Jón Óskar
Jón Óskar (Ásmundsson) (18. júlí 1921 – 20. október 1998) var skáld og rithöfundur, einn af frumkvöðlum módernisma í íslenskri ljóðagerð og í hópi atómskáldanna svonefndu.
Ævi og störf
Jón Óskar var fæddur og uppalinn á Akranesi. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1940 og stundaði nám í píanóleik við Tónlistarskóla Reykjavíkur í nokkur ár. Auk þess lærði hann frönsku á námskeiðum Alliance française í Reykjavík og París og ítölsku á námskeiðum og í einkatímum í Róm, Perugia og Genúa.
Rithöfundarferill Jóns Óskars hófst árið 1941. Hann stundaði einnig önnur störf, var píanóleikari í ýmsum danshljómsveitum á árinum 1946-1956 og ræðuritari á Alþingi 1953-1958. Frá 1958 voru ritstörfin hans aðalstarf. Á árunum 1955-1968 var Jón einn af ritstjórum bókmenntatímaritsins Birtings.
Fyrsta bók Jóns Óskars kom út 1952. Hann samdi einkum smásögur og ljóð, en einnig eina skáldsögu, ferðahugleiðingar og rit sagnfræðilegs eðlis. Á árunum 1969 – 1979 komu út í 6 bindum æviminningar hans um líf skálda og listamanna í Reykjavík á árunum 1940-1960. Jón var einnig afkastamikill þýðandi úr ítölsku og frönsku og þýddi m.a. ljóð eftir Baudelaire, Verlaine og Rimbaud auk verka í óbundnu máli eftir Albert Camus, Carlo Levi, Ignazio Silone, Simone de Beauvoir, George Sand og fleiri.
Kona Jóns Óskars var myndlistarkonan Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá.
Helstu verk
Smásögur
- Mitt andlit og þitt, 1952
- Sögur, 1973
Skáldsögur
- Leikir í fjörunni, 1968
Ljóð
- Skrifað í vindinn, 1953
- Nóttin á herðum okkar, 1958 (Kom út í franskri þýðingu Régis Boyer sem La nuit sur nos épaules 1966).
- Söngur í næsta húsi, 1966
- Þú sem hlustar, 1971
- Næturferð, 1982
- Steinn sem syngur (ljóðaflokkur útg. í Frakklandi á íslensku, frönsku og sænsku, frummyndir eftir Maj-Siri Österling), 1993
- Hvar eru strætisvagnarnir? 1995
Endurminningar
- Fundnir snillingar, 1969
- Hernámsáraskáld, 1970
- Gangstéttir í rigningu, 1971
- Kynslóð kalda stríðsins, 1975
- Borg drauma minna, 1977
- Týndir snillingar, 1979
Ferðasögur
- Páfinn situr enn í Róm, 1964
- Undarlegt ferðalag, 1994
Ritgerðir og greinar
- Vitni fyrir manninn, 1978
Sagnfræðileg rit
- Sölvi Helgason (listamaður á hrakningi), 1984
- Konur fyrir rétti, 1987
- Frakklandssaga eftir Sölva Helgason (textinn unninn upp úr handriti af Jóni Óskari sem einnig skrifaði formála og skýringar), 1998
Ljóðaþýðingar
- Ljóðaþýðingar úr frönsku (ásamt ritgerð), 1963
- Ljóðastund á Signubökkum (ásamt ritgerð), 1988
- Undir Parísarhimni (ásamt ritgerð), 1991
Þýðingar í óbundnu máli
- Viktoría eftir Henry Bellaman, 1946
- Plágan eftir Albert Camus, 1952
- Kristur nam staðar í Eboli eftir Carlo Levi, 1959
- Oscar Wilde eftir Hesketh Pearson, 1956 - Jón Óskar þýddi ásamt Haraldi Jóhannssyni
- Allir synir mínir eftir Arthur Miller, LR 1959, ópr.
- Leyndarmál Lúkasar eftir Ignazio Silone, 1961
- Nashyrningurinn eftir Eugène Ionesco, 1961
- Upp á líf og dauða eftir Paul-Émile Victor, 1962
- Yves frændi Íslandssjómaður eftir Jacques Dubois, 1981
- Allir menn eru dauðlegir eftir Simone de Beauvoir, 1982
- Litla Skotta eftir George Sand, 1983
- Grímuleikur eftir Caragiale, Leiklistarskóli Íslands, 1989, ópr.