúnaði og aflaði sér framhaldsmenntunar í Noregi og Skotlandi. Hann rak bændaskóla heima hjá sér um nokkurt árabil og útskrifaði þaðan um fjörutíu búfræðinga. Hann gerði líka tilraunir með skógrækt en þær tókust ekki sérlega vel.
Þjóðernisvakning
Jóannes og Rasmus Christoffer Effersøe hófu saman baráttu fyrir þjóðernisvakningu í Færeyjum á níunda áratug 19. aldar. Þeir skrifuðu greinar í blaðið Dimmalættingu um samband Færeyja og Danmerkur og nauðsyn þess að varðveita færeyska tungu og stóðu fyrir stofnun Færeyingafélagsins árið 1889. Helstu baráttumál þess voru að hefja færeyska tungu til virðingar og efla samheldni og sjálfsbjargarviðleitni Færeyinga í öllum málum.
Þingmennska
Jóannes var kosinn á Lögþingið árið 1901 fyrir Suðurey og sat þar allt til æviloka en en var fulltrúi Suður-Straumeyjarkjördæmis frá 1906, enda var hann búsettur þar. Þingmenn skiptust í upphafi í frjálslynda og íhaldssama arma en engir formlegir flokkar voru til. En árið 1906 var Sambandsflokkurinn stofnaður og síðan Sjálfstjórnarflokkurinn, og varð Jóannes fyrsti formaður hans. Árið 1901 var Jóannes jafnframt kjörinn á danska þingið sem fulltrúi Færeyja en náði ekki endurkjöri 1906. Hann var einnig fulltrúi á danska Landsþinginu 1918-1920 og 1928-1936.
Jóannes hafði mikinn áhuga á að koma á heimastjórn að íslenskri fyrirmynd og setti fram uppkast að heimastjórnarlögum 1906 en þau fengu ekki framgang. Sama gilti um frumvörp sem hann reyndi að koma fram með 1920 og 1929. Aftur á móti náði eitt helsta baráttumál hans fram að ganga 13. desember 1938, þegar lög um að kennsla í færeyskum skólum skyldi fara fram á dönsku voru endanlega numin úr gildi.
Stofnun Fólkaflokksins
Á fjórða áratugnum var hart deilt í Sjálfstjórnarflokknum um nýja löggjöf um búnaðarmál en samkvæmt henni áttu kóngsbændur (bændur á jörðum í opinberri eigu) að láta af hendi hluta af löndum þeim sem þeir nytjuðu. Jóannes var stærsti kóngsbóndi í eyjunum og var ekki sáttur en lenti í minnihluta í flokknum og varð síðan undir í formannskjöri. Hann klauf sig þá úr flokknum og hóf samstarf við Vinnuflokkinn, borgaralegan flokk sem Thorsteinn Petersen hafði stofnað fáeinum árum áður.
Þó gekk hann ekki formlega úr Sjálfstjórnarflokknum fyrr en 1940, þegar annar frambjóðandi var valinn í hans stað í kjördæmi hans. Þá stofnaði hann ásamt Vinnuflokknum Hin føroyska fólkaflokkin, sem fylgdi rótttækri sjálfstæðisstefnu, enda hafði Jóannes sjálfur orðið sífellt róttækari í sjálfstæðismálum með árunum og vildi nú algjört sjálfstæði.
Hann var kjörinn fyrsti formaður Fólkaflokksins, sem hlaut gott brautargengi í kosningunum, 24,7% atkvæða og sex fulltrúa á Lögþinginu. Enn betur gekk í kosningunum 1943, þegar flokkurinn fékk 12 fulltrúa af 25, en hinir flokkarnir sameinuðust gegn honum. Þá var Jóannes Patursson raunar búinn að láta leiðtogahlutverkið að mestu í hendur Thorsteins Petersen.
Í þjóðaratkvæðagreiðslu 14. september 1946 samþykktu Færeyingar með mjög naumum meirihluta að lýsa yfir sjálfstæði en Jóannes Patursson lifði það ekki, hann dó 2. ágúst, og Danir höfnuðu sjálfstæðisyfirlýsingu Færeyinga og boðað var til kosninga þar sem andstæðingar sjálfstæðis urðu yfirsterkari. Heimastjórn komst aftur á móti á 1948.
Fjölskylda og ritstörf
Kona Jóannesar var íslensk, Guðný Eiríksdóttir frá Karlsskála í Reyðarfirði. Á meðal barna þeirra voru kóngsbóndinn og rithöfundurinn Páll Patursson og stjórnmálamaðurinn Erlendur Patursson. Ættin býr enn í Kirkjubæ og er núverandi kóngsbóndi, Jóannes Patursson, sá sautjándi í röð af Paturssonarætt. Ljóðskáldið Rói Patursson er afkomandi Jóannesar og Guðnýjar.
Jóannes Patursson var afkastamikill rithöfundur og skáld, skrifaði fjölda blaðagreina um stjórnmál, landbúnaðarmál og færeysk þjóðkvæði og dansa og gaf út nokkrar bækur, þar á meðal eina ljóðabók, Yrkingar (1922). Hann stóð fyrir útgáfu á fimm binda verki um dansa og kvæði á árunum 1922-1945. Sjálfur orti hann fjölda tækifæriskvæða sem oft eru sungin í Færeyjum, svo og ættjarðarljóð, barnagælur og fleira.
Heimildir
- Fyrirmynd greinarinnar var „Jóannes Patursson“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 6. apríl 2011.
- „Jóannes Patursson áttræður. Morgunblaðið, 5. maí 1946“.